Fjarskipti

Miðvikudaginn 10. apríl 1996, kl. 14:10:09 (4494)

1996-04-10 14:10:09# 120. lþ. 115.3 fundur 408. mál: #A fjarskipti# (meðferð einkaréttar ríkisins) frv. 99/1996, samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur

[14:10]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hafði í athyglisverðri ræðu sérstakt orð á því að ég væri óskipulagður í þessum málum (SJS: Stundum.) og er ég honum þakklátur fyrir það, vegna þessarar skoðunar hans, að hann skyldi hafa endurtekið helstu efnisatriði ræðunnar þrásinnis og vona ég að ég hafi nokkurn veginn gripið það þess vegna við endurtekninguna hvað hann var að fara.

Ég vil í fyrsta lagi leiðrétta það hjá hv. þm. að eitthvað hafi komið fram í hans ræðu sem ekki hafi komið fram áður. Þessi atriði öll sem hann rakti voru þrautrædd við 1. umr. um frv. um Póst og síma hf., öll þrautrædd og er hægt að víkja að nokkrum efnisatriðum eftir því sem tími vinnst til.

Í fyrsta lagi er skýrt kveðið á um það í 1. gr. frv. um Póst og síma hf. að Póstur og sími hf. skuli taka við öllum réttindum og skyldum Póst- og símamálastofnunar. Og það var sérstaklega tekið fram þar að auki og tíundað af mér að Póstur og sími hf. mundi vera sá rekstraraðili sem færi með einkarétt Póst- og símamálastofnunar eða einkarétt ríkisins. Það er auðvitað út í hött hjá hv. þm. að halda því fram að ríkið muni ekki áfram eiga fjarskiptanetið. Þvert á móti er kveðið á um það í 1. gr. frv. um Póst og síma hf. að ríkið skuli eiga Póst og síma hf. 100%, það skuli gefið út eitt hlutabréf, það skuli vera í eigu ríkisins og þar af leiðandi óheimilt að selja það nema samþykki Alþingis komi til og er hið sama að segja um undirhlutafélög sem stofuð yrðu, dótturhlutafélög. Þau skulu líka vera í eigu ríkisins eins og kemur fram í 2. gr. þannig að þessi fullyrðing hv. þm. er út í hött.