Stéttarfélög og vinnudeilur

Föstudaginn 22. mars 1996, kl. 17:12:57 (4406)

1996-03-22 17:12:57# 120. lþ. 114.1 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur

[17:12]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Auðvitað ber ég, sem aðrir þingmenn og aðrir ráðherrar, virðingu fyrir skuldbindingum sem Ísland hefur gengist undir. Ég þykist kannast við þetta bréf, hv. þm. Ég hygg að það hafi verið sent í samráði við mig á sínum tíma og ég kannast við það. En ég sagði hér áðan að mér sýndist að frv. sem við erum hér að ræða raskaði ekki því jafnvægi sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, sem félmrh., undirstrikaði að ekki stæði til að raska, í bréfi sínu. Þetta er mitt mat. En ég segi jafnframt að auðvitað mun nefndin skoða þessa þætti og aðrar ábendingar sem hv. þm nefndi hér áðan, þar sem hún telur að frv. í núverandi mynd brjóti í bága við alþjóðlega samninga sem Ísland er aðili að. Auðvitað þarf nefnd að skoða slík atriði. Slíkt verður aldrei útrætt hér í salnum. Það þarf að fara yfir það með sérfræðingum og ræða það sérstaklega í hv. nefnd. Það er hinn eðlilegi og rétti vettvangur. Alþingi getur ekki afsalað sér þeim rétti og þeirri skyldu að setja lagaramma um jafnmikilvægan málaflokk og þýðingarmikinn fyrir þjóðfélagið allt eins og þennan.