Stéttarfélög og vinnudeilur

Föstudaginn 22. mars 1996, kl. 17:10:36 (4405)

1996-03-22 17:10:36# 120. lþ. 114.1 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur

[17:10]

Bryndís Hlöðversdóttir (andsvar):

Herra forseti. Nú kemur hæstv. forsrh. hér og segir það sama og hæstv. félmrh. hefur verið að reyna að segja okkur í tvo daga. Raunveruleikinn er ekki sá sem þið sjáið og sem þið heyrið, hann er allt annar. Það er ekki verið að gera neitt sem brýtur í bága við réttindi launafólks eða réttindi samtaka launafólks. Þetta er greinilega allt tómur misskilningur. Þrátt fyrir það að gjörvöll verklýðshreyfingin hafi nú risið upp í andstöðu gegn áformum ríkisstjórnarinnar.

Á það hefur verið bent hér af hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur að ríkisstjórn Íslands, fyrri ríkisstjórn hæstv. ráðherra Davíðs Oddssonar hafi sérstaklega áréttað skilning sinn á félagsmálasáttmála Evrópu í bréfi. Á það hefur verið bent að bréfið hafi verið sent inn til Evrópuráðsins í tengslum við tiltekið mál. Ég vil árétta það sem reyndar kom að hluta til fram í máli hv. þm. að hér er um alvarlegt mál að ræða því hér er ekki aðeins um að ræða bréf sem félmrh. sendir heldur bréf sem er sent í tengslum við dómsmál sem var til meðferðar fyrir Mannréttindadómstól Evrópu á sínum tíma og má því líta á þess vegna sem réttarfarslega skuldbindingu af Íslands hálfu í málinu. Þar segir að ríkisstjórnin hafi ekki í hyggju að grípa til neinna þeirra aðgerða sem kunni að raska því jafnvægi sem ríkt hafi í samskiptum aðila vinnumarkaðarins undanfarin rúmlega 50 ár. Telur hæstv. ráðherra þetta virkilega ekki skipta neinu máli? Ber hann ekki meiri virðingu fyrir alþjóðlegum skuldbindingum og alþjóðlegum samningum en svo? Ég vil líka árétta það að í umræðunni hefur einnig verið á það bent að þessi frv. sem hér hafa legið frammi séu mjög líklega íhlutun í innri málefni stéttarfélaga og þar af leiðandi í andstöðu við alþjóðlega sáttmála sem íslenska ríkið er skuldbundið af. Ég vil ítreka spurningu mína til hæstv. forsrh.: Ber hann ekki meiri virðingu fyrir alþjóðlegum skuldbindingum en þetta?