Reynslusveitarfélög

Miðvikudaginn 10. apríl 1996, kl. 15:34:36 (4515)

1996-04-10 15:34:36# 120. lþ. 115.6 fundur 390. mál: #A reynslusveitarfélög# (félagslegar íbúðir, atvinnuleysistryggingar) frv. 78/1996, félmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur

[15:34]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyting á lögum um reynslusveitarfélög. Þetta er á þskj. 685. Breytingin er við lög nr. 82/1994. Þessi lög voru samþykkt vorið 1994. Skv. 1. gr. laganna er markmið þeirra að afla reynslu sem nýta má við undirbúning breytinga á löggjöf um stjórnsýslu sveitarfélaga, framkvæmd verkefna sveitarfélaga, verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og tekjustofna sveitarfélaga.

Samkvæmt lögunum skal með tilraununum að því stefnt að því að auka sjálfsstjórn sveitarfélaga, laga stjórnsýslu sveitarfélaga betur að staðbundnum aðstæðum, bæta þjónustu við íbúana og nýta betur fjármagn hins opinbera.

Tilraunirnar mega ekki hafa í för með sér skerðingu á réttindum íbúanna né fela í sér auknar fjárhagslegar byrðar fyrir þá. Tilraunatímabilið á að vera til aldamóta.

Verkefnið um reynslusveitarfélög byggist á því að óskir um tilraunir komi frá sveitarfélögunum sjálfum þar sem fyrir hendi er þekking á viðfangsefnunum og staðbundnum aðstæðum. Gert er ráð fyrir að verkefnið sé samstarfsverkefni reynslusveitarfélaga og ráðuneyta en frumkvæðið komi frá sveitarfélögunum sjálfum.

Ekki var unnt að hefja markvisst undirbúningsstarf með sveitarfélögunum fyrr en val á þeim lá fyrir. Val á sveitarfélögum fór ekki fram fyrr en eftir að lögin tóku gildi. Sumarið 1994 valdi þáv. félmrh. á grundvelli umsókna 12 sveitarfélög til að vera reynslusveitarfélög.

Við gerð frumvarps til laganna um reynslusveitarfélög lágu því ekki fyrir mótaðar tillögur um tilraunir. Lögin endurspegla það og var sérstaklega tekið fram í athugasemdum við frv. að mjög líklega þyrfti að leggja fram frv. til breytinga á lögunum þegar hugmyndir sveitarfélaga um tilraunastarfsemi lægju fyrir. Þetta hefur og komið á daginn.

Með þessu frv. er sótt um heimildir til þess að víkja frá nánar tilteknum efnisákvæðum laga um Húsnæðisstofnun ríkisins og um atvinnuleysistryggingar. Samkvæmt 10. og 12. gr. laga um reynslusveitarfélög er heimilt að víkja frá þessum lögum en óskir sveitarfélaga um undanþágur frá þessum ákvæðum eru ekki taldar rúmast innan heimilda 2. gr. laganna þar sem ákvæðin snerta efnahagsleg réttindi og skyldur einstaklinga.

Samkvæmt 1. gr. frv. er leitað eftir heimild til þess að víkja frá ákvæðum laga um Húsnæðisstofnun ríkisins um kaupskyldu og forkaupsrétt sveitarfélaga á félagslegum íbúðum þegar ákveðin tilraunaverkefni eiga í hlut. Sveitarfélögin sem eiga hlut að þessu máli eru: Hornafjörður, Borgarbyggð, Reykjanesbær og Vestmannaeyjar. Það er hugsanlegt að fleiri bætist við. Þessi fjörur sveitarfélög sækja um að gera tilraun með nýtt fyrirkomulag félagslegra eignaríbúða. Í því felst að fólki er veitt lán til að verða sér sjálft út um íbúð á almennum markaði í stað þess að húsnæðisnefnd úthluti félagslegri íbúð til fólks. Hugmyndirnar gera ráð fyrir að fólk velji sér íbúð á almennum markaði og sjái við endursölu sjálft um söluna á almennum markaði samkvæmt almennum reglum en áður hafi það gert upp endurlán við bæjarfélag sem aftur hefur gert upp lán við Byggingarsjóð verkamanna.

Nánar tiltekið er tilhögunin í grófum dráttum sú að Byggingarsjóður verkamanna lánar sveitarfélagi sem síðan endurlánar einstaklingi, eða þá að byggingarsjóðurinn lánar bæði sveitarfélagi og einstaklingi og sveitarfélag endurlánar einstaklingi sinn hluta. Í hvoru tveggja tilviki er einstaklingi veitt lán til að byggja eða kaupa íbúð á almennum markaði og þegar sá einstaklingur hyggst selja íbúðina sér hann um söluna með sama hætti og gengur og gerist á almennum markaði. Samhliða skal hann þó gera upp endurlánið við sveitarfélagið og lán við Byggingarsjóð verkamanna þar sem það á við og sveitarfélög greiða upp lán sitt hjá Byggingarsjóði verkamanna.

Ég tel að það séu ýmsir kostir við að gera slíka tilraun við lánveitingar í stað úthlutunar á íbúðum. Þeir eru það miklir að það réttlætir að hvikað sé frá kaupskyldunni. Kostirnir beinast bæði að stjórnvöldum og viðkomandi einstaklingum. Þannig einfaldast mjög öll framkvæmd með tilheyrandi sparnaði og dregið er úr umsvifum í kringum félagslega íbúðarkerfið. Einnig er líklegt að tilraunaleið þessi geti þegar fram í sækir að einhverju leyti greitt fyrir því að sveitarfélag geti selt íbúð sem illa gekk að selja í gamla kerfinu. Þannig geti sveitarfélag selt einstaklingi sem fengið hefur lán samkvæmt nýju leiðinni íbúð sem sveitarfélagið hefur áður keypt samkvæmt kaupskyldunni enda hafi lán við Húsnæðisstofnun verið gerð upp. Þar sem einstaklingurinn kaupir á markaðsverði getur svo farið í þeim sveitarfélögum þar sem markaðsverð er lægra en innkaupsverð samkvæmt kaupskylduákvæðum, að sveitarfélag hafi af þessu kostnað sem nemi mismuninum. Kostirnir fyrir einstaklinginn eru ótvíræðir. Hann getur valið sér íbúð sjálfur og e.t.v. endurbætt hana sjálfur smám saman og lækkað þá skuldabyrði sína.

Í 2. gr. frv. er leitað eftir heimildum til að víkja frá ákvæðum 1. mgr. 18. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, um að atvinnulausir geti stundað námskeið eða annað nám sem varir lengur en í átta vikur á bótum og 1. mgr. 20. gr. sömu laga um að umsækjandi skuli láta skrá sig vikulega hjá vinnumiðlun að viðlögðum missi bótaréttar. Nokkur reynslusveitarfélög hafa sett fram óskir um tilraunaverkefni sem fela í sér að ráðgjöf og úrræði vinnumiðlunar fyrir atvinnulausa verði efld. Hugmyndir fjögurra þeirra; Reykjanesbæjar, Reykjavíkur, Borgarbyggðar og Akureyrar, fela í sér óskir um frávik frá framangreindum lagaákvæðum. Reykjanesbær, Borgarbyggð og Akureyrarbær, hafa óskað eftir undanþágu frá ákvæðinu um átta vikna hámarkstíma atvinnulausra til að stunda nám á bótum. Sveitarfélögin telja að með því að hafa möguleika á að geta boðið atvinnulausum að stunda nám í lengri tíma en átta vikur skapist svigrúm til að skipuleggja námsúrræði fyrir atvinnulausa sem raunverulega auki starfsmöguleika þeirra, en ljóst er að átta vikna reglan takmarkar mjög gagnsemi námskeiða fyrir atvinnulausa. Beinast hugmyndir sveitarfélaganna auðvitað að því að bjóða þeim sem minnst nám eiga að baki og eru í mestri hættu að verða lagtímaatvinnulausir upp á slík námsúrræði. Að bjóða atvinnulausum upp á slíka námsmöguleika er nýmæli hér á landi og því heppilegt að afla fyrst reynslu af því í einstökum sveitarfélögum þar sem hægt er að fylgjast með framkvæmd og meta að tilraunatímabili loknu hver árangurinn hefur orðið, en markmið slíks náms er auðvitað að auka atvinnumöguleika hinna atvinnulausu. Hugmyndir eru uppi um að þessi sveitarfélög bjóði upp á slíkt nám í samvinnu við framhaldsskóla en ljóst er að gæta verður þess að slíkt nám skarist ekki við almennt lánshæft nám og það verður að skipuleggja með þarfir hvers og eins í huga þar sem oft eiga í hlut einstaklingar sem hafa flosnað upp úr hinu almenna skólakerfi.

Samkvæmt 1. mgr. 20. gr. sömu laga verður atvinnulaus maður að láta skrá sig vikulega hjá vinnumiðlun að viðlögðum missi bótaréttar. Með því að veita undanþágu frá vikulegri skráningu er unnt að skapa svigrúm og hvata til að efla virkni bæði vinnumiðlana og hinna atvinnulausu. Tilgangur ákvæðisins um vikulega skráningu er að hafa eftirlit með því að maður sé atvinnulaus. Með öflugri þjónustu vinnumiðlunar skapast meiri tenging milli vinnumiðlunar og hins atvinnulausa. Af því leiðir að vinnumiðlun getur betur fylgst með því að bótaþegar fullnægi skilyrðum bótaréttar án þess að vikuleg skráning þurfi til að koma. Í sveitarfélögunum eru uppi hugmyndir um að atvinnulausum sem eiga á hættu að verða langtímaatvinnulausir verði boðið upp á sérstaka aðstoð sem feli m.a. í sér að hinn atvinnulausi og vinnumiðlun geri í sameiningu áætlun um hvernig eigi að vinna að því að hann fái vinnu. Í áætluninni verði kveðið á um hvað hinn atvinnulausi á að gera sjálfur til að fá vinnu og hvaða aðstoð hann á rétt á frá vinnumiðlun til að vinna að markmiði áætlunarinnar. Með áætluninni skuldbindur hinn atvinnulausi sig til að vera virkur í atvinnuleit. Í stað þess að þurfa að mæta til vikulegrar skráningar þarf hann að sýna fram á hvað hann hafi aðhafst til að fá sér vinnu, t.d. að hann hafi sótt um vinnu, sótt námskeið eða tekið þátt í sérstökum verkefnum.

Fyrirmynd þessara hugmynda er sótt til nágrannalanda okkar þar sem svokölluð ,,handlingsplön`` fyrir atvinnulausa hafa unnið sér fastan sess. Það er mikils virði að fá reynslu af þessu fyrirkomulagi hér á landi. Þau sveitarfélög sem hafa áhuga á slíkum tilraunum eru Reykjanesbær, Borgarbyggð og Akureyri. Það skal tekið fram að þessar hugmyndir eru í samræmi við hugmyndir nefndar sem skipuð var til þess að endurskoða lög um atvinnuleysistryggingar.

Hugmyndir Reykjavíkurborgar eru nokkuð annars eðlis, en þær byggjast á að skráning fari fram á tveggja vikna fresti. Í stað vikulegrar skráningar verður lögð áhersla á að efla einstaklingsráðgjöf við atvinnulausa þannig að hægt sé að ná því markmiði að kalla reglubundið inn til ráðgjafar þá einstaklinga sem hafa verið tiltekinn tíma á skrá, svo sem þrjá mánuði.

Herra forseti. Ég legg áherslu á að það sem liggur að baki frv. er að gera möguleg umbótaverkefni sem fela annars vegar í sér endurbætur á félagslega íbúðakerfinu. Með svona tilraunaverkefnum er farin varfærnislegri leið en tíðkast hefur, þ.e. að reyna nýtt fyrirkomulag í nokkrum sveitarfélögum og meta síðan árangur eftir ákveðinn tíma, í stað þess að kollvarpa kerfinu alveg. Hins vegar er með frv. sótt um heimildir til þess að gera tilraunir til að þróa ný úrræði fyrir atvinnulausa sem hafa það að markmiði að auka atvinnumöguleika þeirra.

Ég legg til að málinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hæstv. félmn.