Stéttarfélög og vinnudeilur

Fimmtudaginn 21. mars 1996, kl. 15:04:33 (4170)

1996-03-21 15:04:33# 120. lþ. 113.1 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, BH
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur

[15:04]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Enn og aftur hefur Alþingi fengið það hlutskipti að taka til umfjöllunar hreint ótrúleg vinnubrögð og einstaklega gerræðislega aðför ríkisstjórnarinnar að launafólki og samtökum þess. Enn og aftur er aðförin færð í þann búning að hún byggist á samráði aðila vinnumarkaðarins og ríkisstjórnarinnar. Og enn og aftur verðum við vitni að því að ríkisstjórnin bregst fullkomlega því trausti sem henni hefur verið sýnt með því að leggja fram tillögur til breytinga á lögum, tillögur sem fela í sér lögþvingun í stað þess að velja leið samninga og samráðs.

Nú horfir svo við að sú sem hér stendur er ein af þeim sem tóku þátt í þessu svokallaða samráði við ríkisstjórnina og það er hreint með ólíkindum að verða vitni að þeim vinnubrögðum sem hafa verið viðhöfð af hv. félmrn. í þessu viðkvæma máli. Samráðsviljinn sem vissulega var fyrir hendi í upphafi nefndarstarfsins af fullri einlægni þeirra fulltrúa samtaka vinnumarkaðarins sem tóku þátt í starfi nefndarinnar hefur verið eyðilagður með yfirgangi ráðuneytisins í málinu svo framgangan minnir helst á fíl í postulínsbúð.

Til þess að skýra nánar hvernig staðið hefur verið að málinu er nauðsynlegt að rifja upp forsögu málsins og nefndarstarfsins.

Þann 4. okt. 1994 skipaði þáv. félmrh., núv. hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson, vinnuhóp um samskiptareglur á vinnumarkaði. Samtök launafólks voru beðin um að tilnefna fólk í hópinn og eðli málsins samkvæmt voru menn ekki á eitt sáttir um það hvort rétt væri að taka þátt í slíku samstarfi. Fólk óttaðist einmitt það sem nú hefur gerst að nefndarstarfið væri notað til að gefa ríkisstjórninni færi á að traðka á því grundvallarkerfi sem samningsaðilar á íslenskum vinnumarkaði hafa byggt allt sitt starf á sem byggist á sjálfstæði aðila vinnumarkaðarins til að semja um málefni launafólks og atvinnurekenda. Meðal annars er rétturinn til að semja sameiginlega undirstaða slíks starfs og íhlutun stjórnvalda í þau málefni er óæskileg eigi sá réttur að vera tryggður, en ég mun koma nánar að þessu síðar.

Þegar leitað var til samtaka launafólks um tilnefningar í vinnuhópinn var fallist á það með því skýra og klára skilyrði að nefndinni var ekki ætlað að fjalla um breytingar á vinnulöggjöfinni nema að því leyti sem samtök launafólks töldu æskilegt og innan þeirra marka sem íslenskur vinnuréttur og alþjóðlegir samningar setja okkur. Samtök launafólks settu sig þannig ekki í prinsippinu á móti öllum breytingum á vinnulöggjöfinni, ef slíkar breytingar gætu orðið til bóta og teldust nauðsynlegar. En sá fyrirvari fylgdi reyndar alla tíð að samtök launafólks teldu lögin um stéttarfélög og vinnudeilur í meginatriðum hafa staðist tímans tönn og reynst ágætlega. Hins vegar væri e.t.v. ýmislegt í samskiptum aðila vinnumarkarins sem vert væri að skoða svo greiða mætti fyrir samningsgerð, enda kemur það fram í athugasemdum með frv. sem nú liggur fyrir að tilgangur breytinganna væri sá að auðvelda og einfalda gerð kjarasamninga og stuðla að friðsamlegum samningum er gætu dregið úr átökum á vinnumarkaði. Um þetta eru líklega flestir sammála sem hafa með málefni vinnumarkaðar að gera á einn eða annan hátt.

Framan af fór starfið í nefndinni ágætlega af stað og þar náðist upp þokkalegur umræðugrundvöllur um samskipti aðila vinnumarkaðarins, kosti og galla þess kerfis sem við búum við. Við ríkisstjórnarskiptin mátti greina aukinn vilja ráðuneytisins til að drífa málið áfram. Mikil keyrsla var sett á málið og fundahöld þétt. Þegar undirrituð hætti störfum hjá Alþýðusambandinu vék hún fljótlega sæti úr nefndinni, en á því stigi var nýhafin vinna að gerð áfangaskýrslu þeirrar sem birt er sem fskj. með frv. Þá lá það í mínum huga ljóst fyrir að aðeins örfáar línur á blaði höfðu verið samþykktar sem tillaga að breytingum á lagatexta og fól sá texti í sér breytingu á 5. gr. laganna um stéttarfélög og vinnudeilur og laut að umboði samninganefnda. Sá texti var að öllu leyti byggður upp á því grundvallarsjónarmiði að stéttarfélögin væru lögformlegir samningsaðilar um kaup og kjör launafólks og hann fól ekki í sér skertan rétt stéttarfélaganna á einn eða neinn hátt. Hann byggðist á því að umboð samninganefnda væri sótt til viðkomandi stéttarfélags og í raun er það svo í mínum huga að á meðan stéttarfélögin eru lögformlegir samningsaðilar, þá sé ekki hægt að lögbinda víðtækara umboð til samninganefnda en stéttarfélögin samþykkja.

Þessi texti hefur nú að hluta til verið tekinn upp í breytingar á 5. gr. laganna um stéttarfélög og vinnudeilur, en hann hefur verið skrumskældur og við hann aukið á þann hátt að fátt er líkt með því sem upphaflega var farið af stað með. Þetta er aðeins lítið dæmi um það sem hæstv. ríkisstjórn kallar samráð, lítil dæmisaga um þá misbeitingu sem hún hefur sýnt á svo viðkvæmu réttarsviði sem vinnurétturinn er.

En nefndin hélt áfram störfum sínum, gaf út áfangaskýrsluna og ræddi málin. Þegar hæstv. félmrh. fannst nóg komið af fóðri voru sett fram drög að lagafrv. sem í engu voru lögð fram í sátt, eins og hér hefur komið fram, enda sagði hæstv. ráðherra í fréttum nýlega að það væri aldrei hægt að komast að samkomulagi með svona mál, einhvers staðar þyrfti að höggva á hnútinn. Það er einmitt þetta viðhorf sem einkennir allt starf ríkisstjórnarinnar í þeim málum sem við höfum verið að takast á um hér á liðnum vikum. Virðingarleysi fyrir samráðinu, virðingarleysi fyrir friðsamlegum lausnum og afraksturinn er fullkomin andstaða gervallrar verkalýðshreyfingarinnar í landinu sem þó gekk í upphafi af fullri einlægni til þess verks að skoða hvort ástæða væri til að lagfæra eitthvað í umhverfi aðila vinnumarkaðarins rétt eins og opinberir starfsmenn, kennarar og aðrir gengu til samráðs við ríkisstjórnina í fullkominni einlægni og vilja til að finna lausn á þeim málum sem betur mættu hugsanlega fara.

Stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarinnar kvað á um framfarasókn þjóðarinnar er nú að birtast landslýð í sinni skelfilegu mynd. Í forustu þessarar ríkisstjórnar er sá hinn sami hæstv. forsrh. Davíð Oddsson, sem þakkaði launafólki og verkalýðshreyfingunni ítrekað í kosningabaráttunni fyrir gott samstarf og ábyrgðina sem sýnd hefði verið af þessum aðilum í nafni stöðugleika og þjóðarsáttar, lýsti yfir vilja sínum til að svo mætti verða áfram. En það var ekki langt liðið eftir kosningar þegar hið réttara andlit ríkisstjórnarinnar fór að koma í ljós. Það er ekki hægt að sjá á verkum hennar á síðustu mánuðum að henni sé það efst í huga að bæta launafólki upp það sem það lét af hendi í nafni stöðugleikans og þjóðarsáttarinnar. Þvert á móti á nú að ráðast að rótum þess sem launafólki er helgast, sjálfri tilvist verkalýðshreyfingarinnar. Boðskapurinn felst í því að auka áhrif einstaklinga í stéttarfélögum, að leysa þessa einstaklinga úr viðjum þeirra samtaka sem þeir hafa verið að byggja upp á áratuga löngu tímabili.

Það er reyndar alveg sama hversu oft hæstv. félmrh. klifar á því að það sé ekki verið að vega að verkalýðshreyfingunni með þeim tillögum sem hér liggja frammi. Hann getur klifað á því eins oft og hann vill. Aðförin að verkalýðshreyfingunni felst í því fyrst og fremst að ríkisstjórnin ætlar með lögþvingunum að koma á reglu um innri málefni stéttarfélaga. En það eitt að setja lög um innri málefni stéttarfélaga er brot á þeim grundvallarreglum sem við höfum byggt á um áratuga skeið og á þeim grundvallarreglum sem hinn norræni vinnuréttur byggir á.

Verkalýðshreyfingin á Norðurlöndunum byggir á nokkrum hornsteinum og sá mikilvægasti er að öðrum ólöstuðum rétturinn til að semja sameiginlega. Hann er verndaður sérstaklega í íslenskri löggjöf með því að stéttarfélögunum er falið að vera lögformlegir samningsaðilar um kaup og kjör. Alþjóðavinnumálastofnunin sem Ísland á aðild að hefur gert fjölda samþykkta um málefni vinnumarkaðar og hefur Ísland fullgilt nokkrar þeirra. Ein af grundvallarsamþykktum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar fjallar um félagafrelsi og verndun þess og þar segir m.a., með leyfi forseta:

,,Félög verkamanna og vinnuveitenda skulu eiga rétt á að setja sér lög og reglur, að vera algerlega óháð í vali sínu á fyrirsvarsmönnum sínum, að skipuleggja stjórn sína og starfsemi og setja sér stefnuskrá. Opinber stjórnvöld skulu forðast alla íhlutun er skerða mundi þennan rétt eða hindra löglega beitingu hans.`` Síðar segir, með leyfi forseta, í þessari samþykkt: ,,Landslögum má ekki vera á þann veg háttað að þau skerði ákvæði samþykktar þessarar né heldur má framkvæma þau á þann hátt.``

Þessi samþykkt byggir á því að mikilvægasti þáttur í starfsemi stéttarfélaga og mikilvægasti þátturinn til að tryggja að þau geti sinnt hlutverki sínu, því hlutverki sem við höfum ætlað þeim, er að þau séu óháð íhlutun stjórnvalda, óháð íhlutun opinberra aðila. Lagaboð er sú íhlutun sem varasömust er í þessum efnum og því er lögþvingunin ein og sér brot á þessari samþykkt og reyndar ýmsum fleiri reglum sem Ísland hefur skuldbundið sig til þess að framfylgja.

Rétturinn til að stofna stéttarfélög og ganga í þau er tryggður í 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og tekið er fram að þessi réttindi skulu ekki háð öðrum takmörkunum en þeim sem nauðsynlegar eru í lýðfrjálsu þjóðfélagi vegna öryggis almennings og í öðrum mjög afmörkuðum tilvikum.

[15:15]

Í félagsmálasáttmála Evrópuráðs er lögð megináhersla á rétt frjálsra samningaumleitana vegna aðila vinnumarkaðarins og að stuðla að samkomulagi aðila. Með samningi um efnahagsleg, félagsleg og borgaraleg réttindi er lögð áhersla á rétt stéttarfélaga til að starfa óhindrað og takmarkanir óheimilar á þeim rétti nema í brýnum undantekningartilvikum. Samkvæmt orðalagi allra þessara ákvæða eru réttindin bundin við einstök stéttarfélög. Ég gæti nefnt fleiri samþykktir eða samninga sem íslenska ríkið er skuldbundið af sem benda í sömu átt. Þá hefur sérfræðinganefnd Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, sem er skipuð 12 færustu sérfræðingum á sviði vinnuréttar að mati Alþjóðavinnumálastofnunarinnar alla vega, hefur komist að þeirri niðurstöðu að afskipti ríkisvaldsins af málefnum aðila vinnumarkaðarins sé brot á grundvallarreglum stofnunarinnar sem Ísland hefur staðfest og var þetta mál reyndar til sérstakrar umræðu á þingi stofnunarinnar árið 1994 þar sem rædd var skýrsla er sérfræðinganefndin gaf út um þessi mál.

Ég veit líka að formaður nefndarinnar sem fjallaði um samskiptareglur á vinnumarkaði sat það þing og var viðstaddur þær umræður sem þar fóru fram. En það er alveg greinilegt að hann hefur ekki haft taumhald á hæstv. ríkisstjórn í þessu máli, því að ég þykist vita að hann viti það jafn vel og ég að svona gerir maður ekki, svo höfð séu í frammi fleyg orð.

Það er grundvallaratriði að hafa þessar alþjóðlegu samþykktir í huga þegar fjallað er um breytingar á ákvæðum er snerta tilvistargrundvöll stéttarfélaga og umhverfið í samningum á vinnumarkaði. Með hliðsjón af þeim er það grundvallaratriði að samið sé um breytingar í frjálsum samningum félaga launafólks og atvinnurekenda og að samkomulag sé í höfn og sátt ríki áður en lög eru sett.

Herra forseti. Það liggur ljóst fyrir að sú sátt er ekki til staðar um þetta lagafrv. ekki frekar en um frumvörpin sem snerta opinbera starfsmenn sem hafa verið til umræðu hér á undanförnum vikum og hafa sett allt á annan endann í þjóðfélaginu. Það er líka mikilvægt að hafa það í huga þegar við leitum fyrirmyndar til annarra landa, einkum til Norðurlandanna eins og verið er að gera hér, að þar hefur þessi grundvallarregla verið í heiðri höfð í flestum tilvikum, grundvallarreglan um það að samskipti aðila vinnumarkaðar og stjórnvalda byggi á sátt og samningum. Við getum tekið sem dæmi danska kerfið sem verið er að vísa til í frv. Í Danmörku hefur allt annað samskiptamunstur viðgengist en hér. Síðan á þriðja áratugnum hafa samningar verið fastir í tíma, til allt að tveggja ára og renna út á ójöfnum árum þann 1. mars. Viðræðuáætlunin hefur verið byggð á samkomulagi á milli aðila, en engar formlegar reglur hafa verið til um það hvenær samningaferlið hefst. Menn hafa bara hist að hausti og gert samkomulag um vinnuferlið og þeir semja sjálfir um það hvaða frest þeir eiga að gefa sér til að klára málið. Tengingarreglan sem hér á að lögfesta hefur verið lengi við lýði þar. Reyndar hefur lengi framan af verið sátt um hana, en á síðustu árum hefur það ekki verið og þess vegna eru Danir einmitt núna að endurskoða þessa tengingarreglu. Þeir eru að endurskoða hvort það geti verið að hún stangist að einhverju leyti á við alþjóðlegar reglur sem danska ríkið er skuldbundið af og hvort hún á einhvern hátt geti talist brot á mannréttindum. Þetta var reyndar rætt á sínum tíma í nefndinni um samskiptareglur á vinnumarkaði. Á þetta var bent. Í nefndinni var dreift blaðaúrklippum úr dönskum blöðum þar sem einmitt kom fram að akkúrat þá dagana sem nefndin var að skoða þessa tillögu var mikill ágreiningur um þetta mál og á það var bent af fulltrúa samtaka launafólks að ekki væri æskilegt og a.m.k. mjög varhugavert að taka þessar reglur upp svo til óbreyttar hér því þær hefðu valdið miklum deilum í seinni tíð í Danmörku, og miklum ágreiningi. En það er greinilegt að á þessi rök hefur ekki verið fallist af hálfu ríkisstjórnarinnar og tengingarreglan er allt að einu lögð til í frv. án þess að tekið sé tillit til þessarar varúðar sem verkalýðshreyfingin hefur bent á og án þess að tekið sé tillit til fram kominnar gagnrýni á dönsku framkvæmdina.

Ríkisstjórninni er tíðrætt um aukin réttindi einstaklinga. Það er sá kafli úr stefnuyfirlýsingu hæstv. ríkisstjórnar sem gjarnan er vitnað í og sem gjarnan réttlætir það að þetta frv. og þessar breytingar á vinnulöggjöfinni eru teknar fyrir á þinginu með offorsi og á þann hátt að þingmönnum gefst varla kostur á að kynna sér málið áður en því er dengt hér í umræðu. Það er vísað til þess að ríkisstjórnin hafi það á dagskrá í stefnuyfirlýsingunni að auka áhrif einstaklinga í stéttarfélögunum. En hvað er það í þessu frv. sem hér liggur fyrir sem eykur rétt einstaklinga í stéttarfélögunum? Hvernig er það gert? Jú, jú, þeir fá að ráða meiru en áður um það hvort stéttarfélögin fara í verkfall, sem sagt um það hvort beitt sé því vopni sem launafólk hefur til þess að fá framgengt kröfum sínum ef ekki semst. En hvað gerist ef ekki semst og málið fer inn á borð sáttasemjara og fer inn í tengingarregluna? Þá er ekki verið að auka réttindi einstaklinganna því þá er allt í einu lögð áhersla á aukna miðstýringu. Hvort eru menn að mæla með aukinni miðstýringu eða aukinni valdreifingu í þessu frv.? Það fer svona eftir því hvar er litið á hlutina og í hvaða samhengi.

Sem dæmi um virðingu ríkisstjórnarinnar fyrir samráðinu og gildi þess sem norrænn vinnuréttur byggir allt sitt á og það kerfi sem við höfum búið við lengi í sátt er hægt að benda á að í frv. eru ákvæði um vinnustaðarfélög sem getur falið í sér skerðingu á samningsbundnum félagssvæðum stéttarfélaganna sem fyrir eru, en ég man ekki betur en það hafi ekki einn einasti nefndarmanna mælt sérstaklega með þessari framsetningu í nefndinni. Það var bæði vegna þess að heimildin til þess að gera vinnustaðarsamninga er til staðar í íslenskum vinnurétti. Það er hægt að gera vinnustaðarsamninga og það er gert í mörgum tilvikum og ekki síður vegna þess að almennt litu menn ekki á þetta sem þýðingarmikinn þátt í því að greiða fyrir samningum og reyndar hef ég ekki enn þá heyrt rök fyrir því að þetta sé þýðingarmikið atriði til að ná því markmiði sem ríkisstjórnin segist vera að setja sér með framlagningu þessa frv. að greiða fyrir samningum.

Samráðið lýsir sér kannski best í því hvernig ríkisstjórnin hefur fengið verkalýðshreyfinguna öndverða á móti sér í öllu málinu, enda eru þess ekki dæmi í sögunni, eða frá því að verkalýðshreyfingunni var komið á þokkalegan kjöl hér á landi, að slík aðför hafi verið gerð að henni af hálfu ríkisstjórnar og þó hefur ýmislegt gerst á síðustu áratugum og ýmiss konar ríkisstjórnir setið við stjórnvölinn. Það hefur engin þeirra vogað sér að ganga svona á skítugum skónum yfir þann grundvöll sem hreyfingin byggir allt sitt á, réttinn til að sjá um innri málefni sín án íhlutunar stjórnvalda. Það er meginatriði málsins.

Alþýðusamband Íslands hefur samþykkt ályktun um frv. sem hér liggur frammi. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Miðstjórn ASÍ fordæmir að stjórnvöld skuli einhliða hafa lagt fram frv. til breytinga á vinnulöggjöfinni. Frv. er lagt fram á sama tíma og aðilar vinnumarkaðarins voru í samningaviðræðum um samskiptamál sín á milli. Í þeim viðræðum lágu hugmyndir og tillögur ASÍ að nauðsynlegum breytingum fyrir. Með kynningu á væntanlegu lagafrv. sleit félmrh. þeim viðræðum.

Áratugum saman hafa aðilar reynt að vinna að málefnum vinnulöggjafar í sátt og samlyndi. ASÍ hefur stöðugt haldið því fram að nauðsynlegt sé að víðtæk sátt ríki um breytingar á svo viðkvæmum lagabálki og vinnulöggjöfin er. Um þetta mál ríkir engin sátt nú vegna þess að ríkisstjórnin hefur rofið grið í málinu. Með framlagningu frv. hafa stjórnvöld gefið yfirlýsingu um að þau óski ekki lengur eftir hefðbundnu þríhliða samstarfi um þróun vinnulöggjafarinnar. Ríkisstjórnin hefur tekið undir málflutning atvinnurekenda um breytingar á samskiptareglum á vinnumarkaði í stað þess að hlusta á sjónarmið beggja aðila.

Fyrirliggjandi frv. er árás á verkalýðshreyfinguna. Flestar hugmyndir í frv. eru til þess fallnar að rýra sjálfstæði stéttarfélaga. Tillögurnar minnka völd einstaklinganna í verkalýðsfélögum, algjörlega þvert á það sem tillöguhöfundar þykjast stefna að.

Ekkert í frv. er til þess fallið að auka á nokkurn hátt réttindi launafólks eða bæta réttarstöðu þess, fyrir þá hliðina er einungis um hertar reglur og skerðingar að ræða. Að sama skapi er ekkert í frv. sem hefur í för með sér þrengingar á heimildum atvinnurekenda þrátt fyrir að því sé haldið fram að breytingarnar eigi að gilda jafnt fyrir alla. Í frv. er heldur ekkert sem líklegt er til þess að liðka til eða flýta fyrir vinnu við gerð kjarasamninga.``

Telur hæstv. ríkisstjórn svona vinnubrögð bera vott um að samráð hafi verið haft við samtök launafólks? Telur hún svona viðbrögð af hálfu verkalýðshreyfingarinnar bera vott um það að samráð hafi verið haft? Kannast einhver við ámóta yfirlýsingar frá samtökum opinberra starfsmanna vegna frumvarpa sem hér hafa verið rædd á undanförnum vikum? Erum við enn einu sinni vitni að því að allir misskilja ríkisstjórnina eða getur ekki verið að ríkisstjórnin misskilji alla sem hún er í samskiptum við þessa dagana? Ég tek undir það sem haft hefur verið eftir hæstv. forsrh. að svona gerir maður ekki.

Það er ekki verið að tala um það hér að verkalýðshreyfingin eigi ekki að aðlaga sig nútímanum og skipuleggja sig á jákvæðan hátt, enda hefur verið unnið að því á undanförnum árum innan hreyfingarinnar, m.a. með sameiningu félaga, en slík skipulagning verður að koma innan frá. Hún á ekki að koma frá stjórnvöldum sem opinber íhlutun með lagaboði og það er líka þannig að samtökin á almenna markaðnum hafa setið við samningaborðið að undanförnu þar sem meiningin var að semja um bætt samskipti aðila vinnumarkaðarins, að fara samningaleiðina, og eftir því sem skilja má af samþykkt miðstjórnar Alþýðusambandsins sem ég las upp úr áðan, þá voru samningar í góðu gengi á milli aðila, samningaviðræður. Þeir snerust um samskiptareglur en ekki löggjöf. Þeir snerust um samráð en ekki lögþvingun. Formenn landssambanda Alþýðusambandsins ályktuðu þann 7. mars sl. líka um samskiptareglur á vinnumarkaði og þar segir, með leyfi forseta:

,,Það er grundvallarafstaða ASÍ að samskipti aðila vinnumarkaðarins eigi að fara sem mest eftir frjálsum samningum á milli aðila í stað þess að stjórnast af lögum. Í stað þess að herða meira að reglum um þessi samskipti með endurskoðun á lögunum um stéttarfélög og vinnudeilur og lögunum um sáttastörf í vinnudeilum telur ASÍ eðlilegra að samtökin geri með sér rammasamning um þessi samskipti.``

Í þessari ályktun formanna landssambanda Alþýðusambandsins eru tiltekin nokkur efnisatriði um það hvernig þeir gætu hugsað sér að hafa slíkar viðræður og um hvað þær ættu að snúast. Ég geri ráð fyrir því að hæstv. félmrh. hafi séð þessa ályktun og kynnt sér hana. Þar eru að hluta til eru öll þessi atriði tekin upp sem koma fram í frv. Hvers vegna í ósköpunum mátti ekki bíða eftir því að samkomulag næðist um þessi mál? Af hverju þurfti að dengja málinu í gegnum þingið á síðustu dögum fyrir páskahlé eins og gert hefur verið í stað þess að bíða örlítið lengur, jafnvel þó að það mundi e.t.v. gera það að verkum að málið tefðist fram á haustið? Það mætti halda að hæstv. ríkisstjórn ætlaði sér að fara frá fljótlega, eða hæstv. ráðherra, og það liggi þess vegna á að klára þetta mál með lögþvingun.

Í staðinn er valin sú leið í miðjum viðræðum sem efnislega eru ekki að öllu leyti ólíkar því sem hæstv. félmrh. hefur nú geyst fram með, að það á að keyra í gegnum þingið löggjöf. Hvað gengur hæstv. ráðherranum til? Ef það er vilji hans og hæstv. ríkisstjórnar að fá bættar samskiptareglur á milli aðila vinnumarkaðarins, hví í ósköpunum mátti það ekki gerast í frjálsum samningum sem þó voru kannski fyrirsjánlegir? Er hæstv. ríkisstjórn á móti frjálsum samningum á milli aðila vinnumarkaðarins um málefni sín? Það mætti einna helst halda það miðað við hvernig framgangurinn hefur verið með þetta frv.

Það er reyndar vegna lögþvingunarinnar, herra forseti, sem stóru orðin eru viðhöfð hjá verkalýðshreyfingunni og líka hjá stjórnarandstöðunni. Ég heyrði hæstv. félmrh. fara mikinn í útvarpi í morgun þar sem hann varaði okkur stjórnarandstæðinga og verkalýðshreyfinguna við því að hafa í frammi stóryrði því að þá mundi enginn hlusta á okkur. Ég heyrði hann reyndar líka segja að stjórnarandstaðan væri með hávaða eingöngu til þess að pumpa lífi í verkalýðshreyfinguna, eða eitthvað í þá áttina. Mátti reyndar skilja á hæstv. ráðherra að það væri gert í þeim vafasama tilgangi að afla sér vinsælda og að ná sér í atkvæði. Þessi afstaða félmrh. lýsir því kannski betur en nokkuð annað hve mikill skilningsskortur ríkir í hæstv. ráðuneyti félagsmála fyrir málstað verkalýðshreyfingarinnar og fyrir þeim grundvallarverðmætum sem verkalýðshreyfingin byggir allt sitt starf á, starf, sem hún hefur verið að byggja upp í áratugi. Og það ætti hæstv. félmrh. að vita að það starf var ekki byggt upp í sátt og samlyndi, hvorki við atvinnurekendur né stjórnvöld. Það tók sinn tíma að byggja það upp og voru ekki allir sáttir um þá málsmeðferð.

Þótt hæstv. ríkisstjórn virðist ekki hafa nýtt sér reynslu sögunnar í starfi sínu og aðför sinni að verkalýðshreyfingunni þá virðist sem þeir hafi einhvers staðar komist í sagnfræði og áttað sig á því að lögin frá 1938 sem nú er verið að breyta voru af einhverjum kölluð þrælalögin ógurlegu á sínum tíma. Þessu hafa hæstv. forsrh. og félmrh. klifað á máli sínu til stuðnings á undanförnum dögum. En það skyldi þó aldrei vera að hrakspárnar frá 1938 séu einmitt núna að koma í ljós. Að nú árið 1996 sé það fyrst að gerast sem menn óttuðust á fjórða áratugnum. Að ríkisstjórnin mundi ganga yfir verkalýðshreyfinguna á þann hátt sem nú er verið að gera. Það var aldrei ætlunin með vinnulöggjöfinni en menn greindu kannski ákveðna hættu í því á sínum tíma og það má vel vera að menn hafi einmitt óttast það sem nú er að gerast. Það má líka benda á að frá því að þrælalögin ógurlegu, eins og hæstv. félmrh. hefur kosið að kalla þau, voru sett á sínum tíma hefur ýmislegt gerst. Umhverfið á íslenskum vinnumarkaði og íslenskum vinnurétti hefur breyst verulega og sem betur fer hafa réttindi launafólks batnað á þeim tíma. En það hefur verið sátt um það að þessi grundvöllur, lögin um stéttarfélög og vinnudeilur, væri að mestu leyti sá grundvöllur sem fólk vildi vinna eftir burt séð frá einstaka hnökrum á einstaka ákvæðum, að grundvöllurinn ætti að vera þessi og við honum er verið að hreyfa núna.

[15:30]

Það eru nokkur efnisatriði í frv. sem að mínu mati ganga hreinlega ekki upp út frá ýmsum sjónarmiðum, vinnuréttarlegum og pólitískum sjónarmiðum. Þar vil ég fyrst nefna uppsagnir notaðar í kjarabaráttu sem er ný 19. gr. í frv. Í frv. er lagt til að í lögin bætist ný 19. gr. þar sem lögfestur verði skilningur sem er þvert á viðurkennda réttarframkvæmd um aðgerðir sem framkvæmdar eru í þeim tilgangi að ná sameiginlegu markmiði og fela í sér niðurlagningu starfa. Á slíkar aðgerðir á nú að líta sem verkföll. Að því leyti að ekki hafi verið sannað að fjöldauppsagnir hafi verið að undirlagi félaga hafa slíkar uppsagnir ekki verið taldar verkföll fram að þessu. En með niðurlagi greinarinnar virðast vera uppi áform um að breyta þessum skilningi. Ég tel að þetta standist ekki vegna þess að uppsögn sem er einstaklingsbundinn réttur verður ekki á nokkurn hátt líkt við vinnustöðvun jafnvel þótt það séu margir einstaklingar sem standi að uppsögnum á sama tíma. Það er ekki hægt að líkja þessu saman. Vinnustöðvun er félagslegt úrræði og byggir á allt öðrum sjónarmiðum en einstaklingsbundni rétturinn sem fólk á með uppsögnum. Ég velti því fyrir mér hvort þetta sé eitt af þeim atriðum sem á að auka rétt einstaklinganna í stéttarfélaginu. Er þetta eitt af þeim atriðum? Flóknar reglur sem gilda um verkföll, um boðun verkfalla, um ákvörðun verkfalla eru m.a. til umræðu í þessu frv. Það eru alþjóðasamningar sem ríkið er bundið af sem skapa þessu úrræði ákveðið regluumhverfi og það verður ekki gert í einni hendingu að setja inn setningu sem segir að um hópuppsagnir skuli gilda það sama og um vinnustöðvanir. Ég tel því þetta efnisatriði vera eitthvað sem standist hreinlega ekki.

Kröfurnar um þátttöku og afgreiðslu miðlunartillögu eru í reynd þannig að það er nánast útilokað að fella miðlunartillögu eftir því sem mér sýnist enda þótt ég viðurkenni að eins og þetta er sett upp í frv. sé ekki einfalt að átta sig á hvað þetta þýðir í reynd. En til að glöggva sig á reglunni er kannski best að taka dæmi. Þessar reglur mundu fela í sér ef að lögum yrðu að ef 1.000 eru atkvæðisbærir og 332 greiða atkvæði gegn tillögu en 331 með tillögunni er tillagan samþykkt. Með öðrum orðum ef 66,3% taka þátt og meiri hlutinn fellir tillöguna er hún eigi að síður samþykkt þar sem ákvæðið um lágmark nei-atkvæða er ekki uppfyllt. Annað dæmi getur verið að í 15.000 manna félagi þar sem 4.999 segja nei en 1.000 segja já er tillaga samþykkt í atkvæðagreiðslu þar sem 40% greiða atkvæði og 83% þeirra sem atkvæði greiða segja nei. Ég fæ ekki betur séð en að þarna sé í raun og veru verið að gera það nánast ómögulegt að fella miðlunartillögu. Í þessu sambandi er rétt að benda á að í Danmörku, þar sem er einmitt verið að taka til endurskoðunar þær reglur sem þar hafa verið og ég kom inn á áðan fyrr í ræðu minni, fara nú fram miklar umræður um atkvæðagreiðslur í tengslum við tengingarregluna og miðlunartillögur. Þar eru menn komnir á þá skoðun að reglur af þessu tagi séu ólýðræðislegar og þeim þurfi að breyta í einhverja veru. Svo má eflaust ræða lengi hvernig þær eigi nákvæmlega að vera en þær hafa hlotið mikla gagnrýni í Danmörku á síðari árum.

Rétt er að gera athugasemdir við fleiri efnisatriði. Í greinargerð með frv. á bls. 13., um skyldur og ábyrgð samningsaðila, koma hugmyndir frumvarpshöfunda glögglega fram. Þar er fjallað sérstaklega um sakarábyrgð stéttarfélaga vegna athafnaleysis af sinni hálfu í tengslum við samningsrof félagsmanna. Þar er sagt að í frv. séu tekin af tvímæli um að samningsaðilum sé skylt að stuðla að því að félagsmenn þeirra virði samninga sem gerðir hafi verið við gagnaðilann. Þetta er svo sem gott og gilt. Ég hef reyndar verið þeirrar skoðunar að menn hafi almennt talið þetta skyldu sína en það horfir kannski svolítið öðruvísi við að setja svona ákvæði inn í lög. Sé verið að gera kröfu um að þessu sé fylgt eftir til hins ýtrasta er ljóst að forsvarsmenn Verslunarmannafélags Reykjavíkur munu þurfa í ríkara mæli en áður að tryggja að verslunum á höfuðborgarsvæðinu sé lokað á réttum tíma. En nú fá þeir væntanlega liðveislu framkvæmdastjórnar VSÍ sem verður að tryggja að Hagkaup, 10--11 11--11 og hvað verslanirnar heita verða að virða samningana við gagnaðilann. Það verður spennandi að sjá þá Magnús L. Sveinsson og Þórarinn V. Þórarinsson saman í því að loka verslunum Hagkaupa þegar kemur að lokunartíma miðað við það hver vinnutíminn á að vera samkvæmt samningum.

Að lokum um vinnustöðvanir. Í frv. er gert ráð fyrir grundvallarbreytingum á núgildandi 15. gr. laganna um stéttarfélög og vinnudeildur en sú grein fjallar um hvernig staðið skuli að ákvörðunum um að hefja vinnustöðvun. Ákvörðun skal samkvæmt frv. taka af meiri hluta atkvæða í leynilegri atkvæðagreiðslu þar sem minnst fimmtungur félagsmanna taka þátt. Þarna er reyndar um að ræða enn eitt afbrigðið af atkvæðagreiðslum í frv. en þau eru að því er mér sýnist vera sex talsins. Það er reyndar svo að félagastarfsemi hefur almennt átt mikið undir högg að sækja á síðustu árum. Það eru hlutir sem þeir þekkja mjög vel sem hafa tekið þátt í alls kyns félagastarfsemi, hvort sem um er að ræða stjórnmálafélög, Kiwanisklúbba eða verkalýðsfélög. Svo hertar kröfur um þátttöku í afgreiðslum verkalýðsfélaga eru því í andstöðu við þá þjóðfélagslegu þróun sem hefur verið að eiga sér stað. Það er verið að gera félögunum erfiðara fyrir við að boða verkföll með þessum móti og það er nánast gengið út frá því að félögin hafi notað sér verkfallsvopnið til að misbeita því. Það er kannski það sem mér líkar síst við tillöguna þó að í sjálfu sér sé eðlilegt að setja einhverjar skorður við þessum hlutum. En ég tel mjög mikilvægt að það sé gert í sátt til að það stangist ekki á við það sem ég hef margoft klifað á í ræðu minni að ákvarðanir um innri málefni sín taki stéttarfélögin sjálf. Ég tel að ef hæstv. félmrh. hefði sýnt örlitla biðlund hefði hann getað náð ýmsu fram í þessum efnum sem og öðrum og í sátt og í samlyndi við þá sem eiga að vinna eftir þessum reglum sem verið er að setja.

Það má líka velta öðru fyrir sér sem ég hef verið að leita að í þessu frv. Ég hef verið að leita að því hvar er tekið á þeirri miklu miðstýringu og því mikla miðstýringarvaldi sem er við lýði í samtökum atvinnurekenda þar sem einn og sami maðurinn kemur fram fyrir atvinnurekendur. Hann kemur fram gagnvart sérhópunum, stéttarfélögunum og landssamböndunum þegar þau vilja fá umræður um sérkröfur sínar. Þá kemur Þórarinn V. Þórarinsson og segir nei og málið endar inn á heildarborði þar sem hann kemur væntanlega líka og segir nei eftir að þessar tillögur eru komnar fram og málið endar inni hjá sáttasemjara. Það er grundvallaratriði til þess að tengingarreglan geti virkað eins og hún hefur virkað lengi framan af í Danmörku að sköpuð séu skilyrði til að hægt sé að hafa eiginlegar sérkjaraviðræður. Það er ekki hægt að dengja öllu launafólki saman í einn pott og segja: Nú skulið þið semja og við skulum semja svona. Eins og framkvæmdin hefur verið hér hefur ekki verið pláss fyrir sérkjaraviðræðurnar og það hefur einfaldlega komið til vegna miðstýringar atvinnurekendasamtakanna. Þau hafa ekki þurft að taka til athugunar af nokkurri alvöru t.d. kröfur Verkamannasambandsins um aukin réttindi fiskvinnslufólks sem rafiðnaðarmenn sjá sér kannski ekki neinn sérstakan hag í að vinna að. Þess vegna er þessi skipting við lýði sem við búum við í dag. Það verður að tryggja að minni hóparnir fái á einhvern hátt komið sínum sérkröfum að. Ég sé ekki í frv. hvernig það hefur verið gert. Það má vel vera að mér hafi yfirsést það en ég hef verið að leita og ég hef ekki séð að það sé á nokkurn hátt tryggt að eiginlegar sérkjaraviðræður eigi sér stað eða að á einhvern hátt sé miðað að því að dreifa valdi innan samtaka atvinnurekenda. Það er þetta sem verkalýðshreyfingin hefur gert athugasemdir við og hefur m.a. litið á að sé um einhliða óskir atvinnurekenda að ræða í þessu frv.

Herra forseti. Grundvallaratriði málsins er lögþvingunin sem hér á að framkvæma í fullkominni andstöðu við samtök launafólks. Það gengur einfaldlega ekki upp að jafnstór atvinnurekandi og ríkið hafi afskipti af innri málefnum stéttarfélaga með lagaboði á þann hátt sem hér er stefnt að að gera og það er reyndar með ólíkindum að sjá klaufalegar aðfarir hæstv. ríkisstjórnar. Það er vart til það stéttarfélag í landinu í dag sem hefur ekki ályktað gegn áformum hennar eða þegar unnum afrekum á sviði vinnuréttarins. Enn koma hæstv. ráðherrar aftur og aftur fram og segja að þetta sé gott fyrir launafólk og gott fyrir verkalýðshreyfinguna. Það er ekki nema von að maður spyrji sig stundum að því í hvaða heimi þessi ríkisstjórn hrærist. Það hefur verið talað um veruleikafirringu af minna tilefni.