Stéttarfélög og vinnudeilur

Fimmtudaginn 21. mars 1996, kl. 17:05:56 (4175)

1996-03-21 17:05:56# 120. lþ. 113.1 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, ÁMM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur

[17:05]

Árni M. Mathiesen (andsvar):

Herra forseti. Ég fagna því innilega að hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir tók af skarið um afstöðu Alþfl. til þessa máls. Það skiptir auðvitað miklu máli fyrir alla umræðu, bæði á hv. Alþingi og í þjóðfélaginu, að skoðun flokks eins og Alþfl. liggi fyrir. Þá liggur það líka klárt fyrir að Alþfl. siglir ekki undir því flaggi sem hann hefur viljað sigla að vera frjálslyndur og framfarasinnaður flokkur heldur siglir hann undir flaggi afturhalds og vinstri stefnu eins og Alþb. Alþfl. er að sigla upp að Alþb. Hann er að sigla frá frjálslyndinu sem hann hefur verið að flagga, hann er að sigla beina leið til vinstri.