Stéttarfélög og vinnudeilur

Föstudaginn 22. mars 1996, kl. 16:05:48 (4389)

1996-03-22 16:05:48# 120. lþ. 114.1 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur

[16:05]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil sem nefndarmaður í félmn. segja örfá orð í andsvari. Í þessari umræðu hefur mikið verið talað og fullyrt um skort á samráði við aðila vinnumarkaðarins. Maður veltir því fyrir sér hvenær samráð sé nægjanlegt og hvenær því ljúki. Nægir ekki að hafa 48 fundi, eða hvað? Hvað þurfa þeir yfirleitt að verða margir til að menn geti náð saman? Ég held að það sé óhætt að segja að verkalýðshreyfingin eigi einhverja sök á því að það skuli ekki hafa náðst það samráð sem þeir telja nauðsynlegt. Ég held að þeir hafi þumbast við að samþykkja eðlilegar breytingar. Ég er einn af þeim sem tel t.d. ekki eðlilegt að verkalýðsforusta geti kallað saman fáeina félaga sína og boðað svo verkfall í 2.000 manna verkalýðsfélagi. Ég er einn þeirra sem tel að slíkum vinnubrögðum verði að breyta. Þar með er ég ekki að segja að ég vilji samtök verkamanna feig. Fjarri því. Ég tel að samtök verkamanna séu einn af hornsteinum lýðræðisins og því nauðsynlegt að efla þau. Ég vil stuðla að því að lagasetningin verði til þess að auka lýðræði í verkalýðshreyfingunni og færi valdið til fólksins. Það tel ég geta gerst með vinnustaðarsamningum og ég tek sérstaklega fram að ég sé mikinn mun á vinnustaðarsamningum og vinnustaðarfélögum. Það er mikill munur á þessu tvennu og það tel ég að þurfi að skoða í hv. félmn. Einnig tel ég að þar þurfi að skoða þá þröskulda í atkvæðagreiðslum sem talað hefur verið um og verkalýðsforustan sér ýmsa meinbugi á að geti gengið upp. Ég tek einnig fram að hæstv. félmrh. hefur tekið vel undir þær athugasemdir.