Stéttarfélög og vinnudeilur

Fimmtudaginn 21. mars 1996, kl. 18:13:59 (4184)

1996-03-21 18:13:59# 120. lþ. 113.1 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur

[18:13]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég hef einsett mér að vera kurteis í máli við hv. þm. Pétur H. Blöndal, enda hlýtur að vera erfitt fyrir hann í dag að hafa verkalýðshreyfinguna á pöllunum sem hlær að honum og fá síðan snoppunga frá hv. þm. Guðmundi Hallvarðssyni, flokksbróður sínum, ekki bara á aðra heldur á báðar kinnar.

Herra forseti. Ég held að sú lexía sem hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson veitti flokksbróður sínum áðan segi honum allt sem þarf að segja honum um eðli verkfalla. Í rauninni eru allir á móti verkföllum vegna þess að þau eru neyðarúrræði. En við vissar aðstæður er ekki hægt annað en að grípa til þeirra. Hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson sagði frá sinni eigin reynslu. Hún var þannig, hv. þm. Pétur H. Blöndal, að sjómenn höfðu í tíu mánuði verið með sína kröfugerð á borði vinnuveitendanna en þeir fengu hana ekki rædda fyrr en þeir höfðu boðað til verkfalla. Það er með öðrum orðum nauðsynlegt að hafa þetta neyðarleið. En ég held að við getum verið sammála um að þetta er neyðarleið sem menn grípa ekki til fyrr en í nauðir rekur.

[18:15]

Herra forseti. Þrátt fyrir það sem hv. þm. Ágúst Einarsson sagði áðan þykir mér gott að hafa hv. þm. Pétur Blöndal í þessum sal og heyra hann tala vegna þess að hann hefur kjark umfram marga aðra. Hann segir oft það sem félagar hans þora ekki að segja upphátt en hugsa þó. En hann talar um lýðræðisást og það er tvennt sem mig langar að nefna. Í fyrsta lagi er hann á móti því að hinir óvirku hafi áhrif. Því auðvitað hafa þeir áhrif þó að þeir taki ekki þátt í atkvæðagreiðslu. Er það ekki svo, herra forseti, að það er gjarnan þannig að menn leyfa þeim að taka ákvörðunina sem þeir telja að hafi besta þekkingu á málinu? Þeir sem taka ekki þátt í atkvæðagreiðslu um verkfall vita eigi að síður að það kann að koma til þess að þeir verði þátttakendur í verkfalli en þeir láta þá sem hafa borið hitann og þungann taka ákvörðunina. Ég vísa til umhverfis hv. þm. Péturs Blöndals. Er það ekki oft svo að hér koma inn mál sem menn vita að stjórnarliðið er algerlega á móti en lætur leiða sig vegna þess að það telur að sín eigin forusta hafi meira vit á þessu?