Minning Friðjóns Skarphéðinssonar

Miðvikudaginn 10. apríl 1996, kl. 13:34:25 (4486)

1996-04-10 13:34:25# 120. lþ. 115.1 fundur 235#B minnst látins fyrrverandi alþingismanns#, Forseti ÓE
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur

[13:34]

Forseti (Ólafur G. Einarsson):

Friðjón Skarphéðinsson, fyrrv. yfirborgarfógeti og alþingismaður, andaðist sunnudaginn 31. mars. Hann var tæpra 87 ára að aldri.

Friðjón Skarphéðinsson var fæddur 15. apríl 1909 á Oddsstöðum í Miðdölum í Dalasýslu. Foreldrar hans voru hjónin Skarphéðinn Jónsson bóndi og Kristín Pálmadóttir húsmóðir. Hann lauk stúdentsprófi í Menntaskólanum í Reykjavík vorið 1930 og lögfræðiprófi í Háskóla Íslands 1935. Veturinn 1937--1938 var hann við framhaldsnám í Kaupmannahöfn.

Friðjón Skarphéðinsson var fulltrúi sýslumannsins í Gullbringu- og Kjósarsýslu og bæjarfógetans í Hafnarfirði frá marsmánuði til ársloka 1935. Árið 1936--1937 var hann starfsmaður Olíuverslunar Íslands í Reykjavík. Hann var bæjarstjóri í Hafnarfirði 1938--1945. Sýslumaður í Eyjafjarðarsýslu og bæjarfógeti á Akureyri 1945--1967 og yfirborgarfógeti í Reykjavík 1967--1979. Frá 23. des. 1958 til 20. nóv. 1959 var hann dómsmála-, landbúnaðar- og félagsmálaráðherra í ríkisstjórn Emils Jónssonar og hafði þann tíma leyfi frá sýslumanns- og bæjarfógetastörfum. Hann var þingmaður Akureyringa frá 1956 til vors 1959. Haustið 1959 var hann í kjöri í Norðurl. e. og hlaut sæti landskjörins þingmanns, sat á þingi til 1963 og aftur 1965--1967. Auk þess tók hann varamannssæti á Alþingi um tíma síðla árs 1963. Hann sat á tíu þingum alls, var fyrsti varaforseti efri deildar 1956--1958 og forseti sameinaðs Alþingis 1959--1963.

Friðjón Skarphéðinsson var bæjarfulltrúi á Akureyri 1946--1950 og var þá í bæjarráði. Hann var kosinn í mannréttindanefnd Evrópuráðsins 1957 og sat í henni til 1962. Fulltrúi á þingi Evrópuráðsins var hann 1958--1960 og 1964--1967. Hann var í stjórn Dómarafélags Íslands 1957--1964 og í orðunefnd 1970--1986, formaður hennar 1980--1986.

Friðjón Skarphéðinsson gegndi á langri starfsævi viðamiklum embættisstörfum. Hann var reglumaður í embætti, starfssamur og réttlátur og hélt uppi góðum anda í fjölmennu starfsliði. Hann fylgdi alla tíð Alþýðuflokknum að málum og traust flokksbræðra á honum og vinsældir meðal samborgara urðu til þess að sótt var eftir að fá hann til setu í bæjarstjórn og á Alþingi. Á vettvangi stjórnmála naut hann mannkosta sinna, var vel metinn af samherjum sínum og fylgismönnum annarra stjórnmálaflokka. Í umræðum var hann hógvær og gerði málefnum góð skil án málalenginga. Á Alþingi var hann tíðum í forsetastól og honum lét vel að stjórna fundum. Hann var bókamaður, fékkst nokkuð við ritstörf, einkum um lögfræðirit frá liðnum öldum. Gerði hann það skilmerkilega eins og annað sem hann hugaði að.

Ég vil biðja hv. alþingismenn að minnast Friðjóns Skarphéðinssonar með því að rísa úr sætum. --- [Þingmenn risu úr sætum.]