Fjarskipti

Miðvikudaginn 10. apríl 1996, kl. 14:12:30 (4495)

1996-04-10 14:12:30# 120. lþ. 115.3 fundur 408. mál: #A fjarskipti# (meðferð einkaréttar ríkisins) frv. 99/1996, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur

[14:12]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég biðst afsökunar ef hæstv. ráðherra hefur tekið orð mín um óskipulegheitin illa upp. Það var alls ekki ætlunin. Ég var fyrst og fremst að vísa til þess að til að auðvelda hæstv. ráðherra störfin, þá tölusetti ég spurningarnar, líka í eigin þágu þannig að ég fengi frekar skilmerkileg svör í réttri röð. Það er hvort sem er í tísku og hefur lengi verið að tala um hlutina í fyrsta lagi, öðru lagi og þriðja lagi og þarf ekki að hafa frekari orð um það. Það hefur orðið ákveðið einkennistákn ónefndra stjórnmálamanna hér að tala um hlutina þannig.

Það er ekki rétt hjá hæstv. ráðherra að þeir undirstöðuþættir sem varða skipulag fjarskiptamálanna sérstaklega hafi verið til umræðu með þeim hætti sem ég gerði að umtalsefni hér þegar hf.-frumvarpið um Póst og síma kom á dagskrá á dögunum. Þá lágu þessir hlutir ekki þannig fyrir að hægt væri að ræða um þá eins og nauðsynlegt er. Og það eru engin svör að vísa til þess að í byrjun sé ætlunin að Póstur og sími hf. yfirtaki réttindi og skyldur þær sem nú eru hjá Pósti og síma vegna þess að ef menn samtímis breyta fjarskiptalögunum þannig að í kjölfarið verði hægt að framselja einstaka hluti til annarra aðila, þá verður a.m.k. að liggja fyrir í fyrsta lagi hvort menn vilja það og í öðru lagi hver sé þá stefna framkvæmdarvaldsins sem fer með þetta mál. Mun hæstv. ráðherra í framhaldinu beita ákvæðum fjarskiptalaganna ef svo verður sem hér er lagt til, til að lima sundur Póst og síma hf., afhenda einstökum aðilum ákveðna þætti o.s.frv? Það er það sem er verið að spyrja um hér, ekki hinn lögformlega frágang málsins eins og hann liggur fyrir samkvæmt frv. því að reynslan hefur líka sýnt að það er afar lítið að marka slíkt og mætti taka t.d. svikin loforð ráðherra í núverandi ríkisstjórn varðandi einkavæðingu Lyfjaverslunar ríkisins og fleiri slíka hluti til marks um það að orðin hafi ekki staðið lengi þegar þetta á í hlut.