Stéttarfélög og vinnudeilur

Föstudaginn 22. mars 1996, kl. 19:05:53 (4426)

1996-03-22 19:05:53# 120. lþ. 114.1 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur

[19:05]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson er klókur stjórnmálamaður með langa þingreynslu. Honum tókst í andsvari við ræðu hæstv. forsrh. fyrr í dag að snúa sig út úr orðum mínum sem ég lét falla í andsvari við hv. þm. Margréti Frímannsdóttur að ég ásamt hv. þm. Guðmundi Hallvarðssyni væri á móti frv. hæstv. félmrh. Þetta gerði hann í andsvari svo að ég gat ekki svarað því þá og kýs því að gera það í andsvari við hv. þm. Sighvat Björgvinsson.

Það sem ég sagði um þetta mál var eftirfarandi, með leyfi forseta:

,,Það er mikill munur á vinnustaðarfélögum og vinnustaðarsamningum. Þetta munum við skoða í hv. félmn. Eins munum við skoða þröskulda í atkvæðagreiðslum en eins og kunnugt er hefur hæstv. félmrn. tekið vel í að breyta þeim ákvæðum.``

Þetta eru þau orð sem ég lét falla og er ekki yfirlýsing um það að ég sé á móti þessu frv. heldur að ég vil skoða þessa þætti í nefnd. Eins og ég sagði í dag tel ég að verkalýðshreyfingin sé einn af hornsteinum lýðræðisins og því munum við að sjálfsögðu skoða sjónarmið þeirra af fullri vinsemd.