Stéttarfélög og vinnudeilur

Föstudaginn 22. mars 1996, kl. 12:16:41 (4373)

1996-03-22 12:16:41# 120. lþ. 114.1 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur

[12:16]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. fyrir andsvar hans eða athugasemdir. Varðandi vinnustaðarfyrirkomulagið er það í reynd Vinnuveitendasambandið sem er á móti því og er strax búið að taka afstöðu gegn því. Ástæðan er mjög skýr. Þetta dregur úr miðstýringu þeirra megin. Þeir vilja það ekki. Það er m.a. þess vegna sem ég tel þetta vera skynsamlegt. Ég tel miðstýringuna á vinnuveitendahliðinni vera orðna hættulega í okkar litla þjóðfélagi. Það kemur m.a. inn á spurningu hv. þm. um að reyna að fara með valdið út fyrir framkvæmdastjórana til hluthafanna. Að mínu viti eru ekki til fordæmi varðandi þennan þátt því venjan er sú að hluthafar framselja vald til stjórnar. Það er þá stjórnin sem tæki ákvörðun, en við erum að tala um að fara með þetta lengra. Ég tel hins vegar fulla ástæðu til við þennan málaflokk, út frá smæð landsins og hættunni af samþjöppun fjármagns, að ganga þá leið sem ég lýsti, þ.e. að reyna að fara með þetta út til hins almenna hluthafa og leyfa fólkinu að koma að ákvarðanatökunni alveg eins og menn eru að tala um að eigi að reyna að gera hinum megin frá.

Ég þakka undirtektir varðandi starfsmenn í stjórn. Ég held að það sé nokkuð sem við í stjórnarandstöðunni ættum að skoða mjög alvarlega í tengslum við þetta mál, sérstaklega ef ríkisstjórnin ætlar að reyna að knýja það fram með þessum hætti. Hér er einn þáttur sem við þurfum að skoða og gætum þar hugsanlega sameinast um tillögugerð, hvort sem það er í tengslum við þetta frv. eða ekki. Allt þetta miðar að því að reyna að skapa hér lýðræðislegra og betra fyrirkomulag og að bæta rétt launþega á vinnumarkaði.