Stéttarfélög og vinnudeilur

Föstudaginn 22. mars 1996, kl. 17:20:59 (4413)

1996-03-22 17:20:59# 120. lþ. 114.1 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur

[17:20]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Hér hefur verið vakin athygli á því að það eru þéttskipaðir þingpallarnir fulltrúum úr verkalýðshreyfingunni. Það er enginn frá VSÍ, enginn frá Vinnumálasambandinu, enginn frá Verslunarráðinu. Þar á bæ vita menn (Gripið fram í: Hvar er Villi?) að ríkisstjórnin er að gera rétta hluti. Ríkisstjórnin er að fara að fyrirmælum sem gefin hafa verið í Garðastræti. Ríkisstjórnin er að fara að fyrirmælum sem atvinnurekendur hafa gefið henni.

Hins vegar eru að gerast mjög merkileg og slæm tíðindi. Ríkisstjórnin ætlar að virða að vettugi óskir og kröfur gervallrar íslensku verkalýðshreyfingarinnar um að skerðingarfrumvörpin illræmdu verði tekin þegar í stað út af borðinu, ekki frestað heldur tekin þegar í stað út af borðinu. Það er krafan. Nýsjálenski sérfræðingurinn og ráðgjafinn í frjálshyggju sem ríkisstjórnin fékk hingað til lands í vetur sagði að þeir ættu að gera þrennt: Leiftursókn, ekkert samráð og hlustið ekki á mótmæli. Þeir virðast ætla að fara í einu og öllu eftir nýsjálenska frjálshyggjupostulanum.

(Forseti (ÓE): Forseti verður nú að láta þess getið að það var svona á mörkunum að þetta væri andsvar við ræðu hæstv. ráðherra.)