Stéttarfélög og vinnudeilur

Föstudaginn 22. mars 1996, kl. 20:55:54 (4431)

1996-03-22 20:55:54# 120. lþ. 114.1 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur

[20:55]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég taldi mig nota rétt orð þegar ég sagði ,,afar óheppilegt``. Það var ekki neitt mismæli og ég meinti það, afar óheppilegt. Það er einu sinni verksvið löggjafans að setja lög alveg eins og við erum að setja lög um hlutafélög og hvað eftir annað um hitt og þetta, leikreglur á borðunum og þarf ekki að lýsa því í þessum ræðustól.

Gagnvart hinu viðkvæma máli, sem er vinnumarkaðurinn og samskiptin þar, er ég þeirrar skoðunar að það hefði átt að kosta allt sem menn gátu til þess að ná þessum samningum. Menn segja mér hér að það hafi verið gert og það hafi ekki verið hætt við fyrr en menn gáfust alveg upp.

Þegar ég met efnisatriðin hvar menn stoppuðu flýgur mér í hug, að þetta hafi verið einhver klaufaskapur. Ég get ekki staðfest það, ég get ekki sannað það en ég segi hug minn allan í þessari pontu. Mér finnst efnisatriðin svo fá og svo smá að ég lít á þetta eins og það vanti þarna einhvern herslumun eða kannski menn hefðu ekki þá músík sem þurfti til. Ég veit ekki hvað það var. Ég get ekki um það dæmt, ég var ekki á þessum vettvangi.

Það hefði verið mjög æskilegt og mjög til bóta hefði tekist að semja. En hitt liggur fyrir og það var mat ráðherrans sem með málaflokkinn fór að þetta væri fullkannað. Þetta þýddi ekki, það yrði að gera þetta svona. Hann fór með málið inn í þingið. Stjórnarflokkar ríkisstjórnarinnar hafa samþykkt og ég stóð að því að heimila honum framlagningu málsins. Það liggur því fyrir að málið mun fá sína þinglegu meðferð og ég stend að því með félögum mínum.