Stéttarfélög og vinnudeilur

Föstudaginn 22. mars 1996, kl. 22:35:26 (4452)

1996-03-22 22:35:26# 120. lþ. 114.1 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur

[22:35]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. gerði áðan að umtalsefni orð mín. Ég ætla að það fari ekki á milli mála að ég taldi að ádeilan væri fyrst og fremst á form. Ég sagði þó frá þeim efnisatriðum sem ég hefði komist að í viðræðum mínum við ýmsa forustumenn Alþýðusambands Íslands og þarf ekki að fara yfir það frekar. En mér sýnist hv. þm. því miður vera að gera því skóna að öðrum aðilanum á vinnumarkaðinum, þ.e. atvinnurekendum, sé ekki treystandi í málinu. Mér finnst það mjög bágt vegna þess að ef menn trúa því að annar aðilinn sé einskis trausts verður er alls ekki von á góðu.

Ég minni hv. þm. á að yfirleitt er ekki skylduaðild að verkalýðsfélögum á Íslandi. Ég held að Verslunarmannafélag Reykjavíkur sé með það og kannski einhver örfá önnur en staðan í samningunum byggist á forkaupsréttarákvæðinu sem atvinnurekendur hafa gengist undir af fúsum og frjálsum vilja og ég þekki enga menn í forustu atvinnurekenda á Íslandi sem telja að það væri ráð að segja því upp. Ég þekki enga. (Gripið fram í.) Kannski hefur einn og einn maður úti í bæ verið að hrópa þetta en ég hef þó jafnharðan bent á að þetta væri ákaflega heimskulegt og hættulegt tal.

Ég er þess fullviss að það er fullur vilji báðum megin borðsins til þess að vinna heiðarlega.