Stéttarfélög og vinnudeilur

Föstudaginn 22. mars 1996, kl. 15:05:02 (4381)

1996-03-22 15:05:02# 120. lþ. 114.1 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, MF
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur

[15:05]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Það er engu líkara þessa dagana og reyndar núna síðustu vikur en að ríkisstjórnin hafi sagt þjóðinni stríð á hendur. Það er að segja ákveðnum hluta þjóðarinnar, launþegum. Það kemur fram í hverju frv. á fætur öðru sem hún hefur flutt á þessu þingi nánast frá því að þingið kom saman í haust. Fyrst voru það árásir á fatlaða og aldraða við ákvörðun fjárlaga fyrir árið 1996 og ráðstafanir í ríkisfjármálum árið 1996. Það var upphafið að því sem við sáum hvernig ríkisstjórnin ætlaði að haga sér gagnvart launþegum í landinu. --- Það er afar slæmt, virðulegur forseti, ef hæstv. félmrh. er ekki við. Ef hæstv. forseti mundi nú bara stoppa klukkuna á meðan.

(Forseti (StB): Forseti mun verða við þeirri ósk hv. þm.)

Ætlar hæstv. félmrh. að standa í dyragættinni og fylgjast með? (Félmrh.: Ég fylgist með.)

Það sem við sáum við gerð fjárlaga var byrjunin á því sem kom á eftir. Það var dálítið dæmigert fyrir vinnubrögð þessarar hæstv. ríkisstjórnar vegna þess að þar var um að ræða aðför að öldruðum og öryrkjum, að kjörum þeirra. En munurinn var sá þar að það þurfti ekki neina lagabreytingu til að afnema eða koma í veg fyrir þann samráðsrétt sem til staðar var því hann var enginn. Mér er kunnugt um að samtök aldraðra og öryrkja hafa farið fram á það við ríkisstjórnina að fá fram nefndarskipun þar sem um verði að ræða lögbundið samráð milli þessara aðila í öllum þeim málum sem varða hagsmuni aldraðra og öryrkja. En við þessari beiðni hafa því miður ekki fengist svör. Þessir aðilar hafa vissulega skipulögð hagsmunasamtök en þó ekki samtök sem eiga sér samningsrétt til að berjast fyrir kjörum sínum enda hefur það veist hæstv. ríkisstjórn allt of auðvelt á undanförnum mánuðum að skerða kjör þessara þjóðfélagshópa.

Þar á eftir komu árásir á opinbera starfsmenn, kennara og aðra. Þessar árásir urðu til þess að umræða um yfirfærslu grunnskólans frá ríki til sveitarfélaga tafðist og var um tíma stefnt í verulega hættu. Kennararnir brugðust hart við og gátu beitt samtakamætti sínum til að verjast þessum árásum.

Önnur atlaga var gerð að samningsbundnum réttindum opinberra starfsmanna og kom hér fyrir þingið. Þeir brugðust við með miklum fundarhöldum og hafa kynnt félagsmönnum sínum tillögur ríkisstjórnarinnar um árásir á áunnin réttindi. Þetta eru mjög undarleg vinnubrögð af hálfu ríkisins. Þar er ætlunin að grípa einhliða inn í gerða samninga, samninga sem ríkið sjálft hefur átt þátt í að gera við starfsmenn sína á undanförnum árum. Það hafa verið lögð fram frv. sem skerða verulega umsamin réttindi opinberra starfsmanna, réttindi sem hafa verið keypt í samningum á undanförnum árum. Þau hafa líka verið metin til tekna þegar borin hafa verið saman kjör þeirra og annarra. Opinberir starfsmenn hafa aldrei hafnað því að þessi réttindi yrðu skoðuð. Þeir hafa hins vegar bent á að það væri óeðlilegt ef tveir aðilar gera samning sín á milli að annar þeirra geti breytt honum einhliða með lagasetningu án þess að samningurinn sé tekinn upp í heild sinni og samið um breytingarnar. Það er því eðlileg krafa sem fram hefur komið að þessi frumvörp verði dregin til baka svo hægt verði að taka upp eðlilegar samningaviðræður um málin.

Nú fyrir tveim dögum var svo lagt fram frv. sem skerðir verulega möguleika launafólks á almennum vinnumarkaði til að semja um kaup og kjör í framtíðinni. Þetta frv. verður að líta á sem enn eina árásina á launamenn í landinu.

Þetta frv. hefur líka kallað á hörð viðbrögð launafólks eins og við höfum orðið vör við allt frá því að það var lagt fram. Á þessum tveimur dögum hafa verið birtar ályktanir og fjölmargar blaðagreinar og viðtöl í blöðum þar sem koma fram mjög harkaleg viðbrögð forustu verkalýðshreyfingarinnar og ekki bara forustumanna verkalýðshreyfingarinnar heldur hins almenna launamanns við þessu frv. Þrátt fyrir það kom það fram í ræðu hæstv. ráðherra í gær að fullt samráð hefði verið haft við verkalýðshreyfinguna um þetta mál eins og fullyrt hefur verið um þau mál sem áður hafa verið lögð fram. Það er með ólíkindum hvernig hæstv. ráðherra og reyndar aðstoðarmaður hæstv. ráðherra hafa fullyrt æ ofan í æ að samráð hafi farið fram og þar hafi verið tekið tillit til vilja verkalýðshreyfingarinnar. Það kom fram í ræðu hæstv. ráðherra og það kemur fram í blaðagrein sem aðstoðarmaður ráðherra, Árni Gunnarsson, skrifar og birtist í blöðum nú í morgun. (Gripið fram í: Þeir voru orðnir svo þreyttir að bíða.) Þeir voru orðnir svo þreyttir að bíða. Það er alveg rétt vegna þess að tíminn sem verkalýðshreyfingin fékk til að gera athugasemdir við frv. og þau frv. sem hafa birst hér á síðustu vikum, var frá því um miðjan janúar og fram í febrúarlok, einn og hálfur mánuður. Á einum og hálfum mánuði átti verkalýðshreyfingin hvort sem um er að ræða ASÍ eða BSRB að fara yfir þessar breytingar og kynna fyrir sínum félagsmönnum. Ætli það séu ekki um 70 þús. félagar í ASÍ-félögunum og um 17 þús. BSRB-félagar. Tíminn sem var ætlaður til að kynna þessar breytingar var einn og hálfur mánuður. En það er alveg ljóst að þó svo að við höfum fengið mjög harkaleg viðbrögð á undanförnum dögum þá eigum við eftir að sjá meira af því, því að verkalýðshreyfingin hefur boðað að hún muni fara út til sinna félaga og kynna innihald frv.

Ríkisstjórnin ætlar ekki að láta staðar numið hér. Fyrir u.þ.b. viku síðan bárust okkur fréttir af væntanlegu frv. frá ríkisstjórninni. Það er búið að ráðast að kjörum aldraðra og öryrkja. Það er búið að taka opinbera starfsmenn. Hér er ráðist að kjörum fólks innan ASÍ sérstaklega og hverjir eru þá næstir? Það eru atvinnulausir. Það var einn hópur sem var eftir. Þar megum við eiga von á frv. og eftir þeim fréttum sem við höfum fengið er þar um að ræða verulega skertan rétt atvinnulausra, verulega skertan rétt. Er það ekki alveg í takt við það sem hv. þm. Pétur H. Blöndal sagði hér í ræðu í gær þegar hann talaði um réttinn til atvinnuleysisbóta sem átti að vera sjálfsagður fyrir alla hvort sem þeir væru í félögum eða ekki. Það er ekki að undra þó maður láti þau orð falla að ríkisstjórnin sé komin í heilagt stríð við launafólk í landinu. Þessar árásir eru þær grófustu sem almenningur hér á landi hefur mátt þola af einni ríkisstjórn. En maður þarf svo sem ekki að vera mjög hissa því að ríkisstjórnir Sjálfstfl. og Framsóknar hafa ætíð reynst illa í þessum efnum. Þær hafa virt réttindi fólks að vettugi þó nú sé harðar gengið fram í að brjóta niður sjálfsögð lýðréttindi en nokkru sinni áður. Það er líklega vegna þess að ríkisstjórnin hefur fengið sér fyrirmynd. Menn horfa nú til þess sem er að gerast á Nýja-Sjálandi. Þetta er bara fyrsta skrefið sem stigið er í áttina að þjóðfélagi þeirrar gerðar sem þar er rekið þessa dagana og er alls ekki til fyrirmyndar a.m.k. ekki hvað lýtur að framkomu við launafólk.

[15:15]

Það er líka annað svar við því hvers vegna ríkisstjórnin gengur fram með þessu offorsi að ráðast á sjálfan samningsréttinn sem er grundvallaratriði í lýðræðisþjóðfélagi. Svarið getur einnig legið í því að fulltrúar þessara flokka eru slitnir úr tengslum við almenning í landinu. Ráðgjafar þeirra koma allir úr röðum atvinnurekenda, þeir sitja í Garðastrætinu og þeir stjórna Vinnumálasambandinu. Þessir aðilar, sem eru sameinað atvinnurekendavald landsins, siga ráðherrum sínum á launafólk og ráðherrarnir hlýða eins og við er að búast þegar húsbændur láta í sér heyra. Þetta sést vel þegar ályktun stjórnar Vinnumálasambandsins frá 22. febr. sl. er skoðuð. En þar segir orðrétt undir fyrirsögninni Samskipti á vinnumarkaði, með leyfi forseta:

,,Það hefur lengi verið almenn skoðun að lögbundnar samskiptareglur á vinnumarkaði og þær samskiptareglur sem aðilar vinnumarkaðarins hafa sett í tímans rás séu orðnar úreltar og hindri að eðlilegur árangur náist og jafnræðis sé gætt. Nú hafa heildarsamtök á vinnumarkaði fengið tækifæri sem staðið hefur á annað ár til þess að ná samkomulagi um nauðsynlegar breytingar á samskiptareglum. Þó að nú hafi komi bakslag í þessar viðræður treystir stjórn Vinnumálasambandsins því að þessu starfi verði haldið áfram og þess freistað á næstu dögum og vikum að ná sáttum um þau atriði sem ekki hafa verið að fullu rædd. Jafnframt bendir stjórnin á að þó rétt og sjálfsagt hafi verið að gefa heildarsamtökum á vinnumarkaðnum kost á að hafa áhrif á breytingar á samskiptareglum er það Alþingi sem ber að setja samfélaginu samskiptareglur. Ríkisstjórninni ber að hafa frumkvæði samkvæmt stjórnarsáttmála. Þess vegna og vegna þess hve tvísýnt er að samkomulag um samskiptareglur náist í tæka tíð milli aðila vinnumarkaðarins leggur stjórn Vinnumálasambandsins áherslu á að jafnhliða viðræðum aðila vinnumarkaðarins verði á vegum ríkisstjórnarinnar haldið áfram undirbúningi að lagafrumvarpi um þetta efni.``

Þarna leggur stjórn Vinnumálasambandsins áherslu á að jafnhliða viðræðum aðila vinnumarkaðarins verði á vegum ríkisstjórnarinnar haldið áfram undirbúningi að lagafrumvarpi um þetta efni. Hvað gerðist? Það er svo sem ekkert að undra að hæstv. félmrh. hefur farið að þessum óskum og nú þegar ekki bara unnið að gerð frv. heldur lagt það fram og krafist þess í andstöðu við stjórnarandstöðuna að málið sé tekið fyrir og öllum öðrum málum ýtt til hliðar. Þar með talið mál sem lögð hefur verið ofuráhersla á á undanförnum vikum að afgreiða hér, leiðréttingar á skaðabótalögum þar sem nefnd hafði náð samkomulagi um niðurstöðu. Þessu mátti ýta til hliðar sem og öðrum mikilvægum málefnum sem bíða afgreiðslu. En Vinnumálasambandið er búið að segja hæstv. félmrh. að halda áfram, keyra frv. í gegn. Í þessari ályktun stjórnar Vinnumálasambandsins kemur fram ótrúleg lítilsvirðing við launafólk í landinu.

Einu sinni var talað um systrahreyfingarnar, samvinnuhreyfinguna og verkalýðshrefinguna. Það var gert á hátíðarstundum hér áður fyrr. Á þessu má sjá hve langt Vinnumálasamandið hefur fjarlægst upprunaleg stefnumið samvinnuhreyfingarinnar á sama hátt og Framsfl. hefur fjarlægst tengsl sín við fólkið í landinu eins og hann lagði sig þó fram um að ná þessum tengslum í kosningabaráttunni sl. vor. Þeir eru fljótir að gleyma, þessir háu herrar. Þess vegna þarf kannski engan að undra að ríkisstjórn Framsfl. og Sjálfstfl. stofni til ófriðar á vinnumarkaði, hún er ekki í tengslum við fólkið í landinu, hún lætur stjórnast af samtökum atvinnurekenda. En það hefur líka sýnt sig sem betur fer að launafólk á málsvara á Alþingi, það hefur komið fram. (Félmrh.: Gott.) Já, það veitir ekki af, hæstv. félmrh. Það hlægir þig e.t.v. í krafti þess meiri hluta sem hæstv. ráðherra hefur á þinginu. En við höfum talfæri og tíma. Við munum nota það í þessari umræðu sem og því sem á eftir kemur. Við erum reiðubúin til þess að halda uppi vörnum fyrir almenning í landinu.

Það hefur komið fram hjá forustumönnum verkalýðshreyfingarinnar sem hv. þm. Pétur H. Blöndal talaði svo mikið um í gær, reyndar eini stjórnarþingmaðurinn sem hefur farið í ræðustól fyrir utan eitt stutt andsvar, hinir hafa ekki aðeins kosið að hafa heldur hljótt um sig heldur líka að láta ekki sjá sig.

Samráðið við verkalýðshreyfinguna er ekkert. Samráðið við Samtök aldraðra, við Öryrkjabandalagið þegar kjör þeirra voru skert var ekkert þrátt fyrir yfirlýsingar hæstv. ráðherra hér í gær. Í blaði sem ég fékk í hendur áðan og gefið er út af Alþýðusambandi Íslands og kallað er Griðrof er saga málsins rakin í nokkurs konar forustugrein. Vegna þess hve oft hæstv. ráðherra hefur talað um það samráð sem hafi verið haft við verkalýðshreyfinguna, ASÍ og BSRB, við launafólkið í landinu er rétt að fara yfir þessa forustugrein, ekki síður vegna þess að hv. þm. Pétur H. Blöndal situr í sæti sínu í þingsölum. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Það er áréttað að hugmyndir í áfangaskýrslu vinnuhópsins þarf að ræða frekar áður en þær eru útfærðar nánar enda þarf víðtæk umræða að eiga sér stað um þetta efni. Ýmis atriði sem tengjast þessum hugmyndum hafa auk þess ekki verið rædd til hlítar og má nefna miðlun sáttasemjara og fyrirkomulag á atkvæðagreiðslu um hana, boðun verkfalls og verkbanns, hlutverk ríkissáttasemjara í vinnudeilum og vinnustaðafyrirkomulag.`` --- Þarna er vitnað til áfangaskýrslu sem skilað var til hæstv. ráðherra í haust og hann hefur vitnað til í ræðu sinni sem og aðstoðarmaður hans í greininni í blöðum í morgun.

,,Vinnuhópur félmrh. var skipaður í október 1994 til að kynna sér þróun samskiptareglna á vinnumarkaði í öðrum löndum og kanna hvort breyta þyrfti reglum hér á landi. Ofangreind áfangaskýrsla var lögð fram í lok nóvember 1995. Örfáum vikum síðar lá fyrir lagafrv. embættismanna í félmrn. um breytingar á lögum um sáttastörf í vinnudeilum þar sem einkum er verið að breyta þeim atriðum sem fram kom að ekki hefðu verið rædd til hlítar!

Alþýðusambandið samþykkti á sínum tíma að taka þátt í vinnu hópsins á þeirri grundvallarforsendu að ASÍ teldi mikilvægt að fulltrúar verkafólks kæmu að mótun samskiptareglna á vinnumarkaði og að um þær ríkti sem víðtækust sátt. Annars næðu þær ekki markmiði sínu. Enda mótmælti ASÍ þessum vinnubrögðum og sagði eðlilegra að aðilar vinnumarkaðarins semdu um bættar samskiptareglur í frjálsum samningum sín á milli. Í þeirri vinnu lagði ASÍ megináherslu á að efnisinnihald samningsins yrði ásættanlegt og neitaði að samþykkja fyrir fram að ógerður samningur yrði sjálfkrafa að lögum nema um það væri sátt og að öðrum þeim sem málið snerti væri gefinn kostur á að kynna sér það. Þessi samningsgerð var í gangi þegar félmrh. ákvað að rjúfa grið í málinu með því að leggja einhliða fram frv. til laga um breytingar á lögunum nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur. Í því er enn farið fram með flest þau atriði sem sögð voru órædd í áfangaskýrslu vinnuhópsins og þau atriði sem verkalýðshreyfingin hafði gert hvað alvarlegastar athugasemdir við. Með þessu griðrofi og broti á áratugalangri hefð fyrir þríhliða samstarfi og sátt um samskiptareglur á vinnumarkaði á verkalýðshreyfingin engan annan kost en að taka á málinu með allt öðrum hætti en hingað til.

Haldi stjórnvöld þessu máli til streitu er verið að slíta friðinn.``

Samráðið á kannski að fara þannig fram að þegar 1. umr. er lokið eigi málið samkvæmt venju að fara til umsagnar til verkalýðshreyfingarinnar og henni gefinn kostur á að mæta á fund félmn. til að koma athugasemdum sínum á framfæri. Hins vegar er mjög slæmt ef meiri hluti félmn. og þeir sem eiga að reka málið fyrir hæstv. ráðherra sjá ekki ástæðu til að sitja og vera viðstaddir þá umræðu sem hér fer fram.

Hæstv. ráðherra hefur lagt ofuráherslu á að hér sé ótölulegur fjöldi verkfallsdaga. Verkföll séu of tíð og það sé tap fyrir þjóðfélagið. Hæstv. ráðherra sagði í ræðu sinni í gær að heildarfjöldi tapaðra vinnudaga á árinu 1970--1995 hefði þrisvar farið yfir 300 þús. á ári. Fjöldi vinnustöðvana á ári hefðu verið frá einni upp í 292 árið 1977 og þessi mikli fjöldi vinnustöðvana hefði valdið miklu beinu og óbeinu tjóni.

Hv. þm. Pétur H. Blöndal tók í sama streng. Hann sagði að íslenska þjóðin hefði á undanförnum áratugum þurft að horfa upp á verkföll og aftur verkföll og hún hefði þurft að líða fyrir skaðsemi þessara sömu verkfalla. Atvinnulífið hefur þurft að búa við það ár eftir ár að geta ekki staðið við samninga við útlendinga sem þeir hafa gert og menn hafa séð margra ára markaðsstarf hrynja trekk í trekk vegna verkfallsgleði. Tilfinning mín fyrir því að hlusta á hæstv. ráðherra og hv. þm. í gær var sú að verkafólk færi í verföll bara rétt sér til skemmtunar eins og það væri að fara í göngutúr á góðviðrisdegi og tæki sér frí til þess. Verkföll hafa orðið vegna þess að kjör fólks hér á landi hafa verið lág. Þau hafa verið léleg. Í samanburði við kjör fólks annars staðar og þau lönd sem hafa hér verið talin upp til samanburðar þá eru kjör verkafólks hér á landi mun lélegri. Er það vegna þess að verkalýðshreyfingin fór í verkföll til að ná fram leiðréttingu á sínum kjörum. Nei, þetta er nefnilega ekki einhliða. Það þarf tvo til. Þetta sýnir kannski hvernig atvinnurekendur hafa horft til verkalýðshreyfingarinnar og þeirra kjara sem verkafólki hér á landi hefur verið búin á undanförnum árum. Þeir hafa nefnilega setið og setið og setið og setið og neitað að lagfæra kjörin. Þess vegna hafa orðið til verkföll. Hv. þm. Pétur H. Blöndal minntist sérstaklega á sjómannaverkfallið sem hefði verið rosalegt tap fyrir þjóðina. Gæti haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar. Vissulega. En hvers vegna fóru sjómenn í verkfall? Þeir fóru í verkfall til þess að fá að koma að samningaborði til að ræða sín kjör. (PHB: Því er lýst í frv.) Þeir fóru til þess. Það er þetta frv. sem hæstv. ráðherra leggur fram, þetta frv. lagar þetta ekkert, það gerir það ekki. Hv. þm. Pétur H. Blöndal sagði að ekkert hefði náðst fram vegna þess að forusta verkalýðshreyfingarinnar væri svo óskaplega léleg. En í hinu orðinu sagði hann: ,,Við höfum búið við það þjóðfélag að 160 þús. manns hafa samið hver fyrir sig við atvinnurekanda sinn.`` Þetta er bara bull. Þetta er bara bull vegna þess að það vita allir sem hafa verið á hinum almenna vinnumarkaði --- þeir eru kannski ekki nógu margir hér inni --- að svona bara gengur þetta ekki fyrir sig. Þetta er bara bull.

[15:30]

Það er ansi margt sem hægt væri að fara yfir í þessu frv. Hæstv. félmrh. hefur sagt að tilgangurinn með framlagningu þess væri sá helstur að færa vald frá stéttarfélögunum til fólksins sjálfs. Það væri tilgangurinn með samþykkt frv. (Félmrh.: Forustu stéttarfélaganna.) Nú ákvað ég að lesa frv. eins og hæstv. ráðherra bað mig um. Hann beindi því til okkar að við læsum frv. og færum yfir það á málefnalegan hátt og án alls ofstopa. Hafi hæstv. ráðherra komist að þeirri niðurstöðu að þau sex afbrigði atkvæðagreiðslu sem boðuð eru í frv. séu til að einfalda og auðvelda málin og færa völdin út til hins almenna félaga í stéttarfélögunum, les hann það með allt öðru hugarfari en hann fór fram á að við hinir hv. þm. gerðum. Það er kannski svolítið fróðlegt að fara yfir þessi afbrigði og velta fyrir sér þeirri spurningu hvort þetta atkvæðagreiðslufyrirkomulag hafi svo margt fram yfir það fulltrúalýðræðiskerfi sem er innan verkalýðsfélaganna í dag. Um leið bið ég hæstv. ráðherra að svara eftirfarandi spurningu: Hefur hæstv. ráðherra verið virkur félagi í stéttarfélagi eins og t.d. ASÍ eða BSRB? Hefur hann tekið þátt í störfum þessara félaga?

Ef hæstv. ráðherra vill standa við hlið mér í pontunni, er það velkomið. (Félmrh.: Ég hef nú ekki hugsað mér það en ég held þeir standi bara sitt hvorum megin við þig.) Þurfa hæstv. ráðherrar að víkja úr salnum?

(Forseti (StB): Forseti hefur orðið við þeirri ósk að hæstv. ráðherra víki hér úr salnum til þess að taka við tilteknum hlutum úr hendi forustumanna verkalýðshreyfingarinnar.)

Er þá ekki rétt að við gerum hlé á fundi á meðan?

(Forseti (StB): Ef hv. þm. sættir sig við það. Þetta tekur örstutta stund.)

Ég sætti mig fullkomlega við að hæstv. ráðherrar fari og taki við ályktunum eða öðru frá verkalýðshreyfingunni. Það finnst mér gott. En ég sætti mig hins vegar ekki við að þurfa að tala hér á meðan. Ég óska því eftir því að fá að gera hlé á ræðu minni þar til þeir koma aftur í salinn.