Iðnaðarlög

Miðvikudaginn 10. apríl 1996, kl. 15:29:19 (4513)

1996-04-10 15:29:19# 120. lþ. 115.4 fundur 405. mál: #A iðnaðarlög# (EES-reglur) frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur

[15:29]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Mér þykir sem nú sé kominn andbyr í segl hv. þm. Svavars Gestssonar. Ég hafði horft fram á þá tíð að við gætum starfað saman í anda þeirrar nútímalegu jafnaðarstefnu sem hann sjálfur í orði kveðnu segist vera að reyna að undirbúa. Nú er það ljóst að hv. þm. getur skrifað framhald af sinni ágætu bók, Sjónarrönd. En hún fjallar ekki um leiðina fram á við heldur leiðina til baka vegna þess að hv. þm. virðist boða það að hann sé að gera upp hug sinn aftur gagnvart Evrópska efnahagssvæðinu. Ég skildi nefnilega málflutning hv. þm. á undanförnum missirum þannig að hann hefði í þessu efni séð að það var fengur að því fyrir íslenska þjóð að við urðum aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu. Mér sýnist að hann sé að hugsa það upp á nýtt og hann sé e.t.v. að boða það að niðurstaða hans sé að verða sú að það hafi verið rangt að gerast aðili að Evrópska efnahagssvæðinu.

En er ekki hv. þm., þegar hann skoðar þessi mál hlutlaust, sammála mér um að með aðild okkar að því hafi skapast nýir sóknarmöguleikar fyrir fjölda íslenskra fyrirtækja? Og er ekki hv. þm. það vel að sér að hann veit að út um allan sjávarútveginn eru menn í óðaönn að undirbúa aukna verðmætasköpun vegna þeirra sóknarfæra sem urðu til með aðild okkar að Evrópska efnahagssvæðinu? Nú veit ég að hv. þm. hefur stórt hjarta og hann á auðvitað að unna Alþfl. sem hann á. Alþfl. átti frumkvæði að þessum samningi og er stoltur að því.

Hv. þm. Svavar Gestsson á að gera eins og Framsfl. sem hefur séð sig um hönd, sem hefur séð það að afstaða þeirra á síðasta kjörtímabili var röng. Hv. þm. Svavar Gestsson á að vera maður til að segja það líka. Ég veit að hann hefur pólitískan kjark til þess. En það er spurning um þrekið.