Íbúðarhúsnæði í eigu ríkisins

Fimmtudaginn 11. apríl 1996, kl. 12:28:26 (4545)

1996-04-11 12:28:26# 120. lþ. 116.5 fundur 394. mál: #A íbúðarhúsnæði í eigu ríkisins# (leiga, sala embættisbústaða o.fl.) frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur

[12:28]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir með hv. ræðumanni að auðvitað þarf að gæta öryggissjónarmiða þar sem það á við. Sem betur fer höfum við sloppið mjög vel hingað til en ég hygg að það eigi ekki við um embættisbústaði úti á landi í eigu ríkisins sem þetta frv. fjallar um.

Í öðru lagi er ég ekki í stakk búinn hér til að lýsa nákvæmlega af hverju ekki er fjallað um prestsbústaði og biskupsstofu hér, einfaldlega vegna þess að það er samningur sem ríkir milli ríkis og kirkju um það hvernig farið er með þau mál. Ég vonast til að hv. þm. virði mér það til vorkunnar en afli sér upplýsinga í nefndinni. Þar eru aðstæður nokkuð sérstakar því oft er um jarðir að ræða.

Í þriðja lagi var minnst á hvort við hefðum rætt við BHM um þessi mál. Það hefur ekki verið gert að því ég best veit. Það eru fyrst og fremst ráðuneytisstjórar sem hafa fjallað um þetta. Það hefur ekki verið talið að þessi húsnæðismál séu hluti af launakjörum. Þau hafa auðvitað áhrif á almenn kjör en þetta er ekki hluti af launakjörum. Hér er um að ræða bústaði, lækna, dýralækna, dómara, sýslumanna, skólastjóra, stundum hjúkrunarfræðinga og stundum ekki, eftir atvikum, sums staðar kennara og sums staðar ekki. Reglurnar eru því nokkuð óvissar. Við teljum að það þurfi að fara varlega í þessum efnum. Ég undirstrikaði það í ræðu minni. Það verður ekki hætt alls staðar. Það hefur gengið betur að fá fólk til starfa að undanförnu en oftast áður. Viðhald húsa hefur batnað vegna þess að nú fer húsaleiga til þess að viðhalda húseigninni. Meðalverðið er reiknað út með þeim hætti að það eru tekin 80% af brunabótamati á hverjum stað og margfaldað síðan með íbúafjöldanum og það gerir þessa tölu 900 millj. kr.

Ég vona að ég hafi komið flestu því fram sem var spurst fyrir um í ræðu hv. þm.