Stéttarfélög og vinnudeilur

Föstudaginn 22. mars 1996, kl. 21:06:49 (4436)

1996-03-22 21:06:49# 120. lþ. 114.1 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur

[21:06]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég varð fyrir sárum vonbrigðum með svar hv. þm. Að hann skuli ekki geta í ræðustól kveðið skýrar að um hvernig eigi að rétta út sáttarhönd eins og við í stjórnarandstöðunni höfum verið að reyna að hvetja til þegar málin hafa verið komin í óefni.

Það á ekki að skýla sér á bak við orðaleppa eins og að segja: Ja, menn eiga að tala saman. Þetta er miklu alvarlegra mál en það. (Gripið fram í.) Mér finnst það sorglegt að innan ríkisstjórnarinnar skuli ekki vera sameinast um að lúta ráðum hv. þm. varðandi þetta mál vegna þess að hann ber sennilega eins og ég nefndi, framar öðrum skynbragð á það að taka forustu fyrir góðum mannlegum samskiptum milli samningsaðila. Hann hefur sýnt það í verki og ég held að þessi fræga setning skíni í gegnum ræðu hv. þm.: Svona gera menn ekki. Og ég les út úr ræðu hv. þm. að svona hefði hann aldrei lagt upp herfræði eða samskiptafræði við aðila vinnumarkaðarins. Það er þess vegna sem mér finnst það ekki vera gott að ríkisstjórnin skuli ekki viðurkenna frumhlaup sitt, mistök sín við aðferðafræðina, bæði gagnvart opinberum starfsmönnum og almenna vinnumarkaðinum og reyna að draga annaðhvort frumvörpin til baka eða finna þeim annan farveg þannig að menn komist út úr þessari hættulegu atburðarás sem nú siglir inn í. Ég fullyrði, herra forseti, að við munum öll tapa á því ef ekki fæst betra vit í þetta ferli eins og hér stefnir í. Þá held ég að ríkisstjórnin gerði gott í því að leita ráða hjá þeim mönnum innan sinna eigin raða sem þekkja vel til þess þáttar sem um ræðir.