Stéttarfélög og vinnudeilur

Föstudaginn 22. mars 1996, kl. 22:06:58 (4443)

1996-03-22 22:06:58# 120. lþ. 114.1 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur

[22:06]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Það kom fram í máli hæstv. félmrh. rétt áðan að hann lítur eiginlega á það sem hlutverk sitt að setja umferðarreglur fyrir vinnumarkaðinn. Hann lítur sem sagt á sig sem eins konar umferðarlöggu, en honum hefur ekki tekist betur til en svo að hann er að verða að lifandi umferðarslysi í þessu máli.

Það hefur komið í ljós í yfirlýsingum forráðamanna verkalýðshreyfingarinnar að þeir voru fullir vilja til þess að reyna að ná lendingu í málinu. Það hefur komið fram í umræðum að samningaviðræður aðila vinnumarkaðarins voru á dágóðu skriði, en það sem gerist er það að hæstv. ráðherra rýfur friðinn, tekur málið hingað inn í frumvarpsformi þegar hægt hefði verið hægt að ná lendingu með því að halda viðræðunum áfram. En hæstv. ráðherra bregður sér í margra kvikinda líki. Við höfum séð hann undir þessum umræðum bæði geispa og dotta. Svo kemur hann líka hingað með guðræknislegum svip og segist vera dálítið viðkvæmur fyrir því að brjóta alþjóðasamninga, svo ég vísi orðrétt í hans ágætu orð. Þegar hann er búinn að brjóta friðinn, kemur hann og segist vera dálítið viðkvæmur fyrir þessu. Hann er meira að segja svo kristilegur í hugsun sinni í dag og ber svo mikið traust til stjórnarandstöðunnar að hann ætlar að fela hv. þm. Kristínu Ástgeirsdóttur að athuga hvort það geti verið að hann hafi brotið þá. Hann er sem sagt ekki með hreinni samvisku en svo að hann telur að það geti vel verið að svo sé.

Ég varpaði spurningu til hæstv. ráðherra fyrr í dag sem mig langar til að ítreka hér af því að hann svaraði henni ekki. Hún varðar einmitt það sem mörgum finnst merkilegt, þ.e. stéttarfélög á vinnustað. En ég spyr hann: Er eitthvað því til fyrirstöðu í dag að starfsmenn í fyrirtækjum stofni vinnuastaðarfélög sem hafa réttarstöðu stéttarfélags? Er eitthvað í lögum sem hamlar því?