Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 11. apríl 1996, kl. 11:09:08 (4528)

1996-04-11 11:09:08# 120. lþ. 116.4 fundur 344. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (nauðasamningar) frv. 64/1996, ÖS
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur

[11:09]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Það er við hæfi að hæstv. fjmrh. situr einn og yfirgefinn í sínu sæti og ekki nokkur stjórnarliði treystir sér til að koma hingað og leggja honum lið. Nú er það út af fyrir sig við hæfi að það sé hæstv. fjmrh. sem sitji og taki við ágjöfinni sem stafar af þessu máli vegna þess að það er hann sem hefur í forsvari fyrir Sjálfstfl. tekið að sér að svínbeygja Framsfl. í þeim málum sem þeir lofuðu mestu í fyrir síðustu kosningar. Það er hæstv. fjmrh. sem ræður ferðinni í heilbrigðis- og tryggingamálum þar sem Framsfl. hafði uppi hástemmd loforð og það er hæstv. fjmrh. sem hefur mótað stefnuna þar Framsfl. til verðskuldaðrar minnkunar.

Það er líka hæstv. fjmrh. sem í tíð fyrri ríkisstjórnar eins og í tíð þessarar ríkisstjórnar lagðist gegn þeim sjálfsögðu réttlætismálum sem hv. síðasti ræðumaður, Jón Baldvin Hannibalsson, fjallaði um, að reynt yrði að koma á fót greiðsluaðlögun. Mér finnst það við hæfi, herra forseti, að Framsfl. og allir þingmenn hans flýi eins og hræddar mýs út úr þessum sal í hvert einasta skipti sem þingheimur ræðir húsnæðismál því að hvergi er minnkun Framsfl. jafnaumleg og einmitt þegar við ræðum Framsfl. og húsnæðismálin.

Herra forseti. Frv. sem liggur fyrir er í anda þeirrar friðarhátíðar sem er nýliðin. Í anda páskanna er við hæfi að lögð sé fram friðþæging fyrir syndir Framsfl. því þetta frv. er ekkert annað en lítilþæg friðþæging fyrir syndir þeirra. Þetta er annað frv. sem hér er lagt fram sem tengist svokallaðri uppfyllingu loforða þeirra í húsnæðismálum. Hitt frv. var um réttaraðstoð við einstaklinga til þess að leita nauðasamninga.

Herra forseti. Það er rétt að rifja það upp að það er Framsfl. sem hefur ekki pólitískan kjark til þess að hlýða á mál manna sem tala um húsnæðismál. Það var Framsfl. sem lagðist hvað harðast gegn síðustu ríkisstjórn og einkum Alþfl. þegar húsnæðismál voru annars vegar. Það er við hæfi, herra forseti, áður en við förum í efnislega umræðu um frv. að rifja upp að Framsfl. taldi að þeir erfiðleikar sem steðjuðu að íslenskum heimilum á síðasta kjörtímabili þegar kom að húsnæðismálum væru fyrst og fremst Alþfl. að kenna. Sú umræða spratt í kjölfar skýrslu Þjóðhagsstofnunar þar sem kom vitaskuld fram að skuldir heimilanna höfðu vaxið mjög hratt. Það voru talsmenn Framsfl., ekki síst hæstv. núv. félmrh., sem notaði þetta sem dæmi um það að Alþfl. hefði mistekist í húsnæðismálum og það væri honum að kenna að afkoma heimilanna hefði verið rýrð með þeim hætti að þúsundir heimila römbuðu á barmi gjaldþrots. Þetta var uppistaðan í málflutningi þess manns sem núna er hæstv. félmrh. Auðvitað var þessi túlkun víðs fjarri og Framsfl. hafði aldrei sanngirni til þess að nefna að í skýrslu Þjóðhagsstofnunar var bent á það að skýringanna væri fyrst og fremst að leita í því að í kjölfar verðtryggingarinnar hefði þurft að endurfjármagna nær allt húsnæði í landinu. Og stjórnarliðið, þ.e. sá hluti þess sem tilheyrir Framsfl., horfir fram hjá því að sá hraði vöxtur skulda í húsnæðiskerfinu sem varð á síðasta kjörtímabili varð vegna þess að þáv. ríkisstjórn, fyrst og fremst fyrir tilstilli Alþfl., hratt burt því helsi hafta sem hafði verið byggt upp í húsnæðiskerfinu af Framsfl. áratugum saman. Menn skulu ekki gleyma því að árið 1986 voru þúsundir ungs fólks á Íslandi, þúsundir ungra fjölskyldna sem gátu ekki fengið húsnæði yfir höfuð sér vegna þess að það var ekki hægt að ná fjármagni. Hvernig var aðgangurinn að fjármagni þá? Hann var þannig að það þurfti aðgöngumiða að veislunni og hann fólst í því að vera félagi í Framsfl. Og það var ekki Alþfl. sem hélt þessu fram, herra forseti. Þetta var hægt að lesa í kosningabæklingi sem gefinn var út á ábyrgð formanns Sjálfstfl. í aðfara síðustu kosninga. Það var með öðrum orðum Sjálfstfl., sá flokkur sem núna starfar með Framsfl. sem sagði það fyrir síðustu kosningar að til þess að ungt fólk gæti orðið sér út um lánsfjármagn til þess að reisa sér þak yfir höfuð, þyrfti það að hafa aðgöngumiða að veislunni eins og það var orðað og sá aðgöngumiði var flokksskírteini í Framsfl. Ég hef aldrei tekið undir þetta en það er þetta sem var í kosningabæklingi Sjálfstfl. í Reykjavík og er rétt að það komi hér fram.

[11:15]

Þegar Alþfl. og fyrri ríkisstjórnir fóru í að svipta burt þessu kerfi hafta og helsis, þá gerðist það að á örskömmum tíma gátu þúsundir nýrra aðila, þúsundir ungra fjölskyldna keypt sér húsnæði og á örstuttum tíma tókst að útrýma arfi Framsfl. í húsnæðismálum, biðlistunum. Þetta er arfleifð en líka framtíðarsýn Framsfl. vegna þess að við sjáum það í öðrum málaflokkum sem þeim er trúað fyrir að þar eru það líka biðlistarnir sem eru að verða einkenni þeirra og aðall, t.d. í heilbrigðismálunum þar sem biðlistarnir, sem í tíð síðustu ríkisstjórnar var sérstakt átak gert til þess að útrýma, eru aftur farnir að lengjast. Alls staðar þar sem Framsfl. kemur að birtast biðlistar, þar koma höftin.

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. er húmoristi og hann getur hlegið. Það er greinilega ekki sárt fyrir hann að hugsa til þess, enda þarf hann ekkert að vera sár yfir því vegna þess að hann tók þátt í því með þáverandi samstarfsflokki, Alþfl., að rjúfa þetta kerfi, að ryðja burt þessum höftum. Auðvitað kostaði það tugi milljarða að eyða þessum biðlistum en það varð til þess að stórkostleg fjölgun varð í félagslega íbúðarhúsnæðiskerfinu. Það voru margir sem eignuðust sínar eigin íbúðir á tiltölulega skömmum tíma og auðvitað leiddi þetta til þess að húsnæðisskuldir þjóðarinnar uxu. Ég veit að hæstv. fjmrh., ef hann má vera að því á milli hlátraskalla sinna að hugsa um þetta mál, gæti af því að hann er snjall maður reiknað út að bara það að auka um 100 íbúðir í félagslega húsnæðiskerfinu þýðir að skuldirnar aukast um leið um 6 milljarða. Og nú kinkar hann kolli --- ég sé það en heyri það ekki. --- Ég veit að hann skilur það sem ég er að segja.

Nú er það svo að hæstv. fjmrh. er til mikillar forustu fallinn og aldrei að vita nema hann verði kallaður til enn mikilvægari verka á vettvangi þjóðarinnar heldur en honum hafa verið falin núna. Hæstv. fjmrh. er gamall skáti og má ekkert aumt sjá. Það sem aðallga ber fyrir augu hans við ríkisstjórnarborðið í dag er heldur aumir ráðherrar Framsfl. og þess vegna hefur hann gengið í fótspor kollega síns, hæstv. dómsmrh., og lagt fram lítinn frumvarpsbleðil alveg eins og hæstv. dómsmrh. gerði á sínum tíma. (JBH: Plástur.) Plástur. Hann er eins og konan sem hóf hjúkrunarþjónustu í Krímstríðinu, orðinn Florence Nightingale Framsfl. þótt hann tilheyri öðrum flokki. Má vel vera að þessi plástraaðferð hans eigi eftir að reynast þjóðinni betur við annars konar stjórnvöl, (Gripið fram í: Heldur en í Krímstríðinu.) heldur en í Krímstríðinu. Má vel vera að ef hæstv. fjmrh. hefði verið uppi á þeim dögum, þá hefðu úrslit þess orðið önnur en raunin varð. Það fer auðvitað eftir því hvorum megin hryggjar hann hefði legið. En það skiptir hins vegar ekki máli núna fyrir Framsfl. þó að hæstv. fjmrh. taki á með þeim í þessu máli.

Framsfl. gaf loforð sem allir muna eftir, sem þúsundir fátækra Íslendinga sem áttu í erfiðleikum muna eftir. Það var Framsfl. sem byggði væntingar hjá þessu fólki. Hann tók upp merkið. Það var hann sem lýsti því yfir á Alþingi að ef hann kæmist til valda, þá mundi hann leggja fram frv. um greiðsluaðlögun. Það var ekki nóg með að hann gæfi móralskt loforð um það í þingsölum. Út og suður í kosningabaráttunni hélt framsóknarforustan þessu fram. Það verður samt að segjast hæstv. félmrh. til hróss að hann gerði minnst af þessu, en það skiptir ekki máli. Hann var hluti af þeirri forustu sem gaf þessi loforð og honum voru falin þau völd og sú ábyrgð sem kallar beinlínis á það að hann hafi forustu um það að leggja fram frv. um greiðsluaðlögunina. En hann hefur brugðist þeirri ábyrgð, hann hefur brugðist þeim væntingum. Hann hefur ekki pólitískt þrek til þess að standa uppi í hárinu á Florence Nightingale Sjálfstfl. og knýja þetta mál í gegn. Hann hefur ekki pólitískan kjark til þess vegna þess að Framsfl. er alveg sama um þessi mál sem þeir lofuðu fyrir kosningar. Það er aftur og aftur að koma í ljós í þessum sölum að þeim er sama um draumana sem þeir sköpuðu hjá fólki, þeim er sama þó að þeir fölni. Það sem þá skiptir máli er að þeir eru sestir við stjórnvölinn. Og það er þess vegna sem það gerist að hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir, formaður þingflokks Framsfl., sýpur hveljur í sæti sínu og ég vænti þess þá að hún komi upp á eftir og hreki mál mitt. Er það ekki svo, hv. þm., að það var Framsfl. sem lofaði því að lagt yrði fram frv. um greiðsluaðlögun? Hvar er það frv. í dag? Það frv. sést ekki. Í staðinn er lagt fram frv. sem hæstv. fjmrh. setur fram um tekjuskatt og eignarskatt, sem skiptir engu máli eins og hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir rakti áðan lið fyrir lið. Það er svo sem hægt líka, fyrst hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur brestur minnið þó að ekki sé liðið ár frá kosningum, að rifja það upp að hún var hluti af þeirri forustu sem lofaði gjörbreytingu á högum þessa fólks. Og hvað var það, hv. þm., sem Framsfl. og forusta hans og þar með hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir lofaði? Ég hef rifjað það áður upp úr þessum stóli, en það má vera að hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir hafi ekki verið hérna. Það er allt í lagi að fara yfir þá sögu aftur. Framsfl. lofaði ekki bara að setja fram frumvörp og beita sér fyrir lögum um greiðsluaðlögun. Hann lofaði líka að lækka tímabundið vexti af húsnæðisskuldum fólks í fjárþröng. Það gerði hæstv. núv. iðnrh. í því merka blaði sem hinn vaski hv. þm. Jón Kristjánsson ritstýrir. Hann lofaði því í Tímanum 30. mars og eins og þjóð veit, þá lýgur hvorki Tíminn né ritstjóri hans né hæstv. núv. iðnrh. Og þess vegna spyrja menn í forundran og hrista höfuðið eins og hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir er búin að gera síðasta korterið: Hvar eru efndir þessara loforða?

Framsfl. lofaði líka að frysta skuldir meðan leitað væri lausna fyrir fólk í tímabundnum greiðsluerfiðleikum. Hvar er þetta frost? Ég vildi óska að það væri hægt að kalla varanlega skuldafrystingu yfir þetta fólk, en það bólar ekkert á henni. Framsfl. lofaði meiru. Hann lofaði að draga kanínur upp úr hatti. Hann lofaði að bregða sér í gervi töframannsins vegna þess að í auglýsingu sem flokkurinn birti í DV 3. apríl lofaði hann beinlínis að lækka skuldir. Það væri svo sem hægt að telja upp ýmislegt fleira, en það verður hjóm eitt hjá þessu. Hins vegar liggur fyrir hversu erfitt sem það er fyrir einstaka þingmenn Framsfl. að þeir lofuðu að lækka skuldir, lækka vexti, frysta skuldir, koma á björgunaraðgerðum, koma á greiðsluaðlögun og ég spyr, herra forseti: Hvar eru þessi loforð? Þessi loforð eru gleymd öllum innan Framsfl. Efndir þessara loforða eru í þessum tveimur frumvarpsbleðlum, þessum friðþægingarfrumvörpum sem Sjálfstfl. hefur boðist til og framkvæmt, hefur lagt fram hér á þingi vegna þess að auðvitað er það svo að Sjálfstfl. hefur svínbeygt Framsfl. í þessu máli alveg eins og í heilbrigðismálunum. Þeir ná ekki að koma í gegn sinni stefnu í þessum málum og það getur vel verið að það gjalli kuldahlátur út sæti hv. þm. Valgerðar Sverrisdóttur. Ég mundi í hennar sporum líka hlæja kuldahlátri vegna þess að mér væri kalt í hjartastað ef ég væri í þessari stöðu.