Stéttarfélög og vinnudeilur

Föstudaginn 22. mars 1996, kl. 20:58:25 (4432)

1996-03-22 20:58:25# 120. lþ. 114.1 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur

[20:58]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég get ekki að því gert að mér finnst hv. þm. tala af talsverðum sannfæringarkrafti gegn málinu en komast svo að þeirri niðurstöðu í lokin af því að hann sé stuðningsmaður ríkisstjórnarinnar og hafi samþykkt að frv., svo vitlaust sem það er og illa að því staðið, hafi verið lagt fram. Þar með séu hendur hans bundnar og hann verði þvert um hug sér að lýsa því yfir hér að hann standi að því að málið haldi áfram í þinginu. Auðvitað er það alveg hárrétt og við sem erum kosin á Alþingi höfum alltaf verið og hljótum alltaf að verða sammála um að það er verksvið löggjafans að setja lög. En lög eru mismunandi, lög eru af ýmsum toga og um ýmislegt. Þessi lög eru mjög sérstök. Þessi lög eru fyrst og fremst leikreglur fyrir tiltekna aðila í þjóðfélaginu, mjög mikilvæga aðila, einhverja mikilvægustu aðila þjóðfélagsins. Þeim mun mikilvægara er það að menn vandi sig þegar slík grundvallarlöggjöf er sett og menn nái sæmilegri samstöðu um hana. Ég er hjartanlega sammála hv. þm. Ég hef enga sannfæringu fyrir því að þarna hafi borið svo mikið á milli efnislega að ekki hefði með þolinmæði og frekari vinnu og sanngirni á báða bóga verið unnt að ná þessu saman í samkomulag. 48 fundir segja mér ekki neitt. Óþolinmæði í einum hæstv. ráðherra segir mér ekki neitt, skiptir bókstaflega engu máli í þessu efni. Það sem skiptir máli er að ná samstöðu í þjóðfélaginu um grundvallarleikreglur af þessu tagi þannig að þær geti staðið lengi, helst áratugum saman og ekki þurfi að vera að hringla með slíka hluti því að þá er þjóðfélagið upp á endann og þannig getum við ekki haft það. Um grundvallarleikreglur eins og löggjöf um vinnumarkaðinn, kosningalöggjöf, stjórnarskipunarlög og annað af því tagi, verður að takast þokkaleg sátt ef friður og stöðugleiki á að geta ríkt í þjóðfélaginu. Þannig er það þannig að menn eru á villigötum. Ég skora á hv. þm., í samræmi við sannfæringu hans sem hann lýsti svo ágætlega áðan að ganga í lið með okkur að reyna að forða slysi.