Stéttarfélög og vinnudeilur

Föstudaginn 22. mars 1996, kl. 21:04:14 (4435)

1996-03-22 21:04:14# 120. lþ. 114.1 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur

[21:04]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég hef látið þess getið hér í kvöld að miðað við efnislega stöðu mála finnst mér sáralítið bera á milli aðila. Ég sagði ekkert um það hverju það væri að kenna að menn bæru ekki gæfu til þess að vera sammála. Ég hef enga stöðu til þess að dæma um það hverjum það var að kenna. Kannski var það öllum að kenna. Kannski áttu allir einhverja sök á því. Ég hef ekki hugmynd um það. Kannski var það verkalýðshreyfingin ein. Kannski voru það atvinnurekendur einir. Kannski voru það stjórnvöld ein sem báru ábyrgð á því. Ég veit það ekki, get ekkert um það dæmt og það getur enginn sagt um það núna.

Ég er ekki handhafi réttlætisins og ekki handhafi viskunnar um það hvernig samskipti manna geta batnað ef þau eru vond. Ég veit það bara að það sem eflir traust á milli manna er að menn séu hreinskilnir fyrst og fremst. Ég ætla nú þegar moldviðrinu lýkur og menn geta farið að skoða yfir sviðið, að þá sé það ekki neitt stórkostlegt sem á milli hefur borið. Og allar upphrópanirnar um stórkostlega aðför að fólki. Ég held að þegar við förum að skoða það í rólegheitum þá verði það minna úr en menn hafa rætt um í dag og í gær. Ég held því að leiðin til sátta milli manna og til að auka traust milli manna sé að skoða alla hluti yfirvegað, fara í gegnum það yfirvegað.

Ég sagði líka áðan að ég vissi að verkalýðshreyfingin væri viðkvæm og hvumpin af því að sagan sýnir það að gegnum tíðina eru stjórnvöld búin að gera óteljandi axarsköft í samskiptum sínum við launþega og það var nú ekki allt í dag eða í gær. Sumir hafa minni sem er lengra. Það væri hægt að nefna kannski einhver nöfn og einhver ártöl en af því að menn eru svo friðsamir hér í kvöld vil ég ekkert fara að lengja þetta. En stjórnarandstaðan hefur ekki á nokkurn hátt efni á að fagna því að verkalýðshreyfingin er óánægð.