Stéttarfélög og vinnudeilur

Fimmtudaginn 21. mars 1996, kl. 12:46:46 (4166)

1996-03-21 12:46:46# 120. lþ. 113.1 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur

[12:46]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég hef margar athugasemdir, bæði efnislegar og varðandi málsmeðferð og mun ræða þær síðar. Hins vegar gat hæstv. félmrh. um að eitt af markmiðum þessa máls væri að auka lýðræði varðandi samningsferilinn, m.a. um atkvæðagreiðslu o.fl. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, formaður Þjóðvaka, lagði fyrr í dag til að frv. yrði borið undir launþega og aðra sem málið varðar í almennri atkvæðagreiðslu áður en málið yrði afgreitt endanlega á Alþingi, t.d. milli 2. og 3. umr. Niðurstaðan yrði þá höfð til hliðsjónar við endanlega afgreiðslu másins. Ég vil spyrja hæstv. félmrh. hvort honum finnist að slík málsmeðferð komi til greina. Þetta er vitaskuld mjög óvanaleg aðferð og hugmynd sem hér er lögð til en það ber að hafa í huga að málið er sérstaklega viðkvæmt. Spurningin er hvort þessi málsmeðferð gæti orðið að samkomulagi eða hvort það sé ætlun ríkisstjórnarinnar að knýja fram löggjöf í fullri andstöðu við verkalýðshreyfinguna.