Stéttarfélög og vinnudeilur

Föstudaginn 22. mars 1996, kl. 16:17:32 (4396)

1996-03-22 16:17:32# 120. lþ. 114.1 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, KÁ (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur

[16:17]

Kristín Ástgeirsdóttir (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Vegna þeirra orða sem hér féllu af forsetastóli vil ég ítreka að það er verið að fara fram á að þessu máli verði frestað. Það er sú beiðni sem hér liggur fyrir. Það er m.a. vegna þess, hæstv. forseti, að hér áðan komu fram mjög merkilegar upplýsingar frá hv. fyrrv. félmrh., Jóhönnu Sigurðardóttur. Það tengist reyndar ýmsu því sem áður hefur verið bent á hér í umræðunni, þ.e. spurningunni hvort með því frv. sem hér er verið að ræða sé verið að brjóta félagsmálasáttmála Evrópu. Það er sú stóra spurning sem hér liggur fyrir. Það kemur m.a. fram í bréfi sem vitnað var til hér áðan að túlkun íslenskra stjórnvalda er sú að í 5. gr. félagsmálasáttmálans felist sú höfuðskuldbinding að samningsaðilar skuli tryggja að samtök aðila vinnumarkaðarins hafi eðlilegan starfsgrundvöll og að á milli þeirra ríki ákveðið jafnvægi. Hæstv. forseti. Hér er verið að raska þessu jafnvægi. Það er verið að því. Það kemur einnig fram hér að þáv. ríkisstjórn hafi ekki fyrirhugað neinar breytingar. Hvers vegna er verið að gera þessar breytingar? Við verðum að fá svör við þessu. Það er eindregin ósk stjórnarandstöðunnar að þessu máli verði frestað, hæstv. forseti.