Stéttarfélög og vinnudeilur

Föstudaginn 22. mars 1996, kl. 16:11:52 (4392)

1996-03-22 16:11:52# 120. lþ. 114.1 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, ÁE (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur

[16:11]

Ágúst Einarsson (um fundarstjórn):

Herra forseti. Í umræðunni áðan var vakin athygli á bréfi sem fyrrverandi félmrh. ritaði fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands. Þar sagði, með leyfi hæstv. forseta:

,,Þar af leiðandi hefur ríkisstjórnin ekki í hyggju að grípa til neinna þeirra aðgerða sem kunna að raska því jafnvægi sem ríkt hefur í samskiptum aðila vinnumarkaðarins undanfarin rúmlega 50 ár.``

Þetta var einnig ríkisstjórn Davíðs Oddssonar og ég fer þess á leit við hæstv. forseta að forsrh. svari þessu. Hér hafa komið fram mjög sterkar ábendingar um að við séum að ræða frv. sem brýtur í bága við alþjóðasamninga. Það er ekki hægt að vera með umræðu á þeim grundvelli á hinu háa Alþingi. Ég geri kröfu til þess, herra forseti, að forsrh., sem er víst hér í húsinu, komi í salinn og svari fyrir þennan þátt málsins. Það á að taka þetta mál út af dagskrá vegna þeirra röksemda sem hér hafa komið fram. A.m.k. á að gera hlé á þessum fundi svo menn geti farið yfir þennan þátt málsins. Það gengur ekki, herra forseti, að hér sé verið að knýja fram lagasetningu sem er ekki einungis í andstöðu verkalýðshreyfinguna heldur líka í andstöðu við lög og alþjóðasamninga. Það gengur ekki. Alþingi Íslendinga er misboðið með þeim málflutningi sem kemur fram í þessu frv. og ég fer þess á leit við hæstv. forseta að hann geri ráðstafanir til að það verði ekki haldið lengur áfram á þeirri braut.