Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 11. apríl 1996, kl. 10:40:04 (4526)

1996-04-11 10:40:04# 120. lþ. 116.4 fundur 344. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (nauðasamningar) frv. 64/1996, SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur

[10:40]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Eins og forseti gat réttilega um var sú sem hér stendur í miðri ræðu þegar fundi var frestað. Ég ætla að leitast við að fara þannig yfir málið að það náist af því nokkuð heildstæð mynd í þeim ræðutíma sem ég hef í dag.

Það sem hér er til umræðu er frv. til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt. Eins og segir í greinargerð með frv. styðst sú lagabreyting sem hér er farið fram með við eftirfarandi stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, með leyfi forseta:

,,Stuðla verður að því að einstaklingar sem eiga í alvarlegum greiðsluerfiðleikum, hafi möguleika á því að ná tökum á fjármálum sínum.``

Ríkisstjórnin vill greinilega meina að sú lagabreyting sem hér er farið fram með stuðli að þessu en ég er komin hér í ræðustól vegna efasemda minna um það mál. Ef við lítum á frv. annars vegar og hins vegar þá lagagrein sem hér er verið að breyta kemur strax í ljós að þær breytingar sem verið er að gera eru ekki efnislegar. 111. gr. laganna um tekjuskatt og eignarskatt kveður á um það að telji innheimtumaður tök á að tryggja greiðslu á kröfu sem ella mundi tapast með samningi um greiðslu þá gefi hann fjmrh. skýrslu um málavöxtu. Fjmrh. er þá heimilt að samþykkja slíkan samning. Ef við berum svo þessa lagagrein saman við 1. gr. þess frv. sem hér liggur fyrir sjáum við strax að það sem verið er að gera hér er einvörðungu það að 111. gr. eða 2. mgr. hennar er klofin upp í þrjá hluta, þ.e. 1., 2. og 4. mgr. 1. gr. frv. og inn í er síðan bætt 3. mgr. Það hlýtur þá að vera hún sem réttlætir þá lagabreytingu sem hér er farið fram með því tæpast er það verkefni löggjafans að endurtaka þá löggjöf sem þegar er til staðar. Ef við lítum á 3. mgr. þá sjáum við strax að efnisbreytingar eru engar. Í fyrsta lagi er endurtekið að innheimtumaður verði að telja hagsmunum ríkissjóðs betur borgið.

Í öðru lagi er talað um að gjaldandinn eigi að vera skuldlaus í virðisaukaskatti, staðgreiðslu opinberra gjalda, tryggingagjaldi og vörugjaldi. Sú árétting er studd í greinargerð með því að segja okkur frá því að nauðasamningaleiðin hafi verið torsótt fyrir einstaklinga utan rekstrar. Þess vegna þurfi sérstaklega að vísa til þess. Hins vegar kemur jafnframt fram í greinargerð að heimildin sé ekki bundin við einstaklinga utan rekstrar. Þannig að þarna virðist ekki vera um efnisbreytingu að ræða.

Í þriðja lagi mega menn ekki hafa verið skattsvikarar til að fá samning og skyldi nú engan undra það fyrst það á að gæta jafnræðis.

Í fjórða lagi er síðan endurtekið aftur ákvæðið um hagsmuni ríkissjóðs.

[10:45]

Herra forseti. Eins og ég hef sagt sé ég ekki þá efnisbreytingu hér sem réttlætir það að menn séu að leggja fram frv. til breytinga á lögunum. Í núverandi lagagrein eru ákvæði þess efnis að það má gera samning við skuldara telji innheimtumaður tök á að tryggja kröfu sem ella mundi tapast. Ég sé ekki að það breyti miklu þó það ákvæði sé tvítekið til viðbótar í greininni.

Ég hlýt líka að spyrja, fyrst það er nauðsynlegt að tvítaka ákvæðið til viðbótar, hvort menn hafi talið að ekki væri nægjanlegt að segja þetta einu sinni í lagatextanum. Í texta greinargerðarinnar kemur jafnframt fram að innheimtumenn hafi séð einhver vanhöld á því að mæla með nauðasamningum. Það hlýtur þá að vera þannig að setningin í núverandi lagagrein, ,,að með samningi``, sé samningur einfaldlega túlkaður öðruvísi en að um nauðasamning geti verið að ræða. Ég hlýt því að spyrja hæstv. fjmrh.: Var ekki einfaldara að túlka þetta þannig að orðið ,,samningur`` tæki jafnframt til nauðasamninga? Og fyrst það var erfiðara fyrir einstaklinga en þá sem voru í rekstri var orðið ,,samningur`` þá túlkað sem nauðasamningur þegar það átti við lögaðila eða þá sem voru í rekstri en ekki við einstaklinga? Jafnframt væri fróðlegt að vita að ef menn ekki gátu túlkað orðið ,,samningur`` þegar um væri að ræða nauðasamning, hvort hagsmunir ríkissjóðs hafi þá verið fyrir borð bornir í þeim tilvikum að einstaklingar hafi beðið um nauðasamning, hvort innheimtumenn hafi þá ekki getað litið til hagsmuna ríkissjóðs eða hvort af því að það stóð ekki nauðasamningur í greininni heldur bara samningur, þá hafi menn séð sig knúna til að vísa slíku á bug ef um einstaklinga væri að ræða. Öðruvísi er ekki hægt að skilja þennan sérkennilega texta og þá greinargerð sem fylgir með. Það er sem sagt óskað eftir því að þingið verði upplýst um það hvaða vinnureglum hafi verið beitt. Og hafi innheimtuaðilar ekki talið að hagsmunum ríkissjóðs væri betur borgið með samningum, jafnvel þó það væru nauðasamningar eftir atvikum, þá veltir maður því fyrir sér hvort hér sé einvörðungu um orðaleik að ræða og það hlýtur að leita á, herra forseti.

Ég er reyndar þeirrar skoðunar, og það kom fram þegar ég byrjaði að ræða þetta mál á sínum tíma, að hér sé um að ræða frv. hliðstætt því sem hæstv. félmrh. kom með inn í þingið í haust til breytinga á lögunum um húsnæðismál. Þar áttu menn greinilega að skilja málið þannig að um væri að ræða einhverja bót fyrir fólkið í landinu, en um leið og farið var að skoða efnisinnihald málsins, þá kom í ljóst að ýmist var verið að staðfesta það sem áður var ellegar að um beinar þrengingar væri að ræða. Mér sýnist, herra forseti, að hér sé um að ræða frv. um ekki neitt, frv. sem er einungis borið fram til þess að einhverjir hæstv. ráðherrar geti sagt að það hafi verið farið fram með tiltekna breytingu. En ég vil aftur vekja athygli á því að í núverandi lagagrein er það númer eitt að hagsmunum ríkissjóðs sé borgið en í frv. er það tvítekið til viðbótar þannig að ef einhver hefur látið blekkjast af því að hér væri númer eitt verið að hugsa um einstaklinga, þá er það mikill misskilningur þegar litið er til þeirrar áherslu sem hér er lögð á hagsmuni ríkissjóðs.

Nú er ég ekki að endurtaka þetta vegna þess að ég telji ekki að það sé eðlilegt fyrsta markmið. Það má enginn skilja orð mín svo. Ég er eingöngu að gera kröfu um það að menn fari fram undir réttum formerkjum og flöggum, en setji ekki á sig einhverja merkimiða gæsku við þá sem hér eiga í erfiðleikum eða minna mega sín og beri fram frumvörp sem síðan reynast innihalda orðaleiki og ekkert fram yfir það þegar grannt er skoðað.