Stéttarfélög og vinnudeilur

Fimmtudaginn 21. mars 1996, kl. 17:08:54 (4177)

1996-03-21 17:08:54# 120. lþ. 113.1 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur

[17:08]

Svanfríður Jónasdóttir:

Virðulegi forseti. Vegna orða Árna Mathiesens áðan vildi ég að stjórnarliðar, sem hafa áhyggjur af því að skoðanir einstaka stjórnarandstæðinga eða flokka þeirra komi ekki nógu greinilega fram hér og nú, litu til þess hvernig mál ber að inni í þinginu. Því miður er það svo að mál ber að með þeim hætti að það sem menn þurfa fyrst að bregðast við er málsmeðferðin og það á ekki hvað síst við í þessu máli. Jafnvel þó að í einstaka frumvörpum séu ákvæði sem geta verið mjög nýtileg og ættu heima í nýrri löggjöf að mati allra hér inni er það svo að þegar mál ber að með þeim hætti sem þetta mál eru það vinnubrögðin sem verða oftast fyrst fyrir þegar farið verður að fjalla um málin vegna þess að þau eru það sem menn þurfa e.t.v. fyrst að tala sig í gegnum. Fyrir utan það sem hefur margoft komið fram í dag að sá tími sem stjórnarandstaðan, einstaklingar þar og flokkar hafa haft til að kynna sér þetta mál og fara ofan í það er ekki langur. Menn gera sér e.t.v. ekki alltaf grein fyrir þeim mun sem er á stjórnarþingmönnum og flokkum þeirra annars vegar þegar um er að ræða stór og veigamikil stjórnarfrumvörp og svo hinum sem eru í stjórnarandstöðu hvað það varðar að hafa ráðrúm og tíma til að fara ofan í mál áður en þau koma til 1. umr.

Það hefur komið fram í dag og allt í lagi að endurtaka það ef það er nauðsynlegt að það stóra mál sem við erum að ræða nú var fyrst dreift á borð þingmanna í fyrrakvöld. Á því hafði ekki farið fram nokkur kynning gagnvart stjórnarandstæðingum, þeir höfðu ekki hugmynd um hvað kynni að felast í þessu frv. Sumt af því höfðu þeir lesið um í fréttum eða heyrt félmrh. tjá sig um á öldum ljósvakans. Annað kom fullkomlega á óvart. Málið hafði hins vegar verið rætt í stjórnarflokkunum með góðum fyrirvara þannig að þar á bæ höfðu menn haft og hafa haft í rauninni allt annan tíma til þess að kynna sér þessi mál og eru væntanlega tiltölulega sáttir við það sem hér liggur fyrir eða það skyldi maður ætla. A.m.k. hefur það ekki komið fram í umræðunni að nokkurrar gagnrýni eða efasemda gætti um það að þau ákvæði sem hér eru borin fram séu ekki öll hin ágætustu.

En ég verð að segja, virðulegi forseti, að það kemur á óvart að þetta mál skuli nú vera komið inn í þingið. Það kemur ekki á óvart að málið skuli yfir höfuð koma á dagskrá Alþingis vegna þess að það hafði verið boðað en að það skuli koma inn í þingið með þeim hætti sem það gerir og í ljósi þeirra vinnubragða sem viðhöfð hafa verið verð ég að segja að það kemur á óvart. Þau upphaflegu markmið sem menn höfðu, þegar sest var niður til þess að skoða samskipti á vinnumarkaði, eru komin lönd og leið en menn hafa notfært sér þá jákvæðni sem var upphaflega gagnvart því að setjast niður og fara yfir málið til þess að fara fram með frv. til breytinga á lögunum um stéttarfélög og vinnudeilur frá 1938 eins og kemur fram í þessu 415. máli þingsins. Miðað við þessi vinnubrögð og miðað við hvernig umfjöllunin hefur verið þann stutta tíma sem menn hafa haft málið til skoðunar hljótum við að velta því örlítið fyrir okkur hverjir eru ánægðir. Miðað við það sem fram hefur komið í þinginu sýnist manni að stjórnarliðar séu ánægðir og þeir hjá VSÍ eru ánægðir miðað við fréttir. En aðrir virðast vera óánægðir og er þá ekki nokkuð ljóst fyrir hverja málið er unnið? Er þá ekki nokkuð ljóst af hverju málið er komið fram núna með þessu offorsi og er orðið forgangsmál ríkisstjórnarinnar? Slíkt forgangsmál að öllu öðru var rutt út sem stóð til að hafa á dagskrá þessa tvo daga, í dag og á morgun, forgangsmál fram yfir t.d. fjármagnstekjuskatt enda getum við rifjað upp í leiðinni hverjir það eru sem eru óánægðir með það ef það á að leggja á fjármagnstekjuskatt en það eru einmitt ýmsir þeirra sem eru ánægðir með það frv. sem hér er rætt í dag.

[17:15]

Mönnum þykir í lagi að ryðja út og setja þar með í hættu það markmið að lagður verði á fjármagnstekjuskattur. Það er allt í lagi að það víki ef menn einungis koma þessu mikla forgangsmáli ríkisstjórnarinnar til nefndar. Menn hafa heldur ekki ýkjamiklar áhyggjur af lagfæringu skaðabótalaga lengur. Það er mjög merkilegt og í rauninni lærdómsríkt að horfa á og fylgjast með því hversu mikið menn eru tilbúnir að leggja í sölurnar til þess að fá þetta frv. inn í þingið til umræðu strax í dag. Það er alveg augljóst af þeim hraða sem er á málinu að það er ekki ætlast til efnislegrar umfjöllunar. Mönnum hefur einfaldlega ekki verið gefinn tími til að setja sig inn í málið þannig að hægt sé að reikna með mikilli efnislegri umfjöllun. Ef það hefði verið, hefði hæstv. félmrh. fallist á að málið yrði geymt fram yfir páskana eins og eðlilegt hefði verið, bæði miðað við það hversu seint það kom inn í þingið nú fyrir páskahlé og eins vegna mikilvægis málsins og þess hversu mikið að vöxtum það er. Þegar þessi vinnubrögð eru öll höfð í huga, læðist að manni að ríkisstjórnin sé orðin ofdekruð af sínum mikla meiri hluta hér inni. Það þarf ekki að semja, það þarf ekki að gera samkomulag, það þarf ekki að taka tillit til eins eða neins. Málin eru bara keyrð áfram og síðan getum við séð hvernig forgangsröðin er. Ekkert er látið trufla hana.

Menn hafa nefnt það hér og hæstv. ráðherra gerði það í ræðu sinni svona eins og til að benda á að það sem móast í mönnum í dag væri kannski sambærilegt við það sem var þegar lögin voru upphaflega sett, en þá voru þau kölluð þrælalögin. Síðar hafi menn komist að þeirri niðurstöðu að gömlu þrælalögin hafi gagnast vel. Það er a.m.k. ljóst að menn hafa lært að vinna með gömlu þrælalögin. Það er búið að túlka þau, það er kominn sameiginlegur skilningur á öll þau ákvæði laganna sem skipta máli og þau eru orðin þjál í meðferð. Þess vegna var ósköp eðlilegt að það sem upp á kynni að vanta varðandi samskipti aðila á vinnumarkaði yrði til í frjálsum samningum þeirra í millum þannig að viðbótin við þær leikreglur sem menn telja að þurfi að setja um samskipti aðila á vinnumarkaði yrði gerð í samkomulagi á milli þeirra aðila sem um málið fjalla. Þannig væri báðum aðilum ljóst hvað fælist í einstökum atriðum en ekki farin sú leið að setja lög í blóra við verkalýðshreyfinguna, lög sem á síðan algerlega eftir að reyna á hvernig munu verða túlkuð, lög sem munu valda óróa á vinnumarkaði næstu árin.

Menn hafa haft ýmis rök fyrir því, þ.e. þeir sem hafa talað fyrir hönd ríkisvaldsins, af hverju þyrfti að breyta þessum lögum. Menn hafa verið að reyna að finna rök fyrir hinni brýnu nauðsyn. Þar á meðal hafa menn bent á fjölda vinnustöðvana. Hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir lýsti því ágætlega áðan hvernig fjöldi vinnustöðvana er fundinn út. Það væri þeim aðilum líka hollt, sem vilja helst tala um fjölda vinnustöðvana og telja að þess vegna þurfi að breyta þeim lögum sem við fjöllum nú um, að velta því fyrir sér hvort vinnustöðvanir hafi verið umfangsmeiri á hinum opinbera en á hinum almenna markaði undanfarin ár og hjá hvorum aðilanum þær hafi staðið lengur yfir. Ég er nokkuð viss um að ef menn hefðu skoðað þessa hluti vandlega, hefðu þeir komist að þeirri niðurstöðu að menn eru að breyta vitlausum lögum, þ.e. það er ekkert sem bendir til þess að lögin um stéttarfélög og vinnudeilur séu einhver áhrifavaldur í tíðni eða lengd verkfalla á Íslandi. Það er hins vegar nokkuð ljóst að lögin um kjarasamninga opinberra starfsmanna eru með þeim hætti að til þeirra má rekja vinnustöðvanir sem hafa farið af stað vegna þeirra fresta sem þar eru inni og staðið hafa mun lengur en e.t.v. hefði verið þörf á vegna þess hvernig menn verða að bera sig til við að ljúka þeim verkföllum. Þar hefði verið nær að taka til hendi. En það er svo skrýtið að í allri þeirri frumvarpaflóru sem hér hefur verið kynnt og er borin inn í þingið, bólar hvergi á hugmyndum um breytingar á lögunum um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Ég kem nánar að þessu atriði síðar, virðulegi forseti.

Mér fannst skondið hér áðan þegar hæstv. ráðherra var að færa rök fyrir því að það þyrfti að breyta lögunum að eitt af því væri að menn þyrftu að passa það varðandi verkföll að afleiðingar bitnuðu ekki á þriðja aðila. Ég vil af því tilefni óska eftir því að ráðherrann lýsi því fyrir okkur á eftir hvernig slíkt verkfall getur farið fram. Hvernig á slíkt verkfall að vera, hver er uppskriftin? Hún er ekki í þessu frv. en e.t.v. er hægt að lesa það með þeim hætti og þá væri mjög æskilegt að það yrði gert á eftir. Það skiptir verulegu máli ef hægt er að fara í verkföll án þess að þau bitni á þriðja aðila. Það væri æskilegt, ekki bara fyrir okkur heldur fyrir gervalla heimsbyggðina, að fá að vita hvernig slík verkföll fara fram.

Það hefur líka verið bent á að við þyrftum að breyta vinnulöggjöfinni vegna þess að það skipti svo gífurlega miklu máli að við getum staðið við samninga við viðskiptavini okkar í útlöndum. Ég efa ekki að það skiptir máli. Það skiptir alveg geysilegu máli að við getum staðið við alla okkar samninga og þess vegna skiptir verulegu máli hvernig búið er að bæði fólki og fyrirtækjum hér á Íslandi. Þótt ég leiti í því frv. sem hér liggur fyrir og átti væntanlega að svara þessu, ef ég á að taka orð hæstv. ráðherra alvarlega, get ég ekki heldur séð að svo sé gert. Enda held ég að menn svari þessu ekki með lagabókstaf. Ég held að það séu allt aðrir þættir sem ráða því hvort við getum staðið við samninga við okkar viðskiptavini í útlöndum en það hvort þær breytingar sem hér eru lagðar til á vinnulöggjöfinni nái fram að ganga eða ekki. Ég held meira að segja að það megi leiða að því rök að þær breytingar sem hér eru boðaðar gætu orðið til þess að við gætum síður staðið við samninga við viðskiptavini í útlöndum. Þar ætla ég bara að nefna að það eru bæði settar inn í frv. ákveðnar stífur og frestir varðandi boðun verkfalls og einnig varðandi þann frest sem hægt er að gera á verkfalli, þ.e. það er verið að taka ákveðinn sveigjanleika út úr lögunum ef þetta frv. nær fram að ganga. Ég er nokkuð viss um, ekki síst miðað við þá reynslu sem við höfum af lögunum um kjarasamninga opinberra starfsmanna, að því minni sveigjanleiki sem er í lögum sem fjalla um samskipti á vinnumarkaði, þeim mun meiri líkur eru á því að menn lokist inni í verkfalli og geti ekki staðið við samninga við viðskiptavini í útlöndum. Ég held að þeim tilgangi, svo göfugur og mikilvægur sem hann kann að vera, sé ekki náð með frv.

Mér fannst satt að segja líka dálítið merkilegt þegar hæstv. ráðherra flutti mál sitt að skynja strax í framsögunni ákveðið undanhald. Hæstv. ráðherra, sem eins og oft er nefnt hér er tiltölulega vaskur maður, hafði þegar hopað. Strax í framsögunni reyndi hann að koma af sér Svarta-Pétri, þ.e. hann fann auðvitað að það er vont að vera með Svarta-Pétur, það þekkja allir, og reyndi að koma honum yfir á hv. þm. Guðmund Árna Stefánsson sem hafði það eitt til saka unnið að laða aðila vinnumarkaðarins að sama borði til að ræða samskipti á vinnumarkaði. Hæstv. félmrh. hafði síðan eins og við þekkjum notfært sér það sem fram kom í þeim viðræðum til að setja inn í frv. til breytinga á lögum, þvert á það sem þessir aðilar og sá sem upphaflega boðaði til viðræðnanna ætluðust nokkurn tíma til.

Virðulegi forseti. Það er grundvallarágreiningur um það hvort lög þurfi um samskiptareglur. Það kom hins vegar fram hjá hæstv. ráðherra að VSÍ hefði ekki trú á frjálsum samningum um samskiptareglurnar og hann styddi það. Þetta styður í rauninni það sem ég sagði áðan varðandi það fyrir hverja verið er að flytja þetta frv. inn í þingið. Það á að lögþvinga samskipti á vinnumarkaði af því að VSÍ trúir því ekki að menn geti komið sér saman. Það á líka að lögfesta ákvæði sem komin er hefð á og menn hafa þegar náð samkomulagi um hvernig eigi að standa að. Þetta verður að gerast þó svo fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar telji að það hefði verið hægt að ná þessu samkomulagi við vinnuveitendur vegna þess að ráðherrann var orðinn þreyttur á að bíða.

[17:30]

Við skulum líta aðeins nánar á rökin fyrir því að lagt er fram það frv. sem hér um ræðir. Það er vísað til þess í inngangi að athugasemdum við lagafrv. að það hafi um langt skeið farið fram viðræður um nauðsyn þess að bæta samskiptareglur á vinnumarkaði. Þótt þessar umræður hafi farið fram og menn hafi talið á ýmsum tímum nauðsyn að bæta samskiptareglur er sú sem hér stendur nokkuð viss um það að þar hafi menn ekki alltaf verið að tala einu máli og allra síst einlægt verið að tala um sama hlutinn. Það hefði því verið býsna fróðlegt ef þeir sem unnu þetta frv. hefðu gefið okkur lista yfir það hvað það er sem menn hafa aðallega sett hornin í undanfarin ár þegar þeir hafa verið að óska eftir bættum samskiptareglum fyrir vinnumarkaðinn. Ég þykist viss um að það gæti orðið bæði langur og skrautlegur listi. En sá listi liggur ekki fyrir hér. Hins vegar er reynt enn frekar að rökstyðja málatilbúnaðinn. Þetta eru, virðulegi forseti, viðbótarrök við þau sem komu fram í máli hæstv. félmrh. fyrr í dag.

Það er þá í fyrsta lagi að talið er að þessi breyting á lögunum gæti stuðlað að friðsamlegum samningum og dregið úr átökum á vinnumarkaði og oft langvinnum vinnustöðvunum. Ég velti því fyrir mér af því að við erum fyrst og fremst að tala um almenna markaðinn hvar í frv. ég gæti fundið eitthvað sem róar mig ef ég hef áhyggjur af þessum hlut.

Ég gat þess áðan ef menn litu til laganna um kjarasamninga opinberra starfsmanna væri nokkuð ljóst að í þeim lögum eru ákvæði sem eru þess eðlis að þau hafa beinlínis stuðlað að því að opinberir starfsmenn hafa farið í verkföll jafnvel þó að þegar að verkfallinu kom eftir þann 15 daga frest sem gefinn var hafi hugsanlega verið komið samningahljóð í menn einfaldlega vegna þess að þeir gátu ekki annað vegna þess hvað lögin voru stíf. Einnig hitt að vegna þess hvernig þau ákvæði eru hafa menn farið í fjögurra til sex vikna verkföll ef þau hafa á annað borð skollið á vegna þess að það eru engin ákvæði um að hægt sé að fresta. Það eru engir möguleikar á því að nýta verkfallshótun ef það má orða það svo með skapandi hætti. Engin tök eru á því að nýta möguleikann á verkfalli sem tæki í kjarabaráttu vegna þess að tækið var upphaflega gert svo klunnalega úr garði að enginn veldur því. Þegar menn tala fjálglega um að það eigi að bræða saman lögin sem gilda um almenna markaðinn og opinbera markaðinn er verk að vinna í kjarasamningum opinberra starfsmanna. Þar þarf að breyta lögum en ekki að færa lögin af almenna markaðnum í átt til þeirra sem gilda fyrir opinbera starfsmenn. Það er að mínu mati glapræði og ef menn átta sig ekki á því hvert hér er verið að feta þegar þeir horfa til sögu liðinna ára allt frá því að lögin um kjarasamninga opinberra starfsmanna voru sett árið 1986 hafa menn einfaldlega ekki skoðað þær forsendur nógu vel sem þeir eru að vinna með.

Hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir gat þess áðan að BHMR hefði löngum átt í deilu við ríkið og það er alveg rétt. Allt frá því að lögin um kjarasamninga opinberra starfsmanna voru sett og fram til 1992--1993 og svo þessi nýju átök auðvitað núna sem eru reyndar sprottin af öðru en lögunum um kjarasamninga opinberra starfsmanna hafa geisað erjur, verkföll og það hafa verið ákveðnir erfiðleikar í samskiptum aðila. Það er af tveimur ástæðum og báðar ástæðurnar ættu að vera okkur og hæstv. félmrh. víti til varnaðar. Það er í fyrsta lagi sú ástæða sem ég nefndi að lagatextinn um framkvæmd verkfalla, vopnið, er smíðað með þeim hætti að það er nánast ónothæft. Í öðru lagi þarf að athuga þegar sett eru ný lög um það hvert svigrúm menn hafa á vinnumarkaði og í samskiptum, og nákvæmlega það vill hæstv. félmrh. gera núna með þessu frv. til að stuðla að friði á vinnumarkaði, hvernig aðilar bregðast þá við. Vilja menn ekki læra svolítið af sögunni? Menn bregðast þannig við að þeir láta reyna á skilning og þanþol þeirra laga sem sett eru. Fyrst ekki er hægt að ná samkomulagi um skilninginn fyrir fram eins og reyndin er því miður nú, fyrst aðilunum er ekki treyst og þá sérstaklega ekki verkalýðshreyfingunni miðað við þann málflutning sem hér hefur verið, til þess að ná samkomulagi um samskiptin og það eru sett um þau lög er ég því miður í ljósi reynslunnar nokkuð viss um að verkalýðshreyfingin, einstök verkalýðsfélög, landssambönd, heildarsamtök munu láta á það reyna og það er óhjákvæmilegt að það gerist því að menn verða að átta sig á því hver staða þeirra er miðað við nýtt lagaumhverfi, bæði viljandi og óviljandi og Félagsdómur mun fá nokkuð að starfa á næstu árum. Þetta er friðsemdin sem verið er að biðja um með breyttum lögum. Menn hefðu þurft að líta betur til forsögunnar og menn hefðu aðeins þurft að átta sig á því hvar hafa erfiðleikarnir verið og af hverju.

Það er slæmt að hv. þm. Árni Mathiesen skuli ekki vera í salnum en hann hlýðir e.t.v. einhvers staðar annars staðar á mál mitt. Það er hætt við því að það framfaraspor sem einhverjr stjórnarliðar telja að nú sé verið að stíga verði ekki til mikilla framfara þegar lögin eru sett í því ósætti sem ríkir um bæði málatilbúnað og það hvernig einstök atriði þar eru útfærð. Nei, virðulegi forseti. Ég álít að heilladrýgra hefði verið fyrir hæstv. ráðherrann að hemja nokkuð óþolinmæði sína og gefa aðilum vinnumarkaðarins færi á því, jafnvel þó það tæki einhverja mánuði að ná samkomulagi um samskiptin. Það hefði verið farsælla fyrir okkur öll og það hefði verið farsælla í ljósi þeirra markmiða sem hæstv. ráðherra setti fram í upphafi máls síns í dag.

Það er ástæða til þess að ræða hér og tiltaka þriðja atriðið ef þau tvö sem ég hef þegar nefnt duga ekki til þess að menn ranki við sér gagnvart þeirri röngu braut sem þeir eru á með málið.

Í 1. gr. frv. er gert ráð fyrir því að starfsmenn fyrirtækis geti stofnað stéttarfélag og fari það stéttarfélag þá eitt með samningsumboð fyrir starfsmenn. Ég tek undir það sem hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir sagði áðan um vinnustaðarsamninga. Þeir hafa víða gengið vel en því miður er hætta á því að verði þetta frv. að lögum verði það starf unnið fyrir gýg sem þá hefur átt sér stað. Hins vegar held ég að friðelskandi ráðherrar og aðrir sem koma að samningu frv. hafi kannski ekki gert sér grein fyrir þeim ófriði sem verið að efna til með ákvæði 1. gr. Eða hafi þeir gert sér grein fyrir ófriðnum ætli þeir bara að taka slaginn en það er alveg ljóst að sá slagur mun ekki stuðla sérstaklega að því að við getum staðið við samninga okkar gagnvart viðskiptavinum okkar í útlöndum. Þarna eru menn auðvitað komnir að forgangsréttarákvæðum einstakra stéttarfélaga og þar er um auðugan garð að gresja varðandi deilur og hugsanleg dómsmál ef ráðherrann vill endilega halda mönnum uppteknum við slíka hluti næstu árin meðfram öðru því sem getur valdið slíku og fram kemur í þessu frv. Ég vísa enn til laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna frá árinu 1986. Þar er einmitt sambærilegt ákvæði. Þar var ákvæði þess eðlis að hægt væri að stofna félög á vinnustað og það hefði verið snjallt fyrir þá sem sömdu frv. að fara vandlega ofan í þá sögu sem á eftir fylgdi hvað varðaði átök innan raða opinberra starfsmanna. Það hefði verið gott að menn hefðu þá búið sig undir ófriðinn frekar en að fara fram í máli friðarins. Ég ætla að leyfa mér að setja fram þá skoðun varðandi forgangsréttarákvæði ef menn langar í deilur um forgangsréttarákvæði stéttarfélaganna að setja þá fram þá tillögu handa mönnum sem hafa áhuga á því að horfa á slegist um slíka hluti að forgangsréttarákvæði stéttarfélaga eftir að Póstur og sími er orðið hlutafélag, sem ég geri ráð fyrir að verði eitt af forgangsverkefnum ríkisstjórnarinnar, eru að mínu mati eiginlega nóg í bili af umfjöllun bæði Félagsdóms og annarra um forgangsréttarákvæðin vegna þess að þar mun áreiðanlega reyna á forgangsréttarákvæði stéttarfélaga. Það er óhjákvæmilegt. Þegar búið er að hliðsetja stofnunina eða gera hana að fyrirtæki og hliðsetja hana af fyrirtækjum á markaðnum, hvað halda menn þá að muni gerast í málefnum stéttarfélaganna? Þeir sem þekkja til vita að undanfarin ár hafa átt sér stað átök varðandi forgangsréttarákvæði vegna þeirra starfa sem eru innan stofnunarinnar Pósts og síma. Halda menn þá að slíku muni linna eftir að búið er að hliðsetja stofnunina eða gera hana að fyrirtæki, hf., á markaðnum? Það er hreinn barnaskapur ef menn ímynda sér það.

[17:45]

Ef við höldum síðan áfram með þau rök sem menn hafa fyrir því að fara inn í lögin um stéttarfélög og vinnudeilur, þá hafa menn líka tiltekið í inngangnum að afskipti íslenskra stjórnvalda af einstökum kjaradeilum hafi vakið athygli alþjóðastofnana. Allt í einu eru menn orðnir svona uppteknir af því hvað alþjóðastofnunum finnst. Menn eru ekki svona uppteknir af því hvað alþjóðastofnunum finnst þegar verið er að fjalla um ýmsa samninga sem Ísland ætti og þyrfti og hefði fyrir löngu átt að gerast aðili að og varða vinnumarkaðinn. En þegar kemur að þessu máli eru alþjóðasamningarnir og það hvað öðrum kann að finnast allt í einu orðið þess virði að hér þarf að breyta lögum. Við skulum aðeins skoða hver þessi afskipti íslenskra stjórnvalda hafa verið eða kannski öllu heldur af hverju íslensk stjórnvöld hafa gripið inn, ekki bara í kjaradeilur heldur líka í gerða samninga.

Ég held að menn verði að horfa til þess að mörg undanfarin ár og áratugi geisaði hér óðaverðbólga. Sveiflur í efnahagslífi okkar voru miklar og atvinnulífið oft á tíðum illa rekið þannig að ef aðilar vinnumarkaðarins gerðu kjarasamninga sem á einhvern hátt þóttu síðan halla á vinnuveitendur var gjarnan gripið inn í við fyrstu dýfu sem þjóðarskútan tók. Með öðrum orðum, það hefur ekki þótt heppileg aðferð á Íslandi að láta gerða kjarasamninga veita fyrirtækjum það aðhald sem þau hafa þurft til að auka sína framleiðni enda hefur þróunin verið þannig að framleiðni í íslenskum fyrirtækjum hefur ekki batnað. Í sumum atvinnugreinum hefur henni farið aftur, í öðrum hefur hún reyndar batnað en að meðaltali hefur hún ekki gert það, því miður. Og það virðist vera samkomulag einhverra um það, væntanlega þeirra sem eru sammála um það frv. sem hér liggur fyrir, að svo skuli ekki vera. Þetta vil ég segja, virðulegi forseti, vegna þess að miðstýrðir samningar Vinnuveitendasambandsins taka ekki tillit til mismunandi aðstæðna. Þeir eru þess vegna að engu leyti hvetjandi til að fyrirtækin geri betur heldur þvert á móti. (Forseti hringir.) --- Ég skil það svo, forseti, að tími minn sé búinn.

(Forseti (GÁ): Hárrétt skilið.)

Tími minn er búinn og ég verð þá að koma aftur til þess að ljúka máli mínu, virðulegi forseti.