Stéttarfélög og vinnudeilur

Föstudaginn 22. mars 1996, kl. 23:29:43 (4461)

1996-03-22 23:29:43# 120. lþ. 114.1 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, TIO (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur

[23:29]

Tómas Ingi Olrich (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil aðeins skerpa skilning minn á orðum hv. 9. þm. Reykn. sem hann hefur endurtekið hvað eftir annað í ræðu sinni og er að efnislega sé frv. sem hér er til umræðu allt sama marki brennt. Það gangi út á það að þrengja að verkalýðshreyfingunni. Hann hefur haft þau orð um þetta frv. að það sé kropp í löggjöfina sem endurspegli sérstakt markmið íhaldsins og taldi að Framsfl. væri genginn fyrir björg í faðm íhaldsins. Þetta er allt saman mjög litskrúðug lýsing og á kjarnyrtu máli þegar tekið er tillit til þess að í málgagni Alþfl. er tekið fram og vitnað þar beint í ummæli Össurar Skarphéðinssonar, ef ég má lesa það, með leyfi hæstv. forseta:

,,Það sem veldur því að Alþfl. getur fyrir sitt leyti ekki samþykkt frv. er ekki efni þess, heldur hvernig það varð til.``

Þetta verður trauðla skilið á annan hátt en þann að hv. þm. Össur Skarphéðinsson sé genginn til liðs við Framsfl. efnislega í afstöðu til frv. og þar með fyrir björgin í faðm íhaldsins. Eða getur hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson staðfest að hann hafi ekki sömu skoðun á þessu máli og hv. þm. Össur Skarphéðinsson?