Stéttarfélög og vinnudeilur

Föstudaginn 22. mars 1996, kl. 20:33:31 (4428)

1996-03-22 20:33:31# 120. lþ. 114.1 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, EOK
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur

[20:33]

Einar Oddur Kristjánsson:

Herra forseti. Það hefur ekki farið fram hjá neinum að það frv. sem hér liggur fyrir hefur vakið mikla athygli í þjóðfélaginu og heilmikla úlfúð. Mér sýnist þær miklu deilur sem eru í uppsiglingu og eru þegar orðnar heyrum kunnar standa meira um form en efni. Það hljóta að vera vonbrigði fyrir alla að þeir aðilar vinnumarkaðarins sem hafa verið beðnir um að endurskoða þessi lög skuli ekki bera gæfu til þess að koma sér saman um þessa hluti. Það hefði verið betra fyrir aðila vinnumarkaðarins, það hefði verið betra fyrir stjórnvöld, Alþingi og alla þjóðina að svo hefði mátt ganga fram.

Á undanförnum dögum hef ég verið að reyna að átta mig á því hvaða efnisatriði það eru sem menn deila um. Hví tókst mönnum ekki að ná saman? Ég verð að viðurkenna að eftirtekja mín er heldur rýr og því segi ég að það er hörmulegt að ekki tókst að semja. Mér dettur helst í hug að það hafi verið einhver klaufaskapur að ekki tókst að koma með frv. að breytingum á vinnulöggjöfinni þar sem aðilar vinnumarkaðarins gætu staðið saman eins og von manna stóð til.

Það er mikil ógæfa ef svo stór og öflugur aðili eins og Alþýðusamband Íslands er mjög óánægður með stöðu mála. Það er mjög slæmt fyrir okkur öll. Alþýðusambandið og reyndar launþegahreyfingin í heild getur verið hvumpin og hún getur verið nokkuð stygg og kannski ekki að ástæðulausu vegna þess að í gegnum söguna eru ansi mörg klaufaspörkin sem stjórnvöld hafa gert varðandi vinnumarkaðinn. Ætla ég ekki að fara út í það hér, það er bara til þess að lengja umræðuna.

Við skulum minnast þess að í nærri tvo áratugi báru stjórnvöld þessa lands ekki gæfu til þess að haga efnahagsmálum Íslands að okkur bæri eins hratt og vel fram til velfarnaðar og efni stóðu til. Við skulum minnast þess núna á tíunda áratugnum þegar við höfum fengið að lifa við stöðugleika í þó nokkuð mörg ár og sáum ávexti þess starfs vera að koma fram að það var Alþýðusamband Íslands ásamt BSRB og Kennarasambandinu sem á sínum tíma axlaði þá ábyrgð og gekk fram fyrir skjöldu um það að við skyldum koma einhverju skikki á mál. Því er það alvarlegur hlutur ef launþegahreyfingin er mjög óánægð með sinn hlut og engin ástæða fyrir einn né neinn að fagna því sem einhverju skemmtimáli.

Eins og ég sagði áðan, herra forseti, hef ég reynt að átta mig á því í hverju þessi efnisatriði eru aðallega fólgin og það eru nokkur atriði sem ég hef rekið augun í og rætt við þessa aðila um og ég tel rétt að geta þeirra flestra hér. Ég veit að verkalýðsfélögunum er töluvert uppsigað við ákvæðið um vinnustaðarfélögin og hafa jafnvel sagt mér að þau telji og lögfræðingar þeirra að eins og þetta er orðað í lögunum, þ.e. lögverndun þeirra eins og þeir vilja meina hana, sé brot á 87. gr. samþykktar Alþjóðavinnumálastofnunarinnar. Ég hef spurt nokkra aðila um þetta og lögfræðingar eru ekki sammála hvort þetta sé rétt eða ekki. Sjálfur efa ég að þetta sé rétt. En ef það er á rökum byggt að þetta gangi gegn þeirri samþykkt sem ég held að Ísland hafi samþykkt kringum 1950 að ég held þá er það náttúrlega hlutur sem allir sjá að hefur ekki annað í för með sér en við verðum að taka þetta ákvæði út úr lögunum og fyrir mína parta, herra forseti, er það rétt að það komi fram að ég mundi ekki harma það.

[20:45]

Ég lít á þetta ákvæði í frv. sem hálfgerðan bastarð. Ég hef töluvert aðrar skoðanir á því hvernig við ættum að byggja upp og standa að þeirri lagasetningu sem best mundi horfa fyrir vinnumarkaðinn og það hefur aldrei farið milli mála að ég er ákaflega mikill miðstýringarmaður og geng þar þvert á yfirlýsingar fagrar og fallegar, bæði frá mönnum sem tengja sjálfan sig við sósíalisma, svo og frjálshyggju og allt þar á milli. Ég tel að reynslan hafi bara sýnt allt annað. Ég tel að reynslan hafi sýnt í svo ofurlitlu þjóðfélagi með þetta örlitla efnahagsumhverfi, sem við lifum í, að það er miðstýringin sem hefur fært okkur mestu róna og mesta og besta umhverfið til að starfa í enda skulum við líta til þjóða eins og Dana sem við miðum okkur oft við. Það hefur komið fram í umræðum á undanförnum árum hvað menn líta til þess hvað Dönum hefur gengið vel að ná sinni þjóð upp úr skuldafeninu, sem þeir voru í, gengið vel að semja á vinnumarkaðinum, gengið vel að efla atvinnulífið og hafa náð mjög háum kaupmætti. Það er mjög hár kaupmáttur í Danmörku og menn horfa til þess öfundaraugum hversu hátt kaup þar er greitt. Ég vil minna á að í Danmörku er mjög sterk verkalýðshreyfing og hún er mikið miðstýrð, meira að segja miklu meira en hér er. Þar eru líka sterk vinnuveitendasamtök sem eru líka mikið miðstýrð rétt eins og á Íslandi þannig að menn ættu að taka þennan lið alvarlega og vonandi mun þingið gera það og athuga gaumgæfilega hvort þessi vinnustaðarfélög eru til nokkurra bóta, ég tala ekki um ef þau stangast á við þær alþjóðasamþykktir sem við höfum gert.

Í öðru lagi er mér er sagt að þessir þröskuldar fari nokkuð fyrir brjóstið á verkalýðshreyfingunni varðandi atkvæðagreiðsluna og þá sérstaklega um miðlunartillögur. Mönnum þykir þetta nokkuð hátt eins og gengur. Menn hafa líka gagnrýnt að það séu hærri þröskuldar ef menn ætla að fara í minni átök á vinnumarkaði en stærri þannig að þetta er hvetjandi til þess að fara frekar í stór verkföll en lítil.

Það hefur komið fram í máli hæstv. forsrh. og hæstv. félmrh. að menn eru reiðubúnir til að ræða þetta og ég trúi að það sé ekkert heilagt í þessu og meina að það hljóti að vera hægt að ná um þetta þokkalegri sátt þannig að ekki skapist neinn glundroði eða vandræði þó einhverju verði breytt í þessu.

Ég hef líka orðið var við það í þriðja lagi að verkalýðshreyfingin lítur þessar tengireglur nokkru hornauga. Ég skal viðurkenna að sáttasemjara er gefið mikið vald. Sjálfur sé ég ekki ástæðu til þess að tortryggja það embætti og tel að það hafi verið mjög vel skipað þar sem ég þekki til og ég hefði haldið að tengireglan gæti verið af hinu góða. Hún gæti verndað láglaunahópana fyrir upphlaupum lítilla og kannski betur launaðra hópa eins og við þekkjum svo vel í gegnum þetta strit og eins og verkalýðsfélögin og Verkamannasambandið hafa réttilega gagnrýnt, ég tala nú ekki um í síðustu samningum, hvernig menn léku þessa leiki. Fyrst fór verkalýðshreyfingin fyrir, Verkamannasambandið, skrifaði undir skynsamlega, ábyrga kjarasamninga en síðan komu einstakir litlar hópar miklu betur launaðs fólks og tóku sér miklu hærri kauphækkanir sem ærir náttúrlega og særir þá sem fóru fyrir, báru ábyrgðina og vildu vera ábyrgir.

Í fjórða lagi hef ég tekið eftir því að sumir innan verkalýðshreyfingarinnar telja að ákvæðin í 2. gr. munu hafa þau áhrif að verkalýðsfélögunum geti fjölgað og þarna sé búið að opna smugur fyrir miklu fleiri verkalýðsfélög. Menn deila um þetta og ég vil ekki trúa því að þessi gagnrýni verkalýðshreyfingarinnar eigi við rök að styðjast en ég tel að það þurfi að skoða þetta ákaflega grannt vegna þess að ef gagnrýni verkalýðsfélaganna á frv. er á einhverjum rökum reist þá er mikil villa í frv. Að mínu áliti megum við aldrei fara út úr þeim ramma sem hefur reynst okkur best og sá rammi er að við eigum að reyna af fremsta megni að styrkja Alþýðusambandið sjálft og stóru samböndin. Hlutunum er best komið í því horfi. Danir hafa það t.d. þannig. Það eru stóru landssamtökin sem hafa eiginlega samningsréttinn í Danmörku. Hann er ekki inni hjá litlu félögunum. Því öflugri sem þessi stóru samtök verða á Íslandi því sterkari verður verkalýðshreyfingin og fyrir efnahagslífið, fyrir atvinnurekendur, fyrir þjóðfélagið í heild liggur það fyrir. Það liggur fyrir að því sterkari verkalýðshreyfingu sem við höfum því betra.

Nú segi ég þetta sem hef ekki gengið með rauðar dulur eða sungið baráttusöngva fyrir verkalýðsfélög gegnum tíðina heldur haft annað fyrir stafni. En ég tel mig þekkja þetta af eigin raun. Það væri mjög slæmt fyrir vinnuveitendur og atvinnufyrirtækin á Íslandi ef verkalýðshreyfingin splundraðist og veiktist. Það væri það versta sem gæti komið fyrir okkur. Ef við, löggjafinn, gætum orðið að einhverju liði eigum við því að stuðla að því að styrkja verkalýðshreyfinguna og því miðstýrðari sem hún væri því öflugri er hún og betri. Það kemur hvað eftir annað að menn ræða um hið sterka Vinnuveitendasamband. Af hverju er það sterkt? Það er miðstýrt og það er gríðarlega mikil miðstýring. Það er svo mikil miðstýring að ég held að það séu ekki nema 21 atkvæði. (Gripið fram í: Er það ekki aðallega Þórarinn?) Fyrr má nú gagn gera. Að vísu skal ég segja frá því að ég lít þannig á þetta frv. að verði það að lögum þá verði Vinnuveitendasambandið að breyta lögum sínum og láta atkvæðagreiðslur fara fram meðal félagsmanna, sem eru 4.000 að mig minnir eða eitthvað svoleiðis. En Vinnuveitendasambandið verður sterkt eigi að síður þó að það geri þetta.

Ég held nefnilega að það sé staðreynd að verkalýðshreyfingin hefur verið ákaflega stirð í því núna um margra ára skeið þrátt fyrir góðan vilja og margar samþykktir einmitt að efla starf sitt og efla innri uppbyggingu. Mjög margir eru tregir í að breyta þessu og þeir hafa veikt sig verulega með því.

Ég held líka að það komi í ljós ef við styrkjum verkalýðshreyfinguna, ef við, löggjafinn, getum hjálpað henni og ef hún ber gæfu til þess að geta sjálf því að hún hefur það fyrst og fremst á eigin hendi þá muni það hjálpa okkur til þess að skapa meiri frið og meiri sátt en við höfum oft mátt lifa við. Ég tel að það sýni sig sérstaklega í vor af því að það var mjög átakanlegt að horfa upp á hvernig einstök lítil verkalýðsfélög nýttu sér stöðu sína til að taka til miklu stærri skref en hin ábyrgu láglaunafélög gerðu.

Eins og ég gat um í upphafi lít ég þannig á að það hafi verið ákaflega óheppilegt að ekki tókst að semja milli þessara aðila, gera sátt á milli þeirra, sátt sem hefði síðan verið lögfest á Alþingi. Ég ætla ekki að fara út í það hverjum það kann að vera að kenna en það er eins og hið fornkveðna segir að sjaldan veldur einn þá tveir deila og ég býst við að það geti ýmsir átt sök þar á en það skiptir ekki máli. Slysið er orðið. Það hefur þegar skapað vandræði. En ég tel að Alþingi og félmn. Alþingis geti og ég treysti því að hún hafi fullan vilja til þess og ég þykist skilja orð hæstv. félmrh. og hæstv. forsrh. þannig að það sé vilji fyrir því að menn leiti allra ráða til þess að þetta frv. verði í endanlegri gerð þannig að sem allra flestir á vinnumarkaði geti verið þokkalega sáttir við það.