Stéttarfélög og vinnudeilur

Föstudaginn 22. mars 1996, kl. 17:00:27 (4400)

1996-03-22 17:00:27# 120. lþ. 114.1 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur

[17:00]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Vegna þeirra orða sem til mín var beint hér úr þessum ræðustól fyrir skömmu vil ég geta þess að forseti Alþýðusambandsins og fulltrúar af formannafundi Alþýðusambandsins afhentu okkur hæstv. félmrh. ályktun formannafundar sambandsins sem var gerð í dag og forseti Alþýðusambandsins fylgdi henni úr hlaði hér fyrir framan Alþingishúsið. Þar gafst tækifæri til þess að svara jafnframt spurningum fréttamanna í viðurvist þessara ágætu fulltrúa um hvaða áhrif ályktunin hefði á gang mála. Við skýrðum frá því sem menn þekkja að ráðagerðir ríkisstjórnarinnar eru þær að málið fái eðlilega afgreiðslu hér við 1. umr. og gangi að henni lokinni til nefndar. Þar verði fjallað um málið og tíminn nýttur í því þinghléi sem fram undan er til þess að aðilum sem að málinu koma, þá ekki síst Alþýðusambandi Íslands, gefist tækifæri og tóm til þess að koma sínum sjónarmiðum og röksemdum og athugasemdum að í málinu. Jafnframt skýrði forseti Alþýðusambandsins frá því að fyrirhuguð væru allvíðtæk fundarhöld á vegum Alþýðusambandsins til að fylgja ályktun þessari eftir. Þetta var það sem gerðist hér í dag í tilefni formannafundar Alþýðusambandsins. Ég tel því eðlilegt að málið haldi áfram, umræður haldi hér áfram og frv. gangi til nefndar með eðlilegum hætti að lokinni 1. umr. Ég tel að þetta þinghlé gefi mjög gott tækifæri til þess að menn fari ítarlega yfir málið og hlusti eftir þeim athugasemdum sem Alþýðusambandið hefur fram að færa.

Varðandi annan þátt sem nefndur var sérstaklega af hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, þar sem hún vitnar til bréfs sem hún ritaði í nafni þáv. ríkisstjórnar í október 1992, þá er þar fjallað um það að ekki séu ráðagerðir á Íslandi um það að breyta því jafnvægi sem ríkt hafi í samskiptum aðila vinnumarkaðarins undanfarin rúmlega 50 ár. Og það er spurt um það og gefið til kynna að með því frv. sem hér liggur fyrir séu menn að ganga gegn því sem þarna er sagt. Ég vek athygli á að svo er ekki vegna þess að í frv. eru menn ekki að færa vald frá Alþýðusambandinu eða verkalýðshreyfingunni til Vinnuveitendasambandsins. Það er ekki verið að færa vald frá þessum aðila til Vinnuveitendasambandsins. Hins vegar eru menn að breyta fyrirkomulagi innan raða beggja aðilanna, bæði hjá Alþýðusambandinu og verkalýðsfélögunum og eins hjá Vinnuveitendasambandinu. Þannig að í mínum huga er jafnvægið milli þessara aðila ekki að raskast. Það er ekki hægt að færa rök fyrir því. En að sjálfsögðu mun sú hv. nefnd sem málið fær til meðferðar skoða þetta alveg sérstaklega þar sem á því hefur verið vakin athygli hér í þessum ræðustól.