Stéttarfélög og vinnudeilur

Föstudaginn 22. mars 1996, kl. 12:12:06 (4371)

1996-03-22 12:12:06# 120. lþ. 114.1 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur

[12:12]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég reyni að draga aðeins fram að það á mjög vel við að reyna að fara með kjarasamninga meira út í félögin. Við erum ekki að finna upp hjólið hér á landi. Þetta er þróun sem er að gerast víða erlendis. Það sem ég legg áherslu á er að það gerist með skipulegum hætti. Ég veit að hið miðstýrða fyrirkomulag heldur niðri launum láglaunafólksins.

Ég vil benda á að hér er verið að ræða um að menn skipuleggi sig í einu stéttarfélagi á vinnustað sem fer með samningsréttinn gagnvart vinnuveitandanum, ef menn kjósa að gera það. Hér er ekki um neina lögþvingun að ræða. Ég stend aldrei vörð um eitthvert óbreytt kerfi. Ég tek þátt í því að breyta kerfi, alveg sama hvaða kerfi það er, ef ég tel það vera til bóta. Ég tel að með þessari hugmyndafræði sem hér er verið að leggja upp með, og reynsla er fyrir mjög víða annars staðar, sé fyrst og fremst verið að gæta hagsmuna launþega.

Ég geri mér fulla grein fyrir því að ef dregið er úr miðstýringu, hvort sem er á sviði vinnuveitenda eins og ég tala fyrir eða á sviði verkalýðshreyfingarinnar, er vitaskuld verið að minnka völd einhverra. Það að draga úr miðstýringu felst í því. Einhverjir, ég er ekkert að segja að hv. þm. geri það, einhverjir leggjast gegn breytingum í þessa átt vegna þess. Það er mannlegt að gera það. Ég tel hins vegar að í þessu frv. séu dregnar upp röksemdir fyrir þeim, þótt þær hefðu mátt vera ítarlegri. Við þurfum að leita nýrra leiða til að hækka laun fólks og skapa skilyrði til að hægt sé að gera það. Við þurfum að brjótast út úr þessum vítahring. Það er mín bjargfasta skoðun að þetta sé ein leiðin til þess.