Stéttarfélög og vinnudeilur

Föstudaginn 22. mars 1996, kl. 22:18:49 (4451)

1996-03-22 22:18:49# 120. lþ. 114.1 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur

[22:18]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Hingað að Alþingishúsinu komu í dag forsetar Alþýðusambands Íslands, formenn nær allra aðildarfélaga sambandsins og kröfðust þess að það frv. sem hér er til umræðu verði dregið til baka. Sams konar kröfur hafa komið frá Bandalagi háskólamanna, BSRB og öðrum samtökum launafólks, ekki bara varðandi þetta eina frv. heldur skerðingarfrumvörpin sem svo eru nefnd og menn hafa haft uppi mjög stór orð um þetta, að ríkisstjórnin hafi sagt sundur friðinn.

Hér hafa verið fluttar nokkrar mjög athyglisverðar ræður í kvöld, þar á meðal af hálfu hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar sem á sínum tíma fékk viðurnefnið bjargvætturin og ekki að ástæðulausu. Hv. þm. býr yfir miklum sannfæringarkrafti og nú ætlar hann að reyna að beita þeim krafti til þess að bjarga æru ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar. Mikill þarf sá sannfæringarkraftur að vera ef honum á að takast það án þess að ríkisstjórnin fari að þeim vilja gervallrar verkalýðshreyfingarinnar í landinu að þessi frumvörp verði dregin til baka.

Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson sagðist vera að reyna að átta sig á því hvar ágreiningurinn lægi og kvaðst hafa komist að þeirri niðurstöðu að hann snerti að verulegu leyti formið. Að hluta til er þetta rétt. Þá snýst þessi deila um með hvaða hætti hlutirnir eru gerðir, með hvaða hætti þeir eru framkvæmdir. En stundum getur formið orðið efnislegt. Þannig skiptir það máli þegar á að reyna að knýja fram breytingar með lögum, beita menn lögþvingun.

Í annan stað vék hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson að efnisatriðum málsins einnig og hann sagði að um þau væri einnig deilt. Hann fór yfir þessi efnisatriði og benti á að það gæti varla verið að þar væru heilagar kýr á ferðinni, þar mætti ekki gera breytingar á. Mér heyrðist hæstv. félmrh. taka undir þetta sjónarmið að hluta til. Hann sagði að sú regla sem væri mikilvægust að sínu mati væri sú sem snerti verkstjórnarhlutverk sáttasemjara, að fá aðila til að setjast niður.

Nú efast ég ekkert um að hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson sé að tala af heilindum og mér er nær lagi að halda að hæstv. ráðherra geri það einnig. Ég vil engu að síður spyrja og biðja menn um að velta því fyrir sér hvort þessi deila geti einvörðungu snúist um form í ljósi þeirra viðbragða sem þetta frv. hefur vakið. Ég held nefnilega ekki. Ég held að það snúist ekki bara um form og ég mun víkja nánar að því.

Hæstv. félmrh. sagði áðan að spurningin snerist um hvort lagareglur ættu að gilda, einhver lagarammi í þessu efni. Það er rétt. Við búum við lög nú þegar. Við búum við ákveðinn lagaramma nú þegar þannig að spurningin snýst ekki um hvort það eigi að gilda lög. Spurningin snýst um það að okkur takist að skapa lög sem sátt ríkir um, sem aðilar eru reiðubúnir að virða, lög sem mönnum finnst vera sanngörn, lög sem eru líkleg til þess að auðvelda framgang mála en ekki torvelda hann. Við höfum brennt okkur á því að búa til svo strangar lagareglur á vinnumarkaði að þær eru hreinlega ekki virtar og þetta á ekki einvörðungu við okkur Íslendinga heldur gerist þetta víðar. Þannig er t.d. um verkfallsboðanir opinberra starfsmanna. Þar er allt mjög þungt í vöfum. Mönnum eru settar mjög strangar reglur. Þetta hefur leitt til þess að menn hafa fundið sér annað baráttuform ef við tölum tæpitungulaust um það. Við höfum séð uppsagnir á stofnunum sem menn beita í stað verkfalla. Þess vegna geta lögin skipt verulegu máli að þessu leyti og að um þau ríki sátt.

En það er annað og meira sem hangir á þessari spýtu. Mig langar til að trúa mönnum fyrir því að ég er t.d. ekki sérstaklega sáttur við leiðaraskrif Morgunblaðsins eða Reykjavíkurbréfin en það er ekki þar sem sagt að ég vilji ekki að Morgunblaðið sé til og skrifi leiðara sína og sín Reykjavíkurbréf. En ég vil hafa mótvægi við Morgunblaðið og leiðaraskrif Morgunblaðsins. Ég er ekkert sáttur við Vinnuveitendasambandið og ályktanir þess eða afstöðu. En ég vil að Vinnueitendasambandið sé til. Ég vil bara að það sé til mótvægi við Vinnuveitendasambandið. Og ég er yfirleitt mjög ósáttur við Verslunarráðið. Ég er varla sammála einu einasta orði sem þaðan kemur. Ég vil að Verslunarráðið sé til. (GMS: Til hvers?) Til hvers? spyr hv. þm. Gunnlaugur Sigmundsson. Vegna þess að ég vil búa í fjölþátta lýðræðisþjóðfélagi, ég vil blandað hagkerfi og ég vil að í fjölþátta lýðræðisþjóðfélagi séu öflug fyrirtæki í markaðshagkerfi. En ég vil einnig að þar sé til öflugt mótvægi þeirra sem standa gagnvart valdinu, eignarvaldinu og fjármagninu. Hvert skyldi þetta mótvægi vera? Það er verkalýðshreyfingin. Það eru samtök launafólksins. Við höfum gefið ákveðnar skuldbindingar um þessi efni og það kom fram í umræðu í dag í máli hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, fyrrv. hæstv. félmrh., að ríkisstjórnin hefði gefið skuldbindingar varðandi þetta jafnvægi um að raska því ekki. Það var vitnað í bréf sem félmrh. sendi framkvæmdastjóra Evrópuráðsins til áréttingar á afstöðu íslenskra stjórnvalda í októbermánuði 1992 og þar segir m.a., með leyfi forseta:

,,Á því er vakin athygli að allgóður friður hafi ríkt um samskiptareglur á íslenskum vinnumarkaði sem ýmist byggjast á settum lögum eða ákvæðum í kjarasamningum. Þar af leiðandi hefur ríkisstjórnin ekki í hyggju að grípa til neinna þeirra aðgerða sem kunna að raska því jafnvægi sem ríkt hefur í samskiptum aðila vinnumarkaðarins undanfarin rúmlega 50 ár.``

Nú er settur niður vinnuhópur til þess að gera tillögur um breytingar á þessum leikreglum á vinnumarkaði. Þar ná menn ekki saman. Að hluta til held ég að það sé rétt sem hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson gat sér um að þarna kynni að valda einhver klaufaskapur, klaufaskapur að hrifsa þetta úr höndum viðræðuaðila eins og gert var í stað þess að láta málið þróast eðlilega.

En ég held að það sé líka annað sem hangir á þessari spýtu og það er sá ásetningur sterkra aðila innan atvinnurekenda um að koma á gerbreyttu skipulagi í þjóðfélaginu sem raskar því jafnvægi sem ríkt hefur á milli annars vegar fjármagns og fyrirtækja og hins vegar launafólksins. Eða hvers vegna skyldi Vinnuveitendasamband Íslands álykta 13. febr. 1996 eftirfarandi, með leyfi forseta:

[22:30]

,,Loks kann að vera tímabært að kveða skýrt á um rétt starfsmanna einstakra fyrirtækja og stjórnenda þeirra til að semja sjálfir um kaup og kjör án milligöngu samtaka atvinnurekenda og launþega. Einkaréttur stéttarfélaga til gerðar kjarasamninga verði þannig takmarkaður.``

(GMS: Sjálfsagt mál.) Sjálfsagt mál, segir hv. þm. Gunnlaugur Sigmundsson sem vill takmarka möguleika launafólks til að heyja réttindabaráttu.

Hvernig skyldi standa á því að í þeim lögum sem við erum að tala um núna er sérstaklega vikið að réttindum fólks til að standa utan stéttarfélaga? Það er talað um hina ófélagsbundnu launamenn. Skyldi það kannski ríma við 47. gr. í frv. um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins þar sem einnig er talað um sama hlut? ,,Nú kýs starfsmaður að standa utan stéttarfélaga og skal hann þá njóta sömu launa og launakjara og samið hefur verið um í kjarasamningum fyrir sambærileg störf. Sé ekki um það að ræða skal fjmrh. ákveða laun og launakjör þeirra starfsmanna sem standa utan stéttarfélaga.``

Fólk geti því staðið í skjóli hæstv. fjmrh. og nýju duttlungastjóranna sem hann er að setja upp í stofnunum ríkisins. Í mínum huga er þetta farið að mynda allt eina heild og þegar maður skoðar ályktanir atvinnurekenda um þetta frv. sem við erum að tala um þá sagði Vinnumálasambandið m.a.í lok febrúar, með leyfi forseta, m.a.:

,,Þótt rétt og sjálfsagt hafi verið að gefa heildarsamtökum á vinnumarkaði kost á að hafa áhrif á breytingar á samskiptareglum er það Alþingi sem ber að setja samfélaginu samskiptareglur og ríkisstjórninni ber að hafa frumkvæðið samkvæmt stjórnarsáttmála.``

Þarna er verið að hvetja ríkisstjórnina til að ganga fram fyrir skjöldu og hið sama gerist í ályktun framkvæmdastjórnar VSÍ. Þar er ríkisstjórnin einnig hvött til dáða. Þar er talað sérstaklega um að nú þurfi að setja reglur sem skapa erlendum fjárfestum rekstraröryggi og þá væntanlega með því að takmarka möguleika launafólksins til að heyja réttindabaráttu og undir lok ályktunarinnar segir, með leyfi forseta:

,,En úr því að verkalýðshreyfingin hafnar samkomulagi um nauðsynlegustu breytingar á þeim lögum sem gilda um samþykki launþega og vinnuveitenda hljóta stjórnvöld ein að axla ábyrgð á því að skapa eðlilegan ramma um þessi mikilvægu samskipti.``

Hér þarf sem sagt að skapa erlendum fjárfestum rekstraröryggi miðað við það sem best gerist á erlendri grundu og það skal gert í þeim anda sem hefur vakið viðbrögð sem við þekkjum öll hjá verkalýðshreyfingunni. Nú þætti mér vænt um að hæstv. félmrh., sem ég sé að er í salnum, gerði okkur grein fyrir því hvað hann átti við með ummælum sínum fyrr í kvöld þegar hann sagði að samþykkja þyrfti lögin í vor til þess að nota mætti þau, það var ekki alveg hans orðalag, en þannig að þau gætu komið að gagni í kjarasamningum í haust. Þá spyr ég: Hvað er það nákvæmlega sem vakir þarna fyrir ríkisstjórninni? Ætlar hún að nota miðstýrða lögþvingun á launafólk á Íslandi í komandi kjarasamningum? Þetta er mjög mikilvæg spurning sem hæstv. félmrh. verður að gera þingheimi grein fyrir.