Fjarskipti

Miðvikudaginn 10. apríl 1996, kl. 14:31:39 (4499)

1996-04-10 14:31:39# 120. lþ. 115.3 fundur 408. mál: #A fjarskipti# (meðferð einkaréttar ríkisins) frv. 99/1996, samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur

[14:31]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Ég vona að mér fyrirgefist þó mér hafi dottið í hug að sameining vinstri flokkanna sé komin lengra á veg en maður ætlaði ef marka má ummæli þeirra tveggja þingmanna hinna svokölluðu A-flokka. (Gripið fram í: Þú er ekki boðinn í það kaffiboð, er það?) Annars vegar sagði hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon að menn hefðu löngum lætt inn lagaákvæðum og síðan rokið til og selt fyrirtæki. Hinn talaði um að lauma einkavæðingunni inn bakdyramegin. Það er sami hugsunarhátturinn hjá báðum. Báðir þessir þingmenn, bæði þingmaður Alþfl. og þingmaður Alþb., lýstu því yfir að þeir væru á þessari stundu á móti því að breyta Póst- og símamálastofnun í hlutafélag.

Það er sérstaklega athyglisvert að sú stefna skuli koma fram frá fulltrúa Alþfl. og einnig að hann skuli tala um að undirbúningsvinnan við samningu frv. um Póst- og símamálastofnun skuli hafa verið --- hvað á ég að segja --- handahófskennd og ekki nægilega grunduð. Ég vissi ekki betur en að ráðuneytið hefði sérstaklega gert ráðstafanir til að bæði fulltrúar starfsmanna Pósts og síma og þeir þingmenn sem sæti eiga í samgn. fengju tækifæri til að kynna sér starfsemi sambærilegra fyrirtækja í Noregi og Danmörku, starfsmennirnir einnig í Svíþjóð, og þeir hefðu kynnt sér þar hvaða rök eru á bak við þá nauðsyn að breyta opinberri stofnun í hlutafélag svo hún geti staðist þá samkeppni sem nú er á fjarskiptasviði. Sú samkeppni fer yfir öll landamæri. Nú er svo komið, eins og ég rakti í framsöguræðu minni fyrir frv. til laga um stofnun hlutafélags um rekstur Pósts- og símamálastofnunar, að Norðurlöndin eru farin að keppa innbyrðis á fyrrum markaðssvæði hvers annars. Danir í Svíþjóð og Svíar í Danmörku. Norðmenn í Svíþjóð og Svíar í Noregi. Þannig að við höfum ekki lengur hin gömlu landamæri. Það er ekki lengur sú gamla kratavernd til staðar þegar við erum að tala um opinberar stofnanir af þessu tagi.

Raunar er ekki nýtt að ýmsir af þingmönnum Alþfl. reyni að halda í gömlu einkavæðingarhugmyndirnar. Þótt aðrir þingmenn Alþfl. séu á öðrum nótum og vilji feta þar sömu götur og við sjálfstæðismenn þá eru eftir sem áður ýmsir innan Alþfl. á sínum gömlu slóðum og vilja ganga sínar gömlu junkaragötur svo töluð sé vestur-skaftfellska.

Hv. þm. spurði hvort ríkið mætti eiga grunnnetið og selja aðgang að grunnnetinu eftir 1. jan. 1998. Auðvitað hlýtur einhver að eiga grunnnetið. Með því að gert er ráð fyrir að grunnnetið falli til og verði eign Pósts og síma hf. og Póstur og sími hf. verði í eigu ríkisins þá mun ríkið eiga grunnnetið eftir 1. jan. 1998 nema Alþingi samþykki annað. En auðvitað getum við ekki, hvorki ég né hv. þm., skuldbundið Alþingi fram í tímann. En eins og þetta frv. liggur fyrir er gert ráð fyrir að ríkið eigi grunnnetið. Auðvitað mun Póstur og sími hf. og þar með ríkið taka peningagreiðslur fyrir afnot af grunnnetinu. Út á það ganga viðskipti. Þetta er eðlilegur viðskiptaháttur. Það er svo í dag og verður áfram þótt Póst- og símamálastofnun verði breytt í hlutafélag og einkarétturinn verði afnuminn.

Hv. þm. spurði hver væri réttur starfsmanna Pósts og síma hf. Það er nákvæmlega rakið hér í 8. gr. frv. um stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar. Hann spurði síðan hver væri réttur starfsmanna í dótturfyrirtæki Pósts og síma hf. og í dótturdótturfyrirtæki Pósts og síma hf. Menn geta náttúrlega farið lengra aftur í ættartölu ef þeim sýnist. En ég hygg að yfirleitt sé það þannig að réttarstaða starfsmanna hlutafélaga sé svipuð og raunar hin sama að öðru jöfnu hvert sem hlutafélagið er. Um þessi hlutafélög gildir þó sem er mikilsvert að fastráðnir starfsmenn Póst- og símamálastofnunar taka með sér þann rétt sem þeir höfðu áður unnið sér fyrir formbreytinguna til hins nýja félags.

Ég hygg að það sé líka mikilvægt að gera sér grein fyrir því að í 2. mgr. 2. gr. frv. er gert ráð fyrir að Pósti og síma hf. sé heimilt að stofna nýtt félag eða félög sem alfarið verði í eigu þess til að annast ákveðna þætti starfsemi þess. Þetta felur auðvitað ekki í sér heimild til að selja síðan slík félög. Þetta felur það í sér að fyrirtækinu er t.d. heimilt að reka póstinn í sérstöku hlutafélagi og fjarskiptaþjónustuna í öðru og má kannski hugsa sér að Póstur og sími hf. verði eignarhaldsfyrirtæki þegar svo er komið. Um þetta eru á þessari stundu engar áætlanir. Það er mjög flókið verk að undirbúa breytinguna 1. jan. 1998 og alls ekki á borði samgrn. að ganga lengra fyrir þann tíma. Vangaveltur um það hvort um aldamótin eða á næstu öld verði gengið í að aðskilja rekstur pósts og fjarskipta í tvö hlutafélög eru auðvitað fróðlegar, en á þessari stundu hafa þær ekki efnislega þýðingu. Hitt er ljóst að samkvæmt 1. mgr. 2. gr. er Pósti og síma hf. heimilt að eignast hlut í öðrum fyrirtækjum um margvíslegan rekstur sem tengist starfsemi þeirra. Þar getur verið um að ræða þróunarstarf og þar getur t.d. verið um að ræða sameign um streng eins og lagður hefur verið frá Kanada um Ísland til Evrópu og þar fram eftir götunum.

Ég held að það þjóni ekki tilgangi að reyna að snúa út úr þessum frumvarpsákvæðum. Ef það er rétt sem hv. þm. segir, og ég dreg það auðvitað ekki í efa fyrst hann segir það hér, að lögfræðingar séu ekki á eitt sáttir um það hvernig skilja beri 2. gr. frv. hlýtur nefndin að taka slíkar lögfræðilegar greinargerðir og álitsgerðir sem henni berast til athugunar. Auðvitað hefur stjórnarandstaðan öll tök á því að sýna fram á ef svo er að lögfræðingar hafi ekki sama skilning á þessum ákvæðum. Ég hygg að einfalt sé að kveða nánar á um það í nál. við 2. umr. og enginn misskilningur eigi að þurfa að koma upp af þessum sökum. Skilningur minn liggur fyrir og er auðvelt að benda á hann. Ef ég man rétt er kveðið skýrt á um þetta í greinargerð með frv. Ég hygg að ástæðulaust sé að hafa um þetta fleiri orð.

Ég vona að það sé misskilningur að hv. þm. telji ástæðu til að gera þá vinnu sem þegar hefur farið fram bæði í nefndinni og raunar á fyrri stigum málsins að engu vegna þess að það frv. sem hér um ræðir er nokkru seinna á ferðinni en upphaflega stóð til. Ástæðan er sú að nú er verið að vinna að því í samgrn. að endurskoða lög um fjarskipti í heild, en ég lagði áherslu á að frv. yrði einskorðað við óhjákvæmilegar breytingar vegna formbreytingarinnar þannig að í þessu frv. á þskj. 722 væri ekkert það ákvæði sem ekki beint tengdist þeirri formbreytingu sem gerð verður á Póst- og símamálastofnun. Slík vinnubrögð hljóta að auðvelda samgn. athugun málsins og vinnu við frv. í nefndinni. Ég held þess vegna að það sé engin ástæða til að vinnan þurfi að dragast eða tefjast. Þessi atriði liggja ljós fyrir og ráðuneytið og þeir sem koma að samningu þessara mála eru reiðubúnir til að láta einstökum nefndarmönnum í té allar upplýsingar utan nefndarfunda ef óskað er. Auðvitað mun ráðuneytið, Póst- og símamálastofnun og aðrir sem að verkinu hafa komið vera reiðubúnir til að mæta á fundum nefndarinnar ef óskað er. Þannig að upplýsingar á ekki að skorta. Við erum allir af vilja gerðir til að greiða fyrir málinu eins og okkar þekking og geta stendur til.