Íbúðarhúsnæði í eigu ríkisins

Fimmtudaginn 11. apríl 1996, kl. 12:18:49 (4544)

1996-04-11 12:18:49# 120. lþ. 116.5 fundur 394. mál: #A íbúðarhúsnæði í eigu ríkisins# (leiga, sala embættisbústaða o.fl.) frv., KÁ
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur

[12:18]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég vil koma að nokkrum spurningum um þetta mál því að það vakna ýmsar spurningar þegar frv. er lesið. Fyrst um þá stefnu ríkisstjórnarinnar sem ég hygg að sé ekki ný af nálinni heldur eigi töluvert langa sögu, þ.e. það að hætta að bjóða embættismönnum ríkisins upp á bústaði. Auðvitað vaknar fyrst sú spurning hvort það sé endilega rétt stefna. Þá datt mér í hug að Downingstræti 10 í London er frægur staður og er embættisbústaður forsætisráðherra. Því ræður nú á dögum m.a. öryggissjónarmið. Bústaður forsætisráðherra er á þannig stað og forsætisráðherra í þeirri stöðu að það þarf að gæta mikils öryggis og það gildir um fleiri háttsetta embættismenn. Þá vaknar auðvitað sú spurning hvort það sé rétt að stefna að því að leggja alfarið niður embættisbústaði. Ég varpa fram þeirri spurningu. Frá árinu 1907, að ég hygg, var ráðherrabústaðurinn við Tjarnargötu bústaður ráðherra og síðar forsætisráðherra Íslands og var það fram yfir heimsstyrjöldina síðari. Ég held ég muni það rétt að Hermann Jónasson hafi verið síðasti forsætisráðherrann sem bjó þar. Ekki kann ég þá sögu hvers vegna því varð hætt. Hvort það varð breyting þegar Reykvíkingar fóru að taka við þessum embættum að þá hafi ekki verið talin þörf á þessu. En það er einn háttsettur embættismaður sem ég man eftir sem er í Reykjavík og hefur embættisbústað og það er biskup Íslands. Ég held að ég fari rétt með það. Það kom fram í ræðu hæstv. fjmrh. að ekki sé meiningin að hrófla við embættisbústöðum presta. Er það ekki rétt hjá mér? Þá vaknar sú spurning hvers vegna það sé ekki gert. Er það vegna samkomulags við kirkjuna og vegna þeirra deilna og umræðna sem hafa átt sér stað um eignir kirkjunnar eða hvað er það sem veldur? Þetta eru fyrst spurningar um stefnuna.

Síðan vil ég taka annan pól í hæðina en hv. síðasti ræðumaður sem var hér í andsvörum, hv. þm. Ágúst Einarsson, velti því fyrir sér hvort meiningin væri að bjóða embættismönnum og ríkisstarfsmönnum einhver vildarkjör. Ég spyr þvert á móti: Hvaða áhrif munu þessar breytingar hafa á kjör þessa hóps ríkisstarfsmanna? Hefur þetta mál verið rætt við þeirra samtök eins og t.d. BHM? Ég beini þeirri spurningu til hæstv. fjmrh.: Hvaða hópur er þetta sem við erum hér að tala um? Ég hygg að enn þá séu við lýði allnokkrir læknabústaðir, kennara- og skólastjórabústaðir, jafnvel bústaðir hjúkrunarfræðinga. Hvaða áhrif hefur það á þeirra kjör ef leiga verður stórhækkuð? Þetta er ekki lítið mál vegna þess að það að fá embættisbústað með tiltölulega lágri eða nánast engri leigu er hluti af launakjörum fólks. Ég spyr líka hvaða þýðingu það hefur fyrir landsbyggðina, við erum auðvitað fyrst og fremst að tala um landsbyggðina, ef þarna verður sú breyting á að leiga verður annaðhvort stórhækkuð eða bústaðirnir seldir. Hvað gæti það þýtt gagnvart landsbyggðinni varðandi það að fá fólk til starfa? Hvernig ætli það muni ganga að fá embættismenn út á land ef þeir missa þennan hluta kjara sinna? Það er staðreynd sem við getum ekki annað en horfst í augu við að það er mjög mikið um það að t.d. læknar, kennarar, jafnvel sýslumenn, fari tímabundið í störf út á land. Ég held að menn verði að velta því fyrir sér ef þessar breytingar verða samþykktar hvort þetta gæti ekki þýtt að það yrði mun erfiðara að fá embættismenn út á land. Þetta þarf hæstv. fjmrh. að skýra betur fyrir okkur.

Það kemur fram að um er að ræða um 400 íbúðir og þær eru áreiðanlega langsamlega flestar utan höfuðborgarsvæðisins þó að það kunni að vera hér eins og ég nefndi áðan einstaka húseignir. Það væri fróðlegt að fá það fram hjá hæstv. fjmrh. hversu margir embættisbústaðir eru í eigu ríkisins í Reykjavík og nágrenni. Það væri fróðlegt að fá það fram. Ég er hér fyrst og fremst að beina spurningum til hæstv. fjmrh. Hér í greinargerð eru nefnd dæmi um það hvernig menn gætu hugsanlega reiknað þessa leigu en það er ákaflega erfitt að átta sig á því hvað þetta þýðir. Hvað þýðir þetta fyrir launakjör þeirra starfsmanna ríkisins sem þarna eiga í hlut?

Ég held ég sé búin að koma á framfæri flestum þeim spurningum sem hafa vaknað hjá mér við lestur og yfirferð frv. Það er ljóst að ef af þessari hækkun leigu og sölu húseigna verður þýðir það allverulega tekjuaukningu fyrir ríkissjóð. Þ.e. annars vegar fengjust tekjur fyrir söluna og hins vegar mundi draga verulega úr þeim kostnaði sem ríkissjóður hefur af eignunum. Þá vaknar líka enn ein spurningin sem snýr að viðhaldi húseigna ríkisins. Mér hefur skilist og það hefur oft komið fram í fréttum og reyndar kemur það fram hér í frv. að viðhald á húseignum ríkisins hafi verið heldur slælegt. Því spyr ég um þær tölur sem menn eru að gefa sér um sölu á ríkiseignum. Það segir hér: ,,Áætlað er að söluandvirði geti numið allt að 900 millj. kr.`` Ég spyr hvort þetta mat byggist á ástandi þessara húseigna og því í hversu mikinn kostnað þurfi að leggja til að gera mörg þessi hús sómasamleg. Ég vildi gjarnan fá svör hæstv. fjmrh. við öllum þessum spurningum.

Ég fæ tækifæri til að skoða þetta mál nánar. Það sem mér finnst skipta mjög miklu máli er að breytingar af þessu tagi sem snerta hag ákveðins hóps ríkisstarfsmanna séu kynntar og ræddar við viðkomandi stéttarfélög vegna þess að hér er um verulega breytingu að ræða. Ég set jafnframt ákveðið spurningarmerki við þá stefnu að ríkið hætti nánast alfarið rekstri embættisbústaða og þá ekki síst með það sjónarmið í huga hvort það muni ekki gera landsbyggðinni erfiðara fyrir en nú er að fá fólk til þessara ákveðnu starfa sem hér um ræðir.