Stéttarfélög og vinnudeilur

Föstudaginn 22. mars 1996, kl. 16:09:53 (4391)

1996-03-22 16:09:53# 120. lþ. 114.1 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, ÖS (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur

[16:09]

Össur Skarphéðinsson (um fundarstjórn):

Herra forseti. Við gengum til þessarar umræðu í gærmorgun undir gríðarlega hörðum mótmælum stjórnarandstöðunnar. Þá hafði þessu máli verið dreift einungis degi áður en þetta er eitt flóknasta og viðamesta málið sem við fáum til umfjöllunar á þessu þingi. Við sögðum strax þá, stjórnarandstaðan, að við værum vanbúin til þessarar umræðu. Við óskuðum eftir góðu samstarfi við forsetadæmið um að fá að fresta þessu máli fram yfir páska en ekki var orðið við því. Og hvað hefur gerst síðan, herra forseti? Hér hefur hæstv. félmrh. dottað í stólnum en hver stjórnarandstæðingurinn á fætur öðrum komið og tætt í sundur frv. Það hefur verið sýnt fram á tæknilega agnúa, það hefur verið sýnt fram á brot á ákvæðum þess gagnvart félagsmálasáttmála Evrópu og svo mætti lengi telja. Á meðan hefur hæstv. félmrh. dottað í stólnum og ekki einu sinni komið upp til andsvara vegna þess að andsvörin eru engin til. Það er ljóst, herra forseti, að stjórnarandstaðan mun notfæra sér sinn lýðræðislega rétt til þess að ræða þetta mál vel og lengi. Við höfum til samkomulags, herra forseti, óskað eftir því að málinu væri frestað fram yfir páska og nú endurtek ég enn einu sinni: Er von til þess að það sé hægt að ná samkomulagi við forsetadæmið um það að málinu verði frestað fram yfir páska? Við gætum þá gengið til okkar frís eins og áður var um samið. Ég spyr forseta þess --- og ég veit að hæstv. forseti Ólafur G. Einarsson er hér í hliðarsölum: Er ekki mál til komið að við gerum hlé á þessum fundi og reynum að finna fram úr því hvort ekki sé unnt að ná samkomulagi um að fresta þessu máli, sem er gallað, sem er umdeilt og sem hefur gervalla verkalýðshreyfinguna á móti sér?