Fjarskipti

Miðvikudaginn 10. apríl 1996, kl. 13:49:32 (4493)

1996-04-10 13:49:32# 120. lþ. 115.3 fundur 408. mál: #A fjarskipti# (meðferð einkaréttar ríkisins) frv. 99/1996, SJS
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur

[13:49]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Frv. þetta til breytinga á fjarskiptalögum er fylgifiskur með einkavæðingarfrv. hæstv. ráðherra varðandi Póst og síma. Það var þegar lýst eftir því við umræður um það frv. að raunar væri tæpast unnt að fjalla um þessi mál nema þau væru samferða. Það liggur í hlutarins eðli að það skiptir meginmáli með hvaða hætti er gengið frá réttindum og leyfisveitingum varðandi fjarskiptamál þegar rætt er um rekstrarfyrirkomulag stofnunar eins og Pósts og síma og hugsanlegar breytingar á rekstrarformi þar.

Við fljótlega athugun á þessu frv. vakna, herra forseti, fleiri spurningar en fæst svarað. Þar á ég alveg sérstaklega við meðferðina á einkarétti eða einkaleyfabundinni starfsemi á þessu sviði. Eins og hv. alþingismönnum er kunnugt er þannig um hnútana búið í dag að hin opinbera stofnun Póstur og sími hefur öll einkaréttindi ríkisins á þessu sviði og starfar samkvæmt þeim. Með öðrum orðum, þessi réttindi eru hjá ríkinu sjálfu í ríkisstofnun og getur ekki öllu einfaldara verið.

Það sem hér er lagt til í 1. gr. frv. er breyting á 2. gr. fjarskiptalaganna í þá veru að ríkið sem eftir sem áður geti haft tiltekna einkaleyfastarfsemi með höndum, framselji þann einkarétt, ekki endilega til Pósts og síma eða opinberrar stofnunar eða einstaks aðila á þessu sviði heldur óskilgreint til ,,aðila`` eins og það er orðað. Þetta, herra forseti, þarfnast nokkuð nánari skoðunar og umræðu. Ég héld að það sé alveg nauðsynlegt að taka þetta grundvallaratriði málsins til rækilegrar skoðunar áður en þessu frv. og frv. um breytingu á rekstrarformi Pósts og síma verður frekar hraðað hér í gegnum Alþingi.

Þegar litið er nánar á þetta, herra forseti, kemur í ljós að í raun og veru er um galopna framsalsheimild til handa ráðherranum að ræða eins og frá þessu er gengið í 1. gr. frv. Það er að vísu sagt, með leyfi forseta, í greininni:

,,Samgönguráðherra er heimilt að veita aðila rekstrarleyfi til að annast þá fjarskiptaþjónustu sem ríkið hefur einkarétt á skv. 1. málsl. Við útgáfu rekstrarleyfis skulu tilteknar þær skyldur og kvaðir sem rekstrarleyfinu fylgja, sbr. 3. mgr.``

Þetta er gott svo langt sem það nær en síðan er ekki frekar fjallað um málið. Með öðrum orðum er vísað til þess og liggur nú í hlutarins eðli að unnt sé að binda slíkt framsal einhverjum kvöðum þegar einkaréttindin eru afhent en það er ekki útskýrt nánar hverjar þær kvaðir skuli vera. Ekki heldur hverjir þessir aðilar skuli vera eða hvaða skilyrði þeir skuli uppfylla. Það, eins og allt málið, er þá í sjálfsvaldi ráðherrans. Þetta, herra forseti, er að mínu mati algjörlega óforsvaranlegur frágangur á málinu. Það þykir almennt talað ekki til fyrirmyndar að vera með mjög opnar framsalsheimildir í löggjöf til handa framkvæmdarvaldinu. En þegar í hlut á ráðstöfun á jafnþýðingarmiklum þætti og einkaleyfi ríkisins, einkarétti ríkisins til tiltekinnar starfsemi, þá hljóta ærið margar spurningar að vakna ef á að sleppa svona billega frá málinu.

Það er athyglisvert að í athugasemdum við 1. gr. frv. er orðið ,,aðili`` komið í fleirtölu: ,,Á hinn bóginn er ekki gert ráð fyrir að ríkið annist framkvæmd fjarskiptamála sjálft heldur verði öðrum aðilum falið að annast þá fjarskiptaþjónustu sem ríkið hefur einkarétt á.`` Er með þessari fleirtölumynd orðsins verið að gefa sérstaklega til kynna að það standi beinlínis til að ráðstafa þessum réttindum jafnvel strax í upphafi til fleiri aðila en Pósts og síma eða þá Pósts og síma hf.? Er það stefna núv. ríkisstjórnar að hleypa einkaaðilum beinlínis inn í þessa grundvallarþjónustu á sviði fjarskipta?

Einnig vil ég, herra forseti, staldra við það atriði sem fram kemur bæði í frv. sjálfu en þó frekar í umsögn um 1. gr. vegna þess að það felst í ákveðnu brottfalli úr lögunum, samanber a-lið í 1. gr. laganna, að orðin ,,eiga og`` í 1. málsl. 1. mgr. falli brott. Þetta er efnisbreyting að því leyti til að fyrirmælin um að ríkið skuli eiga almenna fjarskiptanetið eru felld brott. Í dag er það beinlínis bundið í lögum að ríkið á umferðaræðarnar í fjarskiptakerfinu, það á fjarskiptanetið sjálft. Þetta er fellt brott og það sem meira er, það er beinlínis látið að því liggja að það sé óæskilegt að ríkið yfir höfuð eigi slíkt. Hér þarf að gera alveg skýran greinarmun á tvennu. Annars vegar því að samkvæmt tilskipunum Evrópusambandsins, sem öllu stýra í þessum efnum eins og öðrum, er eða verður í framtíðinni væntanlega óheimilt að einkaleyfisbinda þennan þátt. En það er ekki þar með sagt að ríkið megi ekki eiga hann þó löggjöfin verði að ganga út frá því að aðrir geti jafnframt haft slíka starfsemi með höndum eða rekið fjarskipti. Það er annar hlutur að gerast svo kaþólskur að það er beinlínis ákveðið að ríkið skuli ekki vera með eða hafa með höndum starfsemi á þessu sviði. Hér held ég að hæstv. samgrh. verði að gera betur en hann gerði í örstuttri framsöguræðu og gera grein fyrir stefnu ríkisstjórnarinnar í þessum efnum og hvað vakir á bak við þessi óljósu orð.

Ég hef miklar efasemdir um að það sé farsælt skref, hvað sem líður rekstrarformi Pósts og síma og hvað sem líður þátttöku einkaaðila að einhverju leyti varðandi starfsemi á þessu sviði, að falla frá því fyrirkomulagi að hið opinbera eigi samgöngukerfið. Fjarskiptanetið er í þessu tilviki nákvæmlega sambærilegt við vegina eða flugvellina. Þetta er umferðarkerfið á þessu sviði. Þetta eru vegirnir í fjarskiptunum. Ég hefði talið mikið farsælla fyrirkomulag að ganga út frá því að ríkið starfrækti vegakerfið áfram en hefði það að sjálfsögðu eftir atvikum eins og stefna manna væri á hverjum tíma opið fyrir aðra til að reka sín viðskipti á. Rétt eins og öllum stendur til boða að keyra eftir vegunum gætu menn farið um þessar umferðaræðar og það mætti binda í lög að jafnræði skyldi þá ríkja með aðilum, þeir væru jafnsettir hvað varðaði aðgang að netinu, gjaldskrár og annað því um líkt, en ríkið eigi þessa undirstöðu fjarskiptanna. Til hvers? Jú, m.a. til þess að tryggja að það komi ekki upp sú staða, sem er alveg borðleggjandi þegar haldið er út á þessa einkavæðingarbraut ef engin skýr skilyrði eru fyrir hendi varðandi skyldur aðila, að til sögunnar komi einkaaðilar sem fari að fleyta rjómann ofan af, fari inn í þá þætti viðskiptanna sem ábatasamastir eru og á þeim svæðum í landinu þar sem ábatasamast er að reka einhverja þjónustu á þessu sviði en skilji hið opinbera eftir með afganginn. (Gripið fram í: Sumir vilja nú lepja undanrennuna.) Það getur vel verið, hv. þm., að framsóknarmenn vilji lepja undanrennuna. Það er þeirra mál en ekki mitt. En ég hef ekki áhuga á að notendur annars staðar í landinu eða notendur fyrir aðra þjónustu þurfi að taka á sig kostnaðinn sem af því leiðir að einhverjum tilteknum aðilum verði hleypt inn í þessa þjónustu til að fleyta þar rjómann ofan af og hirða hann án nokkurra skuldbindinga. Það getur vel verið að hv. frammíkallandi sem gerist órólegur hugsi sér að vera í hinum hópnum, þ.e. rjómaliðinu, og hann í krafti afstöðu sinnar og góðs aðgangs í stjórnkerfinu komist einhvers staðar í einhverjar rjómauppveitur sem hann geti drukkið fyrir lítið. Það er annað mál. Ég er ekki hrifinn af slíkum samyrkjubúskap að sumir fái allan rjómann en aðrir alla undanrennuna. Það er framskóknarbúskapur sem ég hef ekki mikinn áhuga á.

Herra forseti. Í þriðja lagi er með ólíkindum að hæstv. ráðherra, sem ætti að þekkja betur til þessara mála en ætla mætti af frv., skuli ætla sér að ganga frá þessu eins og gert er í 1. mgr. Þar er talað um að tiltaka skyldur og kvaðir sem rekstrarleyfinu fylgja en ekki sagt eitt einasta orð um það hverjar þær kvaðir og skyldur skuli vera. Auðvitað er ekki hægt að hafa þetta svona. Það þarf stundum að hjálpa hæstv. ráðherra að ná þessu niður á blaðið þannig að þetta geti orðið skilmerkileg umræða. Stundum er hæstv. ráðherra pínulítið óskipulegur í svona umræðum.

[14:00]

Önnur spurningin er þessi: Er hæstv. ráðherra tilbúinn til að gera þessa málsgrein ítarlegri og ganga m.a. frá því að slíkar skyldur skuli vera að veita sömu þjónustu á sambærilegum kjörum um allt land? Þ.e. að ef einhver aðili fær annaðhvort einkaleyfabundna þjónustu í sínar hendur eða almennt rétt til fjarskiptareksturs, við skulum segja að setja upp annað GSM-farsímakerfi, þá skuli hann veita þá þjónustu um allt land á sama verði. Menn skuli vera jafnsettir gagnvart slíku. Það sé sú kvöð sem fylgi því sjálfkrafa að fá starfsleyfi þessu sviði. Þetta er úrslitaatriði því að eins og tæknin er orðin á fjölmörgum sviðum fjarskipta með gervihnattatækninni og öðru slíku, þá er í raun og veru mjög auðvelt að byggja upp þjónustu á tilteknum svæðum og starfrækja þar sem auðveldast og ódýrast getur verið að koma henni upp. Og ef menn bera engar skyldur gagnvart annarri þjónustu eða öðrum svæðum, þá liggur í hlutarins eðli að það getur verið mjög auðvelt að komast þannig að málinu og fleyta rjómann ofan af. Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á því að hæstv. samgrh. með sína þekkingu á málefnum t.d. landsbyggðarinnar, sé genginn svo gersamlega í frjálshyggjubjörgin að hann ætli að opna fyrir slíkt hér. Besta tryggingin að mínu mati væri sú að hið opinbera ætti fjarskiptanetið og opnaði síðan fyrir aðgang að því, einkaaðilum ef svo bæri undir með tilteknum skyldum. En þá þarf að ganga frá því í lögunum þannig að enginn misskilningur sé uppi í þeim efnum. Þessi texti gerir það að ekki.

Í fjórða lagi vil ég koma að afnámi einkaréttarins sem á að vera samkvæmt því sem ég man réttast 1. janúar 1998 og spyrja hæstv. ráðherra: Er það hugsun hæstv. ráðherra að opna fyrir einhverjar breytingar í þessum efnum fyrir þann dag eða er hæstv. ráðherra tilbúinn til að lýsa því yfir að heimildir 1. gr. til að framselja öðrum aðilum einkaleyfabundna starfsemi, komi að minnsta kosti ekki til skoðunar fyrr en eftir þennan tíma? Mér finnst það loðið sem um það er sagt í t.d. umsögn um 4. gr. hvað varðar Póst- og símamálastofnunina og réttindi hennar.

Ég endurtek áherslu mína á það að mér finnst óskynsamlegt að ganga frá málinu eins og þarna er gert ráð fyrir, þ.e. að ríkið geti alls ekki verið eigandi að neinum fjarskiptamannvirkjum. Ég tel alveg koma til greina að þó að Póstur og sími yrði ,,háeffaður``, þá gæti ríkið skoðað það sjálfstætt eftir sem áður að vera eigandi að fjarskiptanetinu þó að Póstur og sími hf. annaðist starfrækslu þess og sæi um það. Ríkið gæti eftir sem áður haft eignarhaldið og þar með m.a. tryggt jafnræði og frelsi til viðskipta í þessum efnum. Við Íslendingar erum því miður afar aftarlega á merinni hvað varðar t.d. samkeppnisreglur að þessu leyti á ýmsum sviðum. Ég gæti nefnt sem dæmi bókunarkerfi í ferðaþjónustunni. Við erum eitt fárra landa sem ekki höfum mannað okkur upp í að setja reglur sem tryggja jafnræði í slíkum viðskiptum. Hér er einn aðili sem á og rekur eina umtalsverða bókunarkerfið sem til er í landinu en það eru engin ákvæði um að aðilar skuli vera þar jafnsettir og að öllum tryggður aðgangur að sanngjörnum kjörum þegar slíkt á í hlut. Þetta er molbúaháttur. Það er löngu tímabært að taka á mörgum málum af þessu tagi frá þessari hlið. Og það er óþolandi að búið verði til eitthvert kerfi í fjarskiptunum sem eru úrslitaþáttur í þróun hins nútímalega samfélags. Ekki á það síst við um landsbyggðina og hin afskekktari byggðarlög að þau geti verið fullgildir þátttakendur í fjarskiptabyltingunni. Það ræður gjörsamlega úrslitum um líf eða dauða manna við slíkar aðstæður í framtíðinni að geta verið fullgildir þátttakendur í þróun hins nútímalega, tæknivædda samfélags. Það ræðst að langmestu leyti af því að menn séu fullgildir aðilar og þátttakendur og hafi allan aðgang að fjarskiptanetinu. Þá er ég að sjálfsögðu að tala um fjarskiptin í víðustu merkingu þess orðs.

Í fimmta lagi, herra forseti, um kostnað ríkissjóðs. Það er ein dásamleg umsögn um þann þátt málsins eins og venjulega frá fjárlagaskrifstofunni. Þar er talað um það að þó að Pósti og síma verði breytt í hlutafélag, sem tengist þessu máli og fjarskiptaþjónustan sem ríkið hefur einkarétt á verði framseld til annarra aðila, þá segir hin mæta stofnun: Ekki verður séð að samþykkt frv. hafi í för með sér aukinn kostnað fyrir ríkissjóð. Jahá. Aukinn kostnað fyrir ríkissjóð. Það getur vel verið að á þeirra máli verði ekki úr þessu aukinn kostnaður fyrir ríkissjóð. En hvað með tekjurnar? Hvað með tekjurnar, hæstv. samgrh.? Þurfa menn ekki aðeins að staldra við? Hvaða stofnun er það sem hefur skilað langmestum arðgreiðslum til ríkissjóðs af öllum undanfarin ár þannig að það hefur munað verulega um það á alla mælikvarða í fjárlagafrv.? Það er Póstur og sími. Það er þessi illræmda, óforbetranlega opinbera stofnun sem nauðsynlegt er að breyta. Hún hefur þó ekki staðið sig verr en svo að hún hefur verið að skila einhvers staðar á bilinu 800--1.000 millj. kr. í ríkissjóð á hverju ári núna undanfarin ár í beinar greiðslur, hvort sem menn kalla það arð eða eitthvað annað. Þurfa þeir snillingarnir á fjárlagaskrifstofunni, item hæstv. ráðherra ekki aðeins að hugsa um tekjuhliðina þó að útgjaldahliðin verði kannski í lagi, að það verði ekki beinlínis þörf á að punga út peningum í þessa einkavæðingu? Það er gott og blessað. En hitt er öllu lakara að tekjur ríkissjóðs stórminnka af þessum sökum. Og sú hætta blasir auðvitað við í samhengi við það sem ég hef farið yfir og varðar þessa einkavæðingarsýki sem þarna kemur fram að Póstur og sími sem slíkur verði ekki í stakk búinn til þess að greiða jafnmyndalegan arð til ríkissjóðs plús það sem mestu máli hefur þó skipt, þ.e. að stofnunin hefur í krafti stærðar sinnar og afkomu getað verið á fullu við það undan farin ár að byggja upp eitthvert nútímalegasta og þróaðasta fjarskiptanet í heimi fyrir eitt land eins og Ísland. Fari menn bara hvert sem þeir vilja til þess að reyna að finna aðstæður sambærilegar við Ísland þar sem 260 þús. manns búa í 100 þús. ferkílómetra landi eins og við gerum og búa samt við eitthvert fullkomnasta og ódýrasta fjarskiptakerfi í heiminum. T.d. er það þannig og var rifjað upp þegar hf.-frumvarpið var rætt, að íslenska símkerfið var fyrsta símkerfið í heiminum svo vitað sé sem varð fullkomlega stafrænt. Hvað þýðir það að símkerfið sé fullkomlega stafrænt? Það þýðir að það getur tæknilega þjónað öllum nútímalegum rafeindakerfum sem byggja á stafrænum boðum og gamla hliðræna kerfið gat ekki. Þetta þýðir að allir Íslendingar í hvaða símstöð sem þeir eru geta verið með tónvalssíma og geta verið með stafræn tæki eða tól sem lesa slík boð. Það skiptir ekki litlu máli.

Þess vegna er það, herra forseti, dálítið skrýtið að um þennan þátt sé fjallað með jafnléttvægum hætti og hér er gert. Hvað með þessa tvo undirstöðuþætti, þ.e. peninga og getu til að halda áfram að byggja upp og þróa hér fjarskipti? Hver á að gera það ef fótunum verður kippt undan Pósti og síma? Og hvað með arðgreiðslurnar í ríkissjóð? Hvað með þær? Skipta þessir peningar þá allt í einu engu máli?

Herra forseti. Það er mín niðurstaða eftir að hafa skoðað frv. til laga um breytingu á fjarskiptalögum að það séu enn síður forsendur til þess að afgreiða breytingarnar á Pósti og síma en áður vegna þess að hér er gengið með gjörsamlega ófullnægjandi hætti frá mikilvægustu þáttum þessa máls að mínu mati. Það er ekkert annað að gera en taka bæði þessi frv. og senda þau til föðurhúsanna og gefa sér mikið betri tíma í að skoða þessi mál öll saman og taka þau þá hér til umfjöllunar á næsta þingi.