Iðnaðarlög

Miðvikudaginn 10. apríl 1996, kl. 15:05:07 (4506)

1996-04-10 15:05:07# 120. lþ. 115.4 fundur 405. mál: #A iðnaðarlög# (EES-reglur) frv., iðnrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur

[15:05]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á iðnaðarlögum, nr. 42 frá 18. maí 1978, með síðari breytingum. Frv. er á þskj. 711 og er 405. mál þingsins.

Ástæðan fyrir því að frv. um þetta efni var nýlega samið í iðnrn. og síðan breytt eftir samráði við ýmis samtök í iðnaði er sú að ákvæði fimm gerða, sem voru hluti af EES-samningnum í upphaflegri mynd, hafa ekki enn verið tekin til fulls í landsrétt hér og barst ábending frá Eftirlitsstofnun EFTA þar að lútandi.

Að meginstefnu til veita gerðir þessar ríkisborgurum EES-ríkja rétt til starfa í iðnaði í öðrum aðildarríkjum á grundvelli starfs og starfsþjálfunar nánar tiltekinn tíma, 6--8 ár. Með frv. er stefnt að nauðsynlegri breytingu á iðnaðarlögum til að tryggja þennan rétt. Lögreglustjórar skulu staðfesta réttmæti gagna um starf og starfsþjálfun eftir að viðkomandi iðnaðarmannafélagi hefur verið gefinn kostur á að segja álit sitt og lögreglustjórar hafa eftirlit með framkvæmd ákvæðanna.

Iðnrn. getur kveðið nánar á um starfsréttindi í reglugerð með svipuðum hætti og aðrir ráðherrar hér á landi gerðu í lögum á þeirra sviði þegar breyting var gerð árið 1993 á grundvelli svipaðra EES-gerða.

Við þessa stuttu lýsingu á efni frv. bæti ég við að tvær iðnaðargerðanna fimm fjalla um flestar iðngreinar. Aðrar tvær um matvæla- og drykkjarvöruiðnað og ein um háriðnað. Í öllum tilvikum gildir að starf og eftir atvikum þjálfun um 6--8 ára skeið í einu EES-ríki nægir til starfsréttinda í öðru EES-ríki. Í gerðunum felst ekki einungis að ríkisborgarar annarra EES-ríkja með starfsréttindi þar geta starfað hér á landi heldur einnig Íslendingar sem öðlast hafa sams konar starfsréttindi í öðrum EES-ríkjum. Jafnframt geta ákvæði gerðanna auðveldað íslenskum ríkisborgurum að starfa í iðnaði í öðrum EES-ríkjum á grundvelli starfsréttinda sem þeir hafa öðlast samkvæmt gerðum hér á landi eða í öðrum EES-ríkjum. Meginreglan með gerðunum er með öðrum orðum gagnkvæm viðurkenning á tilteknum starfsréttindum. Einstök ríki geta hins vegar gert strangari kröfur fyrir þá borgara sína sem öðlast starfsréttindi í iðnaði heima fyrir, t.d. krafist sveinsbréfs eða meistarabréfs. Halda ákvæði iðnaðarlaga um íslensk sveinsbréf og meistarabréf gildi sínu. Þær breytingar verða þó samkvæmt frv. að ríkisborgarar EES-ríkja geta öðlast rétt til starfa í iðngreinum á grundvelli starfsreynslu og starfsþjálfunar en þeir gætu ekki titlað sig sem íslenska sveina eða meistara og jafnvel ekki sveina eða meistara þar sem það gæti talist villandi.

Sérstök skilyrði eru sett í gerðunum um starfsréttindi. Þannig þarf ríkið þar sem starfsemi var stunduð að gefa út skilríki eða staðfesti að viðkomandi aðili hafi lagt stund á starfsemina. Ef ekki er skilyrði um starfsþjálfun í upphaflega ríkinu verður sá aðili sem vill fá starfstímann metinn í öðru EES-ríki að sýna fram á að ekki hafi meira en 10 ár liðið frá því að hann lagði stund á viðkomandi starfsemi. Gert er ráð fyrir að lögreglustjórar staðfesti starfsréttindi en þeir gegna nú því hlutverki samkvæmt iðnaðarlögum, þ.e. láta af hendi iðnaðarleyfi og meistarabréf. Bætt er við að viðkomandi iðnaðarmannafélagi skuli gefinn kostur á að segja álit sitt. Fjárlagaskrifstofa fjmrn. fær ekki séð að samþykkt frv. hafi í för með sér aukinn kostnað fyrir ríkissjóð.

Þar sem dregist hefur að taka viðkomandi gerð upp í íslenskan rétt óska ég þess að frv. verði að lokinni umræðunni vísað til iðnn. og það verði afgreitt á þessu þingi.