Framhald á fundum Alþingis

Miðvikudaginn 10. apríl 1996, kl. 13:32:06 (4485)

1996-04-10 13:32:06# 120. lþ. 115.98 fundur 236#B framhald á fundum Alþingis#, Forseti ÓE
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur

[13:32]

Forseti (Ólafur G. Einarsson):

Áður en gengið er til dagskrár býð ég þingmenn velkomna til starfa eftir nokkurt hlé í kringum páskana.

Þegar gengið var frá starfsáætlun þingsins sl. haust var byggt á þeirri hugmynd að gera mætti nokkurt hlé á þingfundum frá því seinni partinn í mars og fram yfir páska til þess að þingmönnum gæfist kostur á því að sinna öðrum þáttum þingmannsstarfsins en þeim sem fram fer í þessu húsi. Það er raunar skoðun mín að það gæti orðið til bóta í þingstörfunum að skipta þeim upp í fleiri lotur með hléum á milli þar sem þingmenn gætu annars vegar sinnt betur kjósendum og kjördæmi og hins vegar einbeitt sér að nefndastörfum. Þannig er þingstörfum háttað víða í nágrannalöndum okkar auk þess sem hið nýja fyrirkomulag þingsins, þ.e. að það situr að formi til allt árið, stuðlar að þess konar breytingum.

Samkvæmt starfsáætlun þingsins er ráðgert að þingstörfum ljúki 15. maí. Þangað til eru 23 þingfundadagar. Forseti mun reyna að stýra störfum þannig að þetta megi takast. Frestur til framlagningar mála þannig að þau verði tekin á dagskrá er liðinn og því ætti nú að liggja ljóst fyrir hvaða verk eru fram undan. Ég heiti á þingmenn alla um góða samvinnu við þingstörfin í þeirri stuttu og væntanlega snörpu lotu sem er fram undan.

Ég hef sent formönnum þingflokka hugmyndir mínar um þingstörf næstu daga en þær byggjast á því að ljúka 1. umr. um mál þannig að þau komist sem fyrst til nefnda. Frekari afgreiðsla þeirra ræðst auðvitað af því hvernig vinna mun ganga í nefndunum. Ég vænti áframhaldandi góðrar samvinnu við formenn þingflokka um skipulag þingstarfanna næstu vikur.