Stéttarfélög og vinnudeilur

Fimmtudaginn 21. mars 1996, kl. 19:41:41 (4190)

1996-03-21 19:41:41# 120. lþ. 113.1 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, ÁMM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur

[19:41]

Árni M. Mathiesen (andsvar):

Herra forseti. Ég verð nú að segja það að á 40 mínútum virtist hv. þm. Össur Skarphéðinsson hafa meiri skoðanir á þessu máli en samflokksmaður hans, hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir. Þó finnst mér hann ekki vera sérlega eindreginn í afstöðu sinni til einstakra greina frv. Það er frekar eins og hann sé að velta þeim fyrir sér og skoða frá ýmsum hliðum sem út af fyrir sig er ágætt af hálfu hv. þm. Það var hins vegar í upphafi máls hv. þm. sem hann var hvað eindregnastur í andstöðu sinni, þar sem hann talaði um það að hæstv. félmrh. væri að takast það sem engum hefði áður tekist, að sameina vinstri menn hér á landi. Mér finnst það staðfesta nákvæmlega það sem ég sagði í andsvari við hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur fyrr í dag, að Alþfl. væri að sigla upp að Alþb., Alþfl. væri að færa sig til vinstri og hann væri að kasta þeirri ímynd frjálslyndis sem hann hefur verið að reyna að flagga að undanförnu.

Hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni var tíðrætt um samráð og hversu nauðsynlegt væri að hafa samráð í máli eins og þessu. Ég skal út af fyrir sig taka undir það með honum. En hvernig hefur Alþfl. staðið að svona málatilbúnaði? Hvernig hefur flokkur hv. þm. staðið að þessu?

Fyrir 60 árum var atvinnumálaráðherra sem hét Haraldur Guðmundsson. Hann skipaði nefnd til þess að semja lög um sama efni og hér liggur fyrir. Hann skipaði fjóra menn í nefnd. Þar var einungis einn fulltrúi stéttarfélags og enginn fulltrúi atvinnurekenda.