Samkomulag um þinghaldið

Fimmtudaginn 11. apríl 1996, kl. 10:34:08 (4524)

1996-04-11 10:34:08# 120. lþ. 116.91 fundur 239#B samkomulag um þinghaldið# (aths. um störf þingsins), SvG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur

[10:34]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Þegar frv. um stéttarfélög og vinnudeilur var lagt fram á Alþingi kom fram að það væri skoðun okkar margra að ríkisstjórnin hefði ekki aðeins sagt í sundur friðinn við fólkið í verkalýðsfélögunum og þar með þjóðina alla heldur hefði hún líka sagt í sundur friðinn á Alþingi. Frá því að þær yfirlýsingar komu fram af okkar hálfu hefur ekkert gerst sem breytir afstöðu okkar. Þvert á móti. Þrátt fyrir víðtækustu mótmæli verkalýðshreyfingarinnar allrar í áratugi frá ASÍ, BSRB, BHM, Sambandi bankamanna og Kennarasambandi Íslands hefur ríkisstjórnin ákveðið að halda hinum umdeildu frv. til streitu. Á fundi með forustumönnum verkalýðssamtakanna í gær neitaði ríkisstjórnin að draga þessi mál til baka. Ráðherrarnir hafa sagt að mál þessi séu í höndum þingsins sem geti breytt þeim. Það er rétt en ekki nægilega skýrt að okkar mati. Það hættulega við þessi mál er málsmeðferðin sjálf og aðdragandi málsins. Þess vegna dugir ekkert minna að okkar mati en að ríkisstjórnin dragi þessi frv. til baka.

Af þessum ástæðum ítreka ég hér, herra forseti, fyrir hönd formanna þingflokka stjórnarandstöðunnar, að ekkert samkomulag er um þinghaldið í einstökum atriðum. Ég mótmæli einnig að haldnir séu nefndarfundir á óeðlilegum tímum, sérstaklega nefndarfundir um hin umdeildu frv. utan venjulegs fundartíma nefnda. Þar á ég t.d. við boðaðan fund í efh.- og viðskn. sem átti að halda á laugardaginn kemur en nú hefur nú ákveðið að falla frá því vegna mótmæla stjórnarandstöðunnar. Ég lýsi því hér með yfir, herra forseti, að ekkert samkomulag er við stjórnarandstöðuna um þinghaldið. Þessa afstöðu kynntum við fyrir forseta Alþingis, Ólafi G. Einarssyni í gærkvöld á fundi með honum en kynnum nú þingheimi þessa afstöðu okkar með formlegum hætti, herra forseti.