Stéttarfélög og vinnudeilur

Föstudaginn 22. mars 1996, kl. 15:58:25 (4384)

1996-03-22 15:58:25# 120. lþ. 114.1 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur

[15:58]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ástæða til að taka undir það af fullum krafti sem hv. síðasti ræðumaður sagði. Hér er verið að rjúfa þá sátt um samskiptareglur á vinnumarkaði sem ríkt hefur í áratugi. Ég vil benda hv. þm. á atriði sem styður mjög málflutning þingmannsins, bréf sem ég ritaði sem félmrh. fyrir hönd ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar í október 1992 til framkvæmdastjóra Evrópuráðsins til áréttingar á afstöðu íslenskra stjórnvalda til gildis 5. gr. félagsmálasáttmálans. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

,,Áhersla er á það lögð að í 5. gr. félagsmálasáttmálans felist sú höfuðskuldbinding að samningsaðilar skuli tryggja að samtök aðila vinnumarkaðarins hafi eðlilegan starfsgrundvöll og að milli þeirra ríki ákveðið jafnvægi. Á því er vakin athygli að allgóður friður hefur ríkt um samskiptareglur á íslenskum vinnumarkaði sem ýmist byggjast á settum lögum eða ákvæðum í kjarasamningum. Þar af leiðandi hefur ríkisstjórnin ekki í hyggju að grípa til neinna þeirra aðgerða sem kunna að raska því jafnvægi sem ríkt hefur í samskiptum aðila vinnumarkaðarins undanfarin rúmlega 50 ár.``

Ég skrifaði þetta bréf fyrir hönd ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar og maður spyr: Hvað hefur breyst? Er það virkilega svo að félmrh. hafi knúið þetta mál í gegn jafnvel í andstöðu við hæstv. forsrh.? Ég held að það hljóti að vera þegar þetta liggur fyrir. Við getum ekki verið slíkir ómerkingar í alþjóðasamskiptum. Við skrifuðum bréf til Evrópuráðsins í fyrri ríkisstjórn þar sem við segjumst ekki ætla að rjúfa þá samstöðu sem ríkt hefur í 50 ár milli aðila vinnumarkaðarins um samskiptareglurnar. Því hljótum við í þessari umræðu að spyrja hæstv. forsrh.: Hvað hefur breyst frá því að þetta bréf var ritað 1992?

[15:58]