Stéttarfélög og vinnudeilur

Föstudaginn 22. mars 1996, kl. 16:08:07 (4390)

1996-03-22 16:08:07# 120. lþ. 114.1 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, MF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur

[16:08]

Margrét Frímannsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. ,,Hvenær er samráð nægjanlegt? Eru 48 fundir nægjanlega margir fundir?`` Það er af og frá að setja þetta svona upp. Nægjanlegt samráð aðila vinnumarkaðarins er það þegar þeir hafa komist að niðurstöðu. Það er ekki nægjanlegt samráð þótt fundirnir hefðu verið 148 þegar ljóst er að að 48 fundum loknum er verulegur ágreiningur. Þá á að halda áfram. Það er óviðunandi að ætla þessum launþegahreyfingum, hvort sem það er BSRB eða ASÍ, að skoða frumvörp frá því 15. janúar og fram í febrúarlok um svo veigamikla þætti í starfemi þeirra og segja svo að ef þeir geti ekki klárað þetta á þeim tíma fái þeir bara ekkert um þetta að segja nema í umsögnum til félmn. Alþingis. Þetta er ekki samráð og ég hvet hv. þm. til að fara yfir allar þessar ályktanir. Lýðræðið eykst ekki með þessu frv., svo mikið er víst. Atkvæðagreiðslukerfið með sínum sex afbrigðum eykur hvorki lýðræðið né frelsi einstaklingsins til að hafa áhrif á sín mál innan félagsins. Það er miklu meira í dag og það vitum við sem höfum verið virkir félagar í þessum verkalýðsfélögum og tekið þátt í starfsemi þeirra.