Iðnaðarlög

Miðvikudaginn 10. apríl 1996, kl. 15:17:25 (4510)

1996-04-10 15:17:25# 120. lþ. 115.4 fundur 405. mál: #A iðnaðarlög# (EES-reglur) frv., SvG
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur

[15:17]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég á sæti í hv. iðnn. og á þar af leiðandi kost á því að fara aðeins yfir þau mál sem hér hefur borið á góma, m.a. þær spurningar sem fram komu hjá hv. 4. þm. Vestf. Þær tel ég að séu gildar og mikilvægar og hafi ekki verið svarað og þar af leiðandi sé óhjákvæmilegt að hv. þingnefnd fari rækilega yfir spurningarnar sem hv. þm. lagði fyrir hæstv. ráðherra en ráðherrann svaraði ekki.

Ég vil einnig vekja athygli á því, hæstv. forseti, að hér er um að ræða eitt mál af mjög mörgum á þessu þingi sem eiga ekki uppruna sinn í frumkvæði á Íslandi. Það væri satt að segja nokkuð fróðlegt að gera smá úttekt á því við tækifæri um það leyti sem þessu þingi lýkur, hversu stór hluti af frumvörpum sem hér er fluttur af ríkisstjórninni er Brusselpóstur. (SighB: Upphefð vor kemur að utan eins og þú veist.) Það er spurning, hv. þm., hversu mikil upphefð er fólgin í þessari speki sumri. En veruleikinn er að minnsta kosti sá að upphaf þessara mála kemur að utan, hvað sem upphefðinni líður. Það á einnig við um þetta mál og það er mjög merkilegt að hér er verið að löggilda á Íslandi ákvæði fimm gerða sem voru hluti af EES-samningnum í upphaflegri mynd en voru ekki að mati Eftirlitsstofnunar EFTA tekin upp í landsrétt hér á landi. Þegar við snerumst gegn aðild Íslands að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, hver voru þá aðalrökin í okkar huga og í okkar málflutningi, m.a. mínum og hæstv. núv. félmrh.? Hver voru aðalrökin? Þau voru þau að frumkvæði til löggjafar yrði ekki lengur eingöngu í höndum Íslendinga heldur í höndum annarra, m.a. aðila sem við höfðum aldrei haft neitt með að gera. Íslendingar væru því í þeirri niðurlægjandi stöðu að þurfa að taka við niðurstöðum eins og þeim sem liggja fyrir í þessu frv. á færibandi frá Brussel og við yrðum að gera þær lögum á Íslandi hvort sem mönnum líkaði betur eða verr. Og ekki nóg með það að hér væri um að ræða gerðirnar frá Brussel, heldur er líka um það að ræða að ef Evrópudómstóllinn kemst að tiltekinni niðurstöðu, þá verður að gera þá niðurstöðu að lögum á Íslandi og Íslendingar eiga eins og kunnugt er enga aðild að Evrópudómstólnum. Ég hef orðað þetta stundum þannig að staða Íslendinga í þessu EES-kerfi er þar af leiðandi ótrúlega niðurlægjandi vegna þess að í fyrsta lagi verða menn að taka við pólitískum niðurstöðum og í öðru lagi verða menn að taka við dómstólaniðurstöðum og breyta þeim í lög á Íslandi hvort sem þeim líkar betur eða verr. Það er athyglisvert þegar kemur að málum eins og t.d. þessu frv. Hér er um að ræða fimm gerðir sem hefði átt að taka upp í landsrétt hér á landi við gildistöku EES-samningsins 1. janúar 1994. Það var ekki gert en er verið að taka upp núna.

Hér er um að ræða fimm tilskipanir ráðsins eins og það heitir. Það er þannig kerfi sem komið er upp, það er úr rússnesku, sovét, ráð. (Iðnrh.: Kannast þingmaðurinn við það?) Þingmaðurinn kann það litla fyrir sér í rússnesku já. Þetta er ráð. Fimm tilskipanir sovétanna eru gerðar að lögum hér á einu bretti, hæstv. forseti, og þar með er staðan orðin sú að við erum dæmd til að taka þetta inn vegna þess að annars erum við að segja okkur frá samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Þetta er algerlega óþolandi staða fyrir Ísland og satt að segja er það óskandi að þær pólitísku umræður sem fram fara á Íslandi núna á næstu vikum og mánuðum, m.a. í tengslum við forsetakosningar, snúist um það að hve miklu leyti Íslendingar eru sjálfstæð þjóð þegar menn verða að taka við trakteringum af þessu tagi án þess að gera hrært legg né lið. Það er fullkomlega niðurlægjandi, að mínu mati, hæstv. forseti.

Ég ætlaði að spyrja hæstv. ráðherra, en hann mun vera farinn að sinna störfum utanrrh.: Hvernig stendur á því að þessar gerðir ráðanna voru ekki teknar inn strax frá 1. janúar 1994? Gleymdist það í öllum pappírshaugunum sem komu frá utanríkisráðuneyti Alþfl. sem lagði fram 40--50 kg af pappír sem menn tóku og lögfestu eins og að drekka vatn með einföldum handauppréttingum á sínum tíma? Hvernig stóð á því að þetta var ekki tekið inn? Ég vil fá að vita það.

Í annan stað hafði ég hugsað mér að leggja spurningu fyrir hæstv. ráðherra og mun láta reyna á það í hv. nefnd varðandi það sem stendur hér, með leyfi forseta:

,,Þá kann að reynast visst hald í jafnréttisákvæði EES-samningsins o.fl. sem hefur verið lögfest með lögum nr. 2/1993, um Evrópska efnahagssvæðið.``

Ég ætlaði að spyrja hæstv. ráðherra að því hvert þetta vissa hald er sem þarna er nefnt að því er varðar réttindi og stöðu íslenskra iðnaðarmanna.

Loks kem ég að því atriði sem er alvarlegast í þessu máli fyrir íslenska iðnaðarmenn. Það snýr að skipasmíðum og skipaviðgerðum. Það er þannig að í þessu skjali er miðað við iðngreinaskiptingu samkvæmt alþjóðlegum staðli og hún er skyld skiptingu iðngreina hér á landi, þar sem flestar íslenskar iðngreinar falla undir þessa skiptingu samkvæmt tilskipun Evrópusambandsins nr. 64/429. Undanþegnar þessu eru þó tvær mjög mikilvægar atvinnugreinar sem eru teknar út úr þessum lögum, þ.e. skipasmíðar og skipaviðgerðir annars vegar og lyfjaiðnaður hins vegar. Þá hef ég hugsað mér að leggja þá spurningu fyrir hæstv. ráðherra og þá sem í fyrirsvari verða í hv. iðnn.: Geta menn stundað skipasmíðar og skipaviðgerðir á Íslandi án þess að hafa iðnaðarréttindi, sveinsréttindi eða meistararéttindi frá löndum hins Evrópska efnahagssvæðis? Er það þannig að það er verið að afnema þessi réttindi að því er varðar skipasmíðar og skipaviðgerðir og framleiðslu lyfja?

Það er mjög merkilegt satt að segja, hæstv. forseti, ef stjfrv. er lagt fyrir um mál af þessu tagi sem gengur út á það að réttur heillar starfsgreinar, þ.e. skipasmiða á Íslandi, yrði þurrkaður út ef þetta yrði að lögum nákvæmlega eins og verið er að gera hér. Menn standa því frammi fyrir því að þurfa að gera athugasemd og fyrirvara við þetta ákvæði því annars er verið að þurrka út þá sérstöku stöðu sem sveinar og meistarar í skipasmíðum og skipaviðgerðum hafa hér á landi eins og í öðrum iðngreinum. Það er verið að taka þennan hóp út úr og gera hann og stöðu hans mikið veikari gagnvart öðrum samkeppnisaðilum erlendis frá en um er að ræða í öðrum iðngreinum.

Þetta vildi ég láta koma fram, hæstv. forseti, og segja að lokum: Þetta er enn eitt færibandið sem verið er að setja inn. Ég geri ráð fyrir því að þeir sem báru ábyrgð á þessum ósköpum á sínum tíma séu ánægðir með þetta. En það er umhugsunarvert fyrir þjóðina hvar þinginu er komið þegar annað hvert frv. sem hér er til umræðu á uppruna sinn í Brussel en ekki á Íslandi.