Þjónustusamningar og hagræðing í ríkisrekstri

Fimmtudaginn 11. apríl 1996, kl. 12:39:51 (4549)

1996-04-11 12:39:51# 120. lþ. 116.6 fundur 423. mál: #A þjónustusamningar og hagræðing í ríkisrekstri# frv., JBH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur

[12:39]

Jón Baldvin Hannibalsson (andsvar):

Herra forseti. Í athugasemdum með þessu frv. hæstv. fjmrh. um þjónustusamninga og hagræðingu í ríkisrekstri segir svo, með leyfi forseta, þar sem talin eru upp dæmi um slíka samninga sem gerðir hafa verið við ýmsa aðila: ,,Dæmi eru um slíka aðila sem hafa lent í rekstrarvanda sem ríkissjóður hefur þurft að leysa úr svo að lögboðin þjónusta væri tryggð. Í einstaka tilvikum hefur tilætluðum upplýsingum ekki verið skilað og eftirliti ríkisins verið áfátt.``

Af þessu tilefni spyr ég: Getur hæstv. ráðherra nefnt dæmi um það að aðilar sem bundnir hafi verið slíkum þjónustusamningum hafi lent í slíkum rekstrarvanda og ríkissjóður hafi orðið að hlaupa undir bagga, taka á sig þær skuldbindingar? Hvaða dæmi eru það og eru þau umtalsverð?

Annað. Í athugasemdum með frv. segir: ,,Ábyrgð á starfsmannahaldi þessara aðila er í sumum tilvikum ekki nógu skýr og mismunandi reglur í gildi um launagreiðslur, aðild starfsmanna að lífeyrissjóðum og ábyrgð á skuldbindingum.``

Af þessu tilefni spyr ég: Hvaða reglur gilda um það þegar gerðir eru slíkir þjónustusamningar? Eftir hvaða kjarasamningum er farið? Er litið á starfsmenn slíkra aðila, sem ríkið raunverulega kostar þjónustuna hjá, sem opinbera starfsmenn eða hvaða reglur gilda um kjarasamninga og þar af leiðandi þá lífeyrisréttindi? Eru þau innan opinbera geirans eða geta slíkir starfsmenn eins talist vera á almennum markaði?