Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 11. apríl 1996, kl. 11:49:41 (4533)

1996-04-11 11:49:41# 120. lþ. 116.4 fundur 344. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (nauðasamningar) frv. 64/1996, SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur

[11:49]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Þá er þetta loksins komið á hreint. Það er augljóst að það eru gerðir nauðasamningar við fyrirtæki á grundvelli 111. gr. laganna. Það kom fram í máli ráðherrans þannig að það er ekkert til vanbúnaðar ef um fyrirtæki er að ræða nema samkvæmt reglum sem þegar eru í gildi ef menn hafa ekki staðið við skil á vörslusköttum. Þær reglur eru í gildi. Það kom jafnframt fram hér að einstaklingar hafa ekki getað leitað nauðasamninga og hafa ekki leitað eftir því úrræði. Vegna hvers? Af því að þeir hafa ekki efni á því. Það þarf ekki að breyta þessum lögum þess vegna. Það er fullkominn óþarfi. Það þarf ekki að breyta þessum lögum vegna þess að samkvæmt því frv. sem hér liggur fyrir stendur ekki til að breyta þeim úrræðum sem þegar eru til staðar. Þau úrræði sem þegar eru til staðar eru endurtekin í þessu frv. og þess vegna stendur það sem menn hafa sagt hér aftur og aftur í dag: Hér er um hreina sýndarmennsku að ræða. Ráðherrann getur komið hér upp og endurtekið það aftur að ráðuneytið taki þátt í nauðasamningum við fyrirtæki nema þegar um er að ræða að þau hafi ekki staðið skil á vörslusköttum. Þetta liggur allt fyrir. Frv. breytir því ekki og jafnframt liggur fyrir að einstaklingar hafa ekki beðið um nauðasamninga af því að þeir hafa ekki haft tök á því. Ekki af því að það hafi ekki mátt samkvæmt lögum.

Herra forseti. Ég held að málið liggi ljóst fyrir.