Reynslusveitarfélög

Miðvikudaginn 10. apríl 1996, kl. 18:48:18 (4523)

1996-04-10 18:48:18# 120. lþ. 115.6 fundur 390. mál: #A reynslusveitarfélög# (félagslegar íbúðir, atvinnuleysistryggingar) frv. 78/1996, félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur

[18:48]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þær umræður sem hér hafa orðið. Mér finnst áhyggjur hv. síðasta ræðumanns óþarflega miklar. Þetta frv. er flutt til að mæta óskum viðkomandi sveitarfélaga sem eru að undirbúa ásamt stjórnvöldum samninga um yfirtöku verkefna. Þetta er einungis til þess að útbúa lagastoð til að ganga frá samningum á þann hátt sem sveitarfélögin geta sætt sig við.

Hvað varðar félagslegt kerfi í þessum sveitarfélögum, þ.e. það sem þegar er komið af félagslegu kerfi, þá heldur það auðvitað áfram og hefur sinn gang eins og ekkert hafi í skorist. En þessi sveitarfélög eru að biðja um að fá að reyna nýja möguleika. Í þessu tilfelli varðandi félagslegar íbúðir.

Það er hárrétt hjá hv. þm. og hjá viðmælanda sjónvarpsins í Keflavík að félagslega kerfið hefur orðið fyrir ósanngjarnri umræðu að sumu leyti. Ég held að menn hafi miklað fyrir sér, sérstaklega sumir íbúar í félagslega kerfinu, annmarka sem þeir hafa séð á kerfinu, t.d. eins og þá að eignamyndunin sé mjög hæg. Vissulega er eignamyndun í félagslega kerfinu mjög hæg til að byrja með. En það er annað sem stingur mig. Félagslegu íbúðirnar hafa orðið of dýrar í sumum tilfellum. Kröfurnar um frágang hafa verið mjög stífar og eins og hv. þm. nefndi er náttúrlega engin glóra í því að vera búinn að koma litlum blokkaríbúðum upp í 11 millj. og það á svæði þar sem íbúðaverð er ekki tiltakanlega hátt.

Félagslega kerfið gengur upp sums staðar og sums staðar ekki. Sums staðar hafa menn sprengt sig á félagslega kerfinu. Þeir hafa verið að halda uppi atvinnu, byggingarstarfsemi í sveitarfélögum og byggt og byggt félagslegar íbúðir jafnvel fram yfir þörf og jafnvel þannig að verðfall hefur orðið á öðru húsnæði á viðkomandi stöðum. En sums staðar gengur þetta ágætlega upp og sums staðar er þetta bara í góðu lagi. Um tíundi hluti fjölskyldna í landinu býr í félagslegu húsnæði og sem betur fer er mest af því í góðu lagi. En sérstaklega nú í seinni tíð hafa hlutir farið úrskeiðis og það er sjálfsagt að reyna að laga það. Nefnd er að störfum sem er að líta á framhaldið á þessu, þ.e. hvernig við getum sneitt vankanta af félagslega kerfinu. Ég vona að hún komist að góðri og skynsamlegri niðurstöðu.

Ég átti ágætan fund í gær með fulltrúum Alþýðusambands Íslands um húsnæðismál og hygg gott til áframhaldandi samstarfs. Alþýðusambandið hefur látið sig húsnæðismál miklu varða og þar er saman komin mikil þekking á þeim, ekki síst á hinni félagslegu hlið húsnæðismálanna.

Mér finnst það góð regla og eðlileg að kynna samninga sem gerðir eru í hv. félmn., samninga sem gerðir eru í reynslusveitarfélagaverkefninu. Ég vænti þess að ég leggi fram skýrslu á Alþingi í haust um framvindu verkefnisins. Skýrsla sem ég legði fram í dag yrði ósköp rýr að vöxtum. Reyndar er hún hér að nokkru leyti í greinargerð frv. þar sem getið er um hvar verkefnið standi. Ég held að e.t.v. hafi verið valin of mörg reynslusveitarfélög því að það hefur heldur tafið fyrir verkefninu. Sveitarfélögin eru misjafnlega undir það búin að taka við verkefnum og sveitarstjórnarmenn á hinum ýmsu stöðum hafa misjafnan áhuga. Ég held að þetta væri komið lengra ef kröftunum hefði ekki verið dreift svona mikið. Þetta er þó á sæmilegu róli, en vissulega hefur framvindu málsins seinkað meira en ég ætlaði.

Það eru einungis tvö verkefni sem hafa verið slegin út af borðinu í þessu sveitarfélagaverkefni. Tvö ráðuneyti hafa neitað sveitarfélögum um viðræður um yfirtöku á verkefnum. Einu sveitarfélagi var neitað um að taka upp umræður um yfirtöku á framhaldsskóla sem það óskaði eftir. Rökin voru þau að það væri mikið verkefni að raska framhaldsskólanum á sama tíma eða fara að flytja framhaldsskólann á sama tíma. Einnig hefur komið neitun frá dómsmrn. um staðbundna löggæslu sem sveitarfélög hafa haft áhuga á.

Það er alveg rétt að við megum ekki gleyma þeim nemendum sem flosna upp úr skóla. Því miður er það svo, hv. þingmenn, að það eru hreinlega ekki efnahagslegar forsendur fyrir dálítinn hluta unglinga á Íslandi til að sækja nám í framhaldsskóla. Þar á ég við dreifbýlisunglinga sem þurfa að sækja nám um langa vegu, sérstaklega unglinga úr sveitum þar sem fjölskyldutekjur eru orðnar mjög lágar vegna samdráttar í sauðfjárrækt. Það er bókstaflega útilokað fyrir illa setta fjölskyldu sem hefur haft afkomu sína af sauðfé að senda t.d. frá sér tvö börn í framhaldsskóla eða halda þeim úti þegar árstekjur eru komnar langt niður fyrir milljón. Það kostar aldrei innan við 500--600 þús. að halda unglingi úti í námi fjarri heimili.

Ég held ég láti þetta gott heita. Ég vænti þess að hv. félmn. taki þetta mál til skoðunar og afgreiðslu. Eins og ég sagði áðan er sjálfsagður hlutur að leggja fram í nefndinni þá samninga sem við komum til með að gera og höfum gert. Hún getur fylgst með framvindu málsins og ég tel það mjög mikilvægt að Alþingi eða þingnefnd hafi aðstöðu til að fylgjast með framgangi málsins og læra af þeirri reynslu með okkur sem af þessu fæst.