Stéttarfélög og vinnudeilur

Föstudaginn 22. mars 1996, kl. 22:37:51 (4453)

1996-03-22 22:37:51# 120. lþ. 114.1 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur

[22:37]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Í ræðu minni áðan var ég ekki að gera lítið úr orðum hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar, síður en svo. Ég var hins vegar að leiða rök að því að hinum aðilanum, atvinnurekendum, Vinnuveitendasambandinu og Vinnumálasambandinu og þeim sem síðan ganga erinda þessara aðila, ríkisstjórn Íslands, sé ekki treystandi. Þetta hefur vakið þau viðbrögð í þjóðfélaginu að hér hafa komið forsetar Alþýðusambandsins og formenn nær allra aðildarfélaga Alþýðusambands Íslands auk þess sem mótmæli hafa komið frá öðrum samtökum launafóks, BHMR, Kennarasambandinu, BSRB og fleiri aðilum þar sem þess er krafist að þessi frumvörp verði dregin til baka.

Það sem meira er, ég færði rök fyrir mínu máli. Ég vitnaði í lögin sem við erum að ræða á dagskrá í dag. Ég vitnaði einnig í lögin um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna þar sem vikið er sérstaklega að rétti þeirra sem standa utan stéttarfélaga, að þeir skuli njóta góðs af starfi hinna félagslegu eininga, en geta á forsendum fjmrh. og duttlungastjóranna nýju staðið utan þessarar baráttu og utan félaganna. Ég vitnaði einnig í yfirlýsingu Vinnuveitendasambands Íslands þar sem sérstaklega segir og ég vitna orðrétt í eina setningu:

,,Einkaréttur stéttarfélaga til gerðra kjarasamninga verði þannig takmarkaður.`` Sem sagt, það kunni að vera tímabært. Ég er að reyna að setja þetta allt saman inn í eina stóra heild og ég held að hvert barn sem vill skilja þessa hluti sjái þarna samhengi hlutanna.