Iðnaðarlög

Miðvikudaginn 10. apríl 1996, kl. 15:27:01 (4511)

1996-04-10 15:27:01# 120. lþ. 115.4 fundur 405. mál: #A iðnaðarlög# (EES-reglur) frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur

[15:27]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Svavar Gestsson segir að það sé umhugsunarefni að annað hvert frv. sem hingað kemur eigi uppruna sinn í Brussel. Hvað á hv. þm. við með því? Mér fannst hann ekki hugsa sína hugsun til enda sem er þó ekki vandi hans. Þá hefði hann komist að því að staðreyndin er auðvitað að hæstv. ríkisstjórn er svo ónýt að hún kemur ekki fram þeim frv. sem hún vill að þingið fjalli um.

Að öðru leyti vil ég segja það, herra forseti, að hv. þm. Svavar Gestsson er einna málsnjallastur þingmanna og gaman að hlýða á hann. En stundum verður ákveðið afturhvarf til fortíðar hjá hv. þm. og mér fannst skyndilega að í þeirri gleði sem einkenndi fyrri part ræðu hans gætti nokkurrar fortíðarbeiskju þegar hann fór að tala um samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Hann talaði um þá menn sem bæru ábyrgð á því og átti væntanlega við okkur félaga hans, jafnaðarmenn í Alþfl. En er það virkilega svo að hv. þm. Svavar Gestsson sem hefur skrifa heila bók til þess að staðsetja sjálfan sig upp á nýtt í hinu pólitíska íslenska landslagi sé enn við það heygarðshorn að samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið hafi verið rangur? Ég trúi því einfaldlega ekki, herra forseti, og vildi gjarnan fá afstöðu hans til þess.

Í annan stað vildi ég með tilliti til þess að sá sem hér stendur á eftir að gera upp hug sinn varðandi þá frambjóðendur sem nú eru í kjöri til forseta Íslands, fá frekari vitneskju um það hvað þetta fyrrum átrúnaðargoð mitt átti við þegar hann sagði að það væri nauðsynlegt á næstu dögum með tilliti til þess að forsetakosningar eru fram undan að það kæmi í ljós, væntanlega þá hjá frambjóðendunum, hvernig yrði tekið á tilskipununum sem koma frá Evrópusambandinu. Á hv. þm. við það að hann ætli að setja frambjóðendur til forsetakjörs í einhvers konar krossapróf um það hvernig þeir munu bregðast við gagnvart þeim lögum sem þetta þing samþykkir?