Stéttarfélög og vinnudeilur

Föstudaginn 22. mars 1996, kl. 16:01:05 (4386)

1996-03-22 16:01:05# 120. lþ. 114.1 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur

[16:01]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. 4. þm. Suðurl. hefur farið nokkuð hörðum orðum um hæstv. félmrh. Ég vil leyfa mér að benda henni á að fátt er svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott, því nú tel ég að hæstv. félmrh. sé að vinna sitt stærsta afrek á sínum pólitíska ferli, sem sé það afrek að sameina gjörvalla verkalýðshreyfinguna á Íslandi á frjálsum vinnumarkaði og opinbera starfsmenn og félagshyggju- og verkalýðsflokkana saman í eina órofa fylkingu gegn hæstv. ríkisstjórn. --- [Lófatak á þingpöllum.]

(Forseti (SB): Forseti vill biðja hv. þm. afsökunar en vill jafnframt biðja hv. gesti okkar á þingpöllum að klappa ekki). (Gripið fram í: Þingmönnum er sama um það.)

Þetta er hlutur sem ekki hefur tekist hjá merkum mönnum eins og hv. þm. Jóni Baldvini Hannibalssyni, hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni, hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni, hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur og þeim sem hér stendur. En aldrei var því um Álftanes spáð að ættjörðin frelsaðist þar. Ég vil vísa því til hv. 4. þm. Suðurl. að það er sitthvað jákvætt við framgöngu hæstv. félmrh. Það er bara verst ef hann yrði nú undir þeirri skriðu sem hann er að ýta af stað.